Fara í efni

STYRKJUM ÁS STYRKTARFÉLAG!


Ríki og sveitarfélög (hin síðarnefndu nú í vaxandi mæli) koma að málefnum fatlaðra. En þar koma einnig sjálfseignarstofnanir og félagasamtök að málum.  Ein slík eru Ás styrktarfélag, sem upprunalega hét Styrktarfélag vangefinna. Á heimasíðu félagsins kemur fram að Ás styrktafélag  er sjálfseignarstofnun  sem  hefur  í gegnum árin komið á fót umfangsmiklum rekstri. „Þá hefur félagið notið velvilja og hafa einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki átt drjúgan þátt í að styðja félagið til vaxtar."
Það er einmitt þetta síðastnefnda sem mig langar til að vekja athygli á, því á morgun klukkan 15 fer fram útför móður minnar, Guðrúnar Ö. Stephensen frá  Dómkirkjunni í Reykjavík. Það væri mjög kærkomið og í hennar anda að þeir sem vildu minnast hennar gerðu það með stuðningi við þá mikilvægu starfsemi sem fram fer á vegum Áss styrktarfélags.
Á heimasíðu Áss styrktarfélags er reitur þar sem komast má inn á minningakort þar sem skýrt er hvernig hátta má styrkveitingum. Ekki er verið að óska eftir háum upphæðum, en margt smátt gerir eitt stórt. Sjá: http://www.styrktarfelag.is/
Þetta breytir því ekki að hver og einn styrkir þann málstað sem honum er hugleikinn ef þá á annað borð fólk hefur þann sið að láta af hendi rakna styrk til minningar um látinn einstakling. Öll góð málefni eru vel að stuðningi komin.