Fara í efni

Rýnt í tölur

Heill og sæll,

 

Nú verður öllum ráðum beitt til að rugla fólk í ríminu og ef nokkur kostur er að kosningaþátttakan verði sem minnst.

 

Varðandi kröfuna um að eitthvað ákveðið lágmark kosningabærra manna kjósi gegn lögunum (frumvarpinu) og í því sambandi ítrekað talað um að "eðlilegt" sé að gera kröfu

um að andstaðan fari að lágmarki yfir 50% atkvæðamagnsmörkin, ber brýna þörf til að upplýsa kjósendur um hvaða svikamyllu er um að ræða.

 

Foringinn og málpípur hans hamra á nauðsyn skýrs vilja þjóðarinnar. En spyrja má á móti, hvort það eigi ekki við um allar kosningar í landinu? Til þings er kosið án þess að nokkrar kröfur séu gerðar um lágmarksþátttöku. Nú er sérstaklega getið síðustu alþingiskosninga þar sem kjörsókn var rétt tæp 88%. Þá voru kjósendur sannarlega hvattir af öllum flokkum til að nýta kosningarétt sinn. Þá eins og ævinlega stóð utankjörfundarkosning yfir í 8 vikur fyrir kjördag. Ætla má að utankjörfundaratkvæði í sumarkosningum séu amk. 15% af heildarfjölda greiddra atkvæða. Nú bregður hinsvegar svo við að í hönd mun fara þjark á þingi og þjóðfélagi hvers konar "reglur" eigi að gilda um þessar kosningar. Það á semsagt greinilega ekki að láta kosningarnar fara fram í samræmi við mjög skýran og einfaldan texta stjórnarskrárinnar, sem kveður á að bera eigi "það" (frumvarpið sem forseti hafnaði) svo fljótt sem auðið er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu. Þar sem kosningaskylda hefur aldrei ríkt á Íslandi, ber augljóslega að skilja þetta sem svo að sá einfaldi meirihluti sem samþykkir eða synjar

í þjóðaratkvæðagreiðslunni kveði þar með upp endanlegan dóm um afdrif frumvarpsins. Eins og málinu er hinsvegar nú stillt upp, uþb. 4 vikum eftir að forsetinn lýsti því formlega yfir að hann myndi ekki undirrita lögin, að mikill þrýstingur er nú settur á að flýta þjóðaratkvæðagreiðslunni og talað um að kjördagur verði 7 ágúst nk.. Ljóst er að mjög takmarkaður tími, ef nokkur verður fyrir utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Jafnvel þó að miðað sé við hið háa hlutfall 88% og frá dreginn 15% (sem nemur atkvæðamagni utankjörstaða) væri um 74,8% kosningaþátttöku að ræða.

Ef lágmark til að fella lögin væri sett við að andstæðingar væru yfir 50% þeirra sem á kjörskrá eru, væri m.ö.o. gerð krafa um 67% andstöðu við frumvarpið! Ef hinsvegar væri miðað við kosningaþátttökuna í forsetakosningunum um síðustu helgi og ekki gefinn kostur á að greiða utankjörfundar væri samsvarandi hlutföll : 63% - 15%(sem næmi áætluðu atkvæðamagni utankjörstaða) = 53,5%. Krafan um að yfir 50% þýddi í því tilfelli að 93,5% kjósenda yrðu að hafna frumvarpinu! Þetta eru nú aldeilis LÝÐRÆÐISSINNAR í lagi ! Þú tekur eftir að ég segi "yfir" 50% o.s. frv. Sama á við um önnur mörk, sem nefnd hafa verið í þessu sambandi. Lögfræðinganefndin nefndi hálf furðulegt talnabil 25 - 44%: Þarna virðist í tilfelli lægra magnsins vera um að ræða að amk. helmingur kosningabærra manna kjósi og þar af leiðandi yrði lágmark þeirra sem höfnuðu að vera yfir 25% markinu (þ.e. yfir 50% þeirra sem kjósa myndu).

Hin talan sem er hálfu furðulegri, er greinilega ríflega helmingur af þeim tæplega 88% sem kusu í síðustu alþingiskosningum. Þetta ber nú fyrst og fremst vitni um, hversu erfitt lögfræðingum lætur að fara með tölur. Einn mjög "virtur" lögfræðingur var að tala um einfaldan meirihluta um daginn í blaðagrein og kvað hann vera 51%!