Fara í efni

STYRKLEIKI - EKKI VEIKLEIKI

Sæll Ögmundur.
Færi þér þakkir fyrir grein þína í Morgunblaðinu sl. þriðjudag. Vitaskuld geta menn haft mismunandi skoðanir á sekt eða sakleysi Geirs H. Haarde. Engan hef ég heyrt nefna að hann hafi á árinu 2008 gert sér far um að koma þjóðinni á hausinn. Þeir menn eru í öðrum vagni, á öðru spori. Afstaða þín er mér mjög að skapi og þú ert maður að meiri að skipta um skoðun og gera grein fyrir henni með þeim hætti sem þú gerðir. Greinilegt er að þú stendur fast á þínu. Það gætir þú ekki nema fyrir það að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, umber meira en aðrir í hennar stöðu áður. Hún gerir sér greinilega ljóst að skiptar skoðanir og opin umræða á vinstri væng stjórnmálanna eru styrkleiki en ekki veikleiki. Þessi afstaða á eftir halda á lofti nafni hennar löngu eftir að kjörtímabilinu lýkur. Þarna finnur maður fyrir alþýðuflokksstrengnum í henni. Hún er á góðri leið með að verða einn atkvæðamesti formaður flokks síns frá því Gylfi Þ. Gíslason var og hét.
 Gamall Alþýðuflokksmaður