Fara í efni

STYÐJUM HJÁLPARSVEITIRNAR

DV
DV

Birtist í DV 05.11.12
Hamfarir mæla styrk þjóðfélaganna. Þá reynir á samvinnu og samstöðu. Og þá reynir á innviðina. Ef Vegagerðin hefði ekki á sínum snærum sérfræðinga í brúarsmíð á jökulvatnasvæðum og ef ekki væri á hennar vegum þrautþjálfaðir brúarflokkar einsog raun er - staðsettir á Hvammstanga og í Vík, þá hefði það aldrei getað gerst að ný brú væri komin á Múlakvísl sjö dögum eftir að ólgandi jökulvatn hreif gömlu brúna á brott í hlaupi. Einmitt það gerðist síðastliðið sumar. Og margt fleira.
Almannavarnir voru í viðbragðsstöðu nánast um leið og hamfarirnar hófust. Almannavarnir samhæfðu viðbrögð lögreglu, hjálparsveita, samfélagsþjónustu og einkaaðila. Því miður hefur það gerst tíðara í seinni tíð að tilefni er til að ræsa Almannavarnir en það jákvæða er að maskínan er að verða býsna vel smurð.

Fleira gefur sig þar en hér

En hvernig reynir á innviði samfélagsins? Vegagerðina hef ég nefnt og Almannavarnir og ýmsar stofnanir. Í hamförum reynir á nánast alla verkþætti samfélagsins. Hvernig við byggjum húsin og samgöngumannvirkin, hverjar eru öryggiskröfurnar, hvernig er þeim framfylgt? Eru til staðar þjónustuaðilar sem sinna kalli dag og nótt, óháð því hvort fyrir það fæst greitt eður ei?
Margoft hefur verið fullyrt í mín eyru að sambærilegar hamfarir og víða erlendis leggja borgir í rúst og lama samfélögin, skilji eftir sig tiltölulega minni eyðleggingu hér á landi. Því sé að þakka ströngum öryggisstöðlum við mannvirkjagerð og fyrirhyggju gagnvart náttúruvá.
Í hugum margra eru Bandaríki Norður-Ameríku ímynd hins tæknivædda heims og vissulega er það svo að á ýmsum sviðum stendur enginn Bandaríkjamönnum á sporði hvað tækni og öryggi varðar. Gamaldags rafmagnskerfi, á gamaldags rafmagnsstaurum veldur því hins vegar að rafmagnið fer fyrr af í borgum Bandaríkjanna en gerist í íslenskum bæjum og borgum og húsin okkar standast meiri veðurofsa en gerist víða vestanhafs.

Fyrirhyggju er þörf

Þetta segi ég ekki til að blása okkur út í ofmetnaði heldur til að vekja athygli á hve mikilvægt er að við séum meðvituð um þýðingu fyrirhyggjunnar. Auðvitað er það svo þannig að náttúruöflin geta orðið svo illskeytt að við fáum ekkert við ráðið. En þá er að hafa kerfi heilbrigðis- og félagsþjónustu sem er í stakk búið að taka afleiðingum til skamms og langs tíma.
En hvað með hjálparsveitirnar, hvað með Slysavarnarfélagið Landsbjörg? Er þessi starfsemi hluti af innviðum samfélagsins, hluti samfélagsþjónustunnar? Svar mitt er að svo sé alveg tvímælalaust. Hjálparsveitirnar byggja á sjálfboðaliðastarfi og þótt þær finni fyrir stuðningi hins opinbera með ýmsum beinum og óbeinum hætti þá erum það fyrst og fremst við sem einstaklingar, hvert og eitt, sem þær verða að reiða sig á. Það gerum við meðal annars þegar við kaupum flugeldana um áramótin eða tökum þátt í söfnunum á borð við þá sem nú fer fram.

Þurfum á hjálpandi hönd að halda

Ef við á annað borð viljum hafa í landinu öflugar hjálparsveitir sem alltaf, öllum stundum, eru í viðbragðsstöðu að koma okkur til hjálpar í nauð, þá verðum við að sýna þeim stuðning með fjárframlögum. Það þýðir ekki að tala fallega til þeirra, við verðum að sýna þeim stuðning í verki.
Sjálfum finnst mér hjálparsveitirnar og sá grunnur sem þær starfa á - sjálfboðastarfið -  vera eitthvert mesta aðalsmerki Íslands. Ávallt reiðubúnar  aldrei spurt hvort þú getur borgað - alltaf með útrétta hjálparhönd. Ég hvet alla til að leggja nú seðil í þessa hönd. Við eigum oft eftir að þurfa á henni að halda.