SVARS ÓSKAÐ VIÐ SAMVISKU-SPURNINGU
Sæll Ögmundur.
Jæja, nú er komið að stóru samviskuspurningunni minni til þín og mér þætti mjög vænt um ef þú svaraðir spurningunni af fullkomnum heiðarleika ... bara beint frá almennum sanngirnis- og réttlætis-gildum þínum; og þess vegna beint frá hjarta þínu: Styður þú réttmæta og góða baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna, sem vel að merkja má að nokkru leyti líkja við baráttu ykkar í Sigtúns-hópnum hér um árið ? Afstaða þín í þessu máli gæti skipt sköpum, ef þú kemur fram af festu og myndugleik í þessu máli, gegn beltis og axlabanda og stökkbreyttum verðtyggingar okurlánara-djöflum. Mæli svo með að þú lesir góða grein Jóhannesar Björns á vald.org, jafnvel til að fríska þig upp til þess baráttumanns sem ég vona enn að leynist innra með þér ... öll lífsins glóð, sem öllu máli skiptir.
Pétur Örn Björnsson
Allar götur frá hruni hef ég talað fyrir almennri niðurfærslu skulda. Sem ráðherra sat ég síðan síðastliðið haust fundi ásamt öðrum ráðherrum og fulltrúum stjórnmálaflokkanna á þingi með forsvarsfólki fjármálastofnana þar sem þessi mál voru rædd.
Ekki fór ég þar í launkofa með skoðanir mínar heldur talaði mjög afdráttarlaust fyrir niðurfærslu og lækkun vaxta. Var ég þarna mjög á róli með Hagsmunasamtökum heimilanna eins og forsvarsmenn þar á bæ munu eflaust staðfesta.
Þessi leið gekk hins vegar ekki eftir. Þá vildi ég skoða aannað úrræði , nefnilega stórauknar vaxtabætur sem fjármálakerfið fjármagnaði. Með þessu móti væri komin leið til að ná þeim markmiðum sem ég vildi stefna að: Nefnilega málamiðlun sem gengi út á að farið yrði bil beggja með niðufærslu skulda eins og Hagsmunsamtökin höfðu lagt upp með. Þau vildu láta reikna þak á vísitöluna aftur í tímann. Þessu var ég sammála.
Ofan á varð vaxtabótaleiðin og þessu markmiði Hagsmunasamtakanna þar með náð að hluta til þótt þeim þætti langt í frá nóg að gert. En ég þykist þó vita að hækkun vaxtabóta hafi komið mörgum vel.
Það breytir því ekki að lán margra bera óheyrilega vexti auk þess sem verðtrygginign sligar. Ég er kominn á þá skoðun að eitt brýnasta hagsmunamál okkar er afnám verðtryggingar. Á Sigtúnsárunum börðumst við aldrei gegn verðtryggingunni sem slíkri heldur einfaldlega háum raunvöxtum hvaða nafni sem þeir nenfdust. Við töldum okkur hafa fundið út - sem ég hygg að hafi verið rétt - að raunvextir voru að jafnaði hærri á óverðtryggðum lánum en verðtryggðum og afborganir léttbærari fyrir tekjulitla. En það er dýrt að vera fátækur því gjaldið fyrir þetta er að þegar lánið allt er gert upp þá kemur í ljós að í heildina er það orðið miklu dýrara en óverðtrygt lán vegna þess að verðbótunum er alltaf hlaðið á höfðustólinn.
Það hefur komið fram opinberlega að í byrjun hruns beitti ég mér fyrir því sem formaður BSRB gagnvart þáverandi ríkisstjórn að nema vísitöluna brott alla vega tímabundið. Það fékk ekki góðan hljómgrunn. Þetta hefði hins vegar verið mjög til góðs og forðað okkur frá því að hlaða verðbólguskotinu á næstu tólf mánðum inn í allan lánastabbann.
Þú vilt að ég svari alveg hreint út. Það er ég að reyna að gera. Ég er að segja hvað mér finnist og hafi fundist rétt og rangt í þessum efnum. Ég er sammála Hagsmunasamtökunum um afnám verðtryggingar og ég hef alltaf lagst á sveif með niðursfærslu lána eða öðrum ráðum sem stuðla að ná sama markmiði eins og ég nefndi.
Ég vil hins vegar ekki segja neitt sem vekur falsvonir um stórfelldar frekari aðgerðir og minni á að talsverðum þrýstingi var beitt síðastliðið haust.
En kemur dagur eftir þennan dag. Fjármálakerfið, og samfélagið allt er á stöðugri hreyfingu og allt í gerjun. Þótt ég geti engu lofað fyrir hönd stjórnvalda ætla ég heldur ekki að verða til þess að hvetja menn til þagnar og aðgerðarleysis. Þvert á móti er mjög mikilvægt að allir haldi vöku sinni og að fólk berjist fyrir umbótum og réttlæti í þessum efnum. Það vil ég svo sannarlega gera sjálfur og beiti mér í þessa veru eins og ég fæ ráðið við.
Ekki veit ég hvort þér finnst þetta nógu gott svar Pétur Örn en þetta segir minn innri maður sem þú hefur kallað til vitnis.
Ögmundur