Fara í efni

SUMIR EIGA AÐ HAFA VIT Á AÐ ÞEGJA!

Torsteinn Páls
Torsteinn Páls

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi  formaður Sjálfstæðisflokksins, hvetur ríkisstjórnina til að kalla Alþingi saman til að fella úr gildi ákvörðun Kjararáðs um laun forstjóra hjá ríkinu. Þetta myndi hljóma betur úr munni lágtekjumanns hvort sem hann væri starfandi hjá hinu opinbera eða á almennum markaði. En úr munni Þorsteins Pálssonar eru þetta ótrúlega dómgreindarlaus og ósvífin ummæli.(http://www.ruv.is/frett/vill-neydarlog-a-launahaekkanir  ... http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/07/27/eina-rad-rikisstjornarinnar-kalla-althingi-saman-an-tafar-til-ad-leggja-fram-frumvarp-til-neydarlaga/   

Hjá ríkinu starfar margt fólk sem er frekt til launa sinna. Þetta fólk á það sameiginlegt að sitja ofarlega í launa-píramídanum og er flest hvert iðið við að bera sig illa.

Efstur hygg ég tróni forstjóri Landsvirkjunar með 1.626.437 krónur á mánuði en hann er í hópi þeirra forstöðumanna sem fékk launahækkun þegar Kjararáð felldi úrskurð sinn, 29. júní síðastliðinn. Seðlabankastjóri er einnig bærilega haldinn með  1.519.974 krónur. Laun forstjóra Fjármálaeftirlitsins eru nú 1.289.072 krónur og útvarpsstjóra 1.218.777 krónur. Ég hef grun um að flestir þessir einstaklingar vilji meira og sumir hafa nánast sagt það opinberlega að þeim séu skammtað naumt úr hnefa!

En hvers vegna eru ummæli Þorsteins Pálssonar ósvífin og dómgreindarlaus? Það er vegna þess að hann sjálfur er með hærri tekjur en allt þetta fólk sem hann beinir sjónum að eða 1.786.000 krónur á mánuði, samkvæmt upplýsingum DV.

Hvers vegna skyldi Þorsteinn Pálsson ekki lækka launin við sjálfan sig fyrst hann er tilbúinn að hneykslast opinberlega á þessum kjarasystkinum sínum? Og hvers vegna talar hann ekki fyrir því að fjármálageirinn og hátekjufólk almennt, skeri niður við sig sjálft? Ef hann sjálfur sýndi slíkt fordæmi í verki og beindi orðum sínum innávið og til kjarasystkinanna almennt, hvar sem þau eru starfandi, þá væri hægt að taka hann alvarlega. Að öðrum kosti á hann að hafa vit á því að þegja. Og ef ekki, þá eiga fjölmiðlar að spyrja hann út í eigin kjör og tvískinnunginn í ummælum hans.

Síðan er það hitt að samkvæmt málflutningi Þorsteins Pálssonar er hið skaðvænlega við ákvörðun Kjararáðs um launakjor ríkisforstjóra einkum í því fólgið, að hún geti orðið til þess að láglauna- og millitekjufólk hugsi sér til hreyfings og krefjist kjarabóta og réttlætis. Vonandi gerir þetta fólk einmitt það og horfir ekki þegjandi á misréttið, sem nú birtist okkur á síðum tekjublaðs Frjálsrar verslunar og DV.

Spyrja má hvort innistæða sé fyrir miklum launahækkunum. Ég held að svarið sé neitandi en ekki játandi. Það er hins vegar innistæða fyrir kjarabótum til láglauna- og millitekjuhópa. En það þýðir að efri geirinn í þjóðfélaginu verður að gefa eftir og minnka við sig. Það þýðir kjaralækkun hjá þeim. Þar hvílir nú ábyrgðin: Hjá Þorsteini Pálssyni og kjarasystkinum hans.