Sveitarfélögin og ríkið axli ábyrgð - strax!
Kennaraverkfallið dregst enn á langinn og virðist það ætla að standa óhugnanlega lengi í sveitarstjórnarmönnum að koma nægilega til móts við kennara til að leysa deiluna. Árni Þór Sigurðsson, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, skrifar athyglisverða grein hér á síðuna um þessa deilu, en sem fyrrverandi starfsmaður Kennarasambandsins um árabil þekkir hann í þaula stöðu kennara. Efast ég ekki um að hann beiti sér til lausnar deilunni. Lykilatriði er að sveitarfélögin axli ábyrgð sem atvinnurekendur og geri sér grein fyrir þeim grundvallarsannindum sem
Lykilatriði til lausnar þessari deilu er að sjálfsögðu að tryggja sveitarfélögunum fjárhagslegan grundvöll til að rækja skyldur sínar og hefur þingflokkur VG lagt fram lagafrumvarp í þessu skyni. Reykjavíkurborg er betur sett en mörg smærri sveitarfélög að þessu leyti, hefur til dæmis ekki nýtt sér heimildir til útsvarshækkunar að fullu. Reykjavíkurborg er hins vegar í samfloti við samningaborðið með öllum sveitarfélögum í landinu, bæði þeim sem eru vel stæð og blönk og mér segir hugur að í hópnum séu fleiri en einn og tveir sem séu fullir kergju og vilji engar tilslakanir. Slík afstaða er fullkomlega ábyrgðarlaus.
Árni Þór Sigurðsson víkur að þessum atriðum í grein sinni og segir að mjög brýnt sé “að bæta fjárhagslega afkomu sveitarfélaganna almennt, ekki síst til að þau geti af myndugleik sinnt þeim fjölmörgu verkefnum sem þau hafa með höndum, einkum á sviði samfélagslegrar grunnþjónustu. Þannig tengjast kjaramálin, ekki bara kennara, heldur einnig annarra stétta, umræðunni um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.”
Undir þetta sjónarmið skal tekið. Þegar horft er til ríkisins í þessari deilu hlýtur krafan að vera þessi: Ríkisstjórnin lýsi því yfir þegar í stað að hún muni beita sér fyrir skattkerfisbreytingum sem styrkja verulega fjárhagsgrundvöll sveitarfélaganna. Á grundvelli þessa munu sveitarfélögin eiga auðveldara að ganga til samninga við starfsfólk sitt.