ÞEGAR DANIR KOMU ÍSLENDINGUM TIL HJÁLPAR OG REFSKÁKIN Í STJÓRNMÁLUM
Undirritaður skrifaði neðanskráðar hugleiðingar, eftir lestur smápistils Jónasar Kristjánssonar á vef- miðli hans.
Þjóð sem er illa að sér í eigin sögu er illa á vegi stödd. Við sem komin eru yfir miðjan aldur voru alin upp við að lesa mjög þjóðernislega, einsleita og að hluta til ranga Íslandssögu Jónasar frá Hriflu.
Mjög fáir Íslendingar hafa heyrt um það sem ég tæpi á hér að neðan, þ.e. að einasta „byltingin" sem gerð hefur verið íslensku þjóðinni til hagsbótar, stóðu danskir borgarar Kaupmannahafnar að í mars- mánuði 1786.
Jónas Kristjánsson (jonas.is), 2/6 2017 :
Sterkari en hóruhúsið
Lýðræðið er marklaust, ef það felst bara í að mæta á kjörstað eftir fjögur ár. Þú þarft að vakta lýðræðið þess á milli. Taka þátt í því að þrír bófaflokkar fá að mynda rískisstjórn út á loforð, sem þeir efna alls ekki. Þvert á móti hefja þeir þjófnað, sem ekki var boðaður fyrir kosningar. Þú losnar ekki við bófana nema með því að halda vöku þinni árið um kring. Fjöldafundir á Austurvelli hafa sýnt vald fjöldans, stundum. Líka fjöldafundur ofan við Þjóðleikhúskjallarann. Bófar eru hræddir við fólk. Hræddir við varðelda, hræddir þegar bíl er hossað, hræddir þegar eggjum er kastað í hóruhúsið við Austurvöll. Þið eruð sterkari en bófarnir.
Sveinn Aðalsteinsson, 3/6 2017 :
Þetta er nákvæmlega málið! Hvað er til ráða fyrir heimska og ráðvillta þjóð með gullfiskaminni? Hún hefur mjög sjaldan staðið í lappirnar, þegar á reynir. Þó hefur aðeins örlað á því, en þá í mjög skamman tíma, sbr. upphaf árs 2009 og þegar SDG var kastað út 2016.
Hvað veldur þessum bleyðuskap? Er þetta afleiðing vistarbandsins, sem varði lengur hér en jafnvel í Rússlandi, eða frá 1490 til 1894?
Fróðlegt væri að fá Kára og einhverja klára sálfræðinga til að greina hverju veldur.
Ein róttækasta breytingin í baráttu þjóðarinnar gegn kúgunaröflum varð ekki fyrir hennar tilverknað. Það var þegar borgarar Kaupmannahafnar risu upp gegn einvaldskóngi og aðli 1786 (þremur árum fyrir Parísarbyltinguna 1789).
Krafan var róttæk, en einföld. Krafan var að einvaldskonungurinn yrði sviptur völdum og þau færð danska þjóðþinginu, sem borgararnir veldu síðan þingmenn til þjónustu þegnanna. Sömuleiðis skyldu sérréttindi aðalsins brotin á bak aftur!
En síðan bættu borgararnir merkilegri kröfu við, til bjargar örsnauðri, örfámennri þjóð er var að drepast norður við Dumbshaf.
Krafa henni til handa var einnig ofur skýr. Mómælendur kröfðust að gripið yrði svo fljótt sem verða mætti til aðgerða til bjargar Íslendingum, í baráttu þeirra við óblíð náttúruöfl og fjandsamleg yfirvöld.
Á þessum tíma herjuðu Skaftáreldar - móðuharðindin (1783 - 1786). Um fjórðungur þjóðarinnar féll, að hluta til af þeim sökum, en einnig sakir vanbúnaðar eftir nær tveggja alda kúgun einokunar.
Skálholtsbiskupar höfðu löngum ásælst kostajarðir, s.s. sjávarnýtjajarðir.
Með tilkomu breskra fiskiskipa á 14. öld, reyndu Skálholtsbiskupar og konungsmenn að ná undir sig álitlegum jörðum. Þeim varð í fyrstu lítt ágengt, en eftir mesta mannfall sem sögur fara af á Íslandi, þ.e. Svarta dauða (1402 - 1404), þegar nær helmingur þjóðarinnar féll, var eftirleikurinn þeim auðveldur.
Á örfáum árum urðu allir bændur „kostajarða" leiguliðar.
En borgarar Kaupmannahafnar í „byltingarhug", kröfðust þess að undinn yrði bráður bugur að því að jörðum þessum yrði aftur skilað til bændanna og arðráni biskupsstóls yfir 450 bestu jörðum á Suður- og Vesturlandi linnti.
Einveldi konungs var snarlega afnumið. Valdið fært þinginu, sem samdi uppkast að lögum, sem sent var íslenska þinginu til afgreiðslu.
Sendiboði Danska þingsins kom með Eyrarbakkaskipi á mjög óvenjulegum tíma til Íslands, eða á gamlársdag 1786, þ.e. uppkastið var ekki tilbúið til sendingar með haustskipunum. En það sýnir skýrt hversu mikla áherslu Danir lögðu á að málinu yrði hraðað.
Í lagauppkastinu stóð að lögin, sem gerbreyta myndu stöðu Skálholtsbiskups, annars vegar og bændaleiguliða sem endurreisa átti til að verða sjálfseignarbændur, hins vegar, skyldi taka gildi nákvæmlega einu ári eftir að uppkastið barst til Íslands, þ.e. 1. Janúar 1788!
Skálholtsstaður skyldi aflagður sem biskupssetur. Jarðirnar sem biskupar höfðu á umliðnum öldum sölsað undir sig, skyldu seldar bændum og þá helst þeim er þær leigðu.
Að sjálfsögðu urðu þar með kaupmálar að vera þannig að örsnauðir bændur réðu við að eignast þær.
Þetta fór eftir. Biskupsstóllinn fluttist til Reykjavíkur og örfáum árum síðar var Reykjavíkurprófastur (Geir „góði" Vídaliín, er bjó að Lambastöðum á Seltjarnarnesi) gerður að „Landsbiskupi", þegar Hóla- og Skálholtsbiskupsdæmi voru sameinuð 1801, eftir fráfall þáv. Hólabiskups.
Nútímafólk heldur gjarnan að allt gangi hraðar og skilvirkar fyrir sig á okkar „asatíma", en allt hafi verið ómögulegt fyrrum. Allar breytingar tekið ár og aldir.
En berum saman þessar róttæku breytingar í lok átjándu aldar, sem tók eitt ár að festa í lög og örfá ár (3 - 5) að framkvæma, annars vegar og tímann sem tekið hefur að fá nýja stjórnarskrá fyrir Ísland.
Allir sem að gerð stjórnarskrár fyrir Ísland komu (1940 - 1944), gerðu sér grein fyrir að um bráðabirgðastjórnarskrá væri að ræða, sem unnið var að í mikilli tímapressu. Ekki síður hitt að fullkomin „eining" (a.m.k. á yfirborðinu) varð að ríkja um alla þætti lýðveldisstofnunarinnar milli stjórnmálaflokka á þingi.
Sveinn Björnsson, forseti fór þegar að hreyfa við stjórnarskrármálinu á sínu fyrsta kjörtímabili (1944 - 1948). Hann hafði að markmiði að ný stjórnarskrá tæki gildi á næsta kjörtímabili forseta (1948 - 1952). Honum entist því miður ekki heilsa til að fylgja stjórnarskrármálinu eftir.
Danir sem byggðu á samskonar stjórnarskrárgrunni innleiddu nýja stjórnarskrá 1955.
En hvað hefur dvalið Íslenska ríkið í rúm 70 ár?
Svarið er einfalt. Eilíf og endalaus viðleitni ráðandi afla að missa ekki „tökin".
Vonir vöknuðu að til breytinga drægi í kjölfar hrunsins 2008. Þrátt fyrir mikla eindrægni í mótun nýrrar stjórnarskrár, hefur ný stjórnarskrá því miður ekki orðið að veruleika, enn sem komið er.
Sérhagsmunaöflin hafa aftur, að því er virðist, náð undirtökunum. Þau sækja á, nánast á öllum sviðum, þrátt fyrir það að fylgi stærsta flokksins sé ekki nema svipur hjá sjón, miðað við fyrrum.
En styrkurinn byggir í síauknum mæli á fjármálavaldi, sem í reynd ræður mestu um hverjir völdin hafa í þjóðfélaginu.
Völdin liggja einnig hjá embættismannavaldinu í tengslum við „þungavigtaraðila" í stjórnmálunum, auk fjármálastofnana.
Sérhagsmunaaðilarnir njóta einnig liðstyrks erlendra fjármálaafla, sem sigla undir fölsku flaggi „frjálsra heimsviðskipta", ekki einungis með vörur, heldur ekki síður með þjónustu, þ.m.t. það sem fram undir þetta hefur ekki fallið undir „alþjóðlega samkeppni", s.s. vatn, orka og þess vegna almenningssamgöngur, lagnakerfi og heilbrigðisþjónusta.
Þessi síaukna útvíkkun á hvað falla skuli undir „samkeppnisþætti", sem fjölþjóðlegir auðhringar sækjast sífellt harðar eftir, hefur verið líkt við nýja gerð nýlendustefnu auðugra landa gagnvart hinum fátækari, en einnig og ekki síður arðráni gagnvart íbúum auðugustu landa heims.
Almenningur fylgist að stærstum hluta til illa með öllum þessum hræringum, sem að stærstum hluta fara fram bak við tjöldin og beinlínis höfð ákvæði í viðkomandi samningum (t.d. Tisa) að óheimilt sé að upplýsa almenning um einstök ákvæði þeirra!
Við búum við svokallað „lýðræði". Okkur er falið það mikilsverða „vald", yfirleitt á fjögurra ára fresti, að velja pólitíska fulltrúa til starfa á Alþingi. En við höfum yfirleitt ekkert um það að segja hvaða einstaklingar eru í framboði á viðkomandi framboðslistum. Þaðan af síður höfum við hugmynd um hvers konar stjórn verður mynduð að kosningum loknum! Ekki heldur hvaða stefnu hún muni hafa í einstökum málum. Ekki skortir loforðin fyrir kosningar. „Skrifaðu flugvöll" á einn frambjóðandi að hafa skipað undirdána sínum að skrá niður, sem kosningaloforð, verandi á kosningafundi úti á landi!
Allir flokkar ganga „óbundnir" til kosninga og svo hefur verið, nær undantekningarlaust, allt frá stofnun lýðveldis á Íslandi.
„Lýðræði fólksins" felst í að krossa við flokks- og framboðslistana A,B,C,D,E,F,G,H,I,K,L........Þ,Æ,Ö.
Ekkert val um til hvers sá kross leiðir, varðandi ákvarðanir teknar í lokuðum bakherbergjum um stefnumörkun og framkvæmd! Er nema von að almenningur á Íslandi sé ráðvilltur og uppgefinn á pólitísku „refskákinni", sem tefld hefur verið á Íslandi á umliðnum áratugum?
Sveinn Aðalsteinsson