Fara í efni

SVONA VILDI FRANKÓ LÍKA HAFA ÞAÐ

Evrópuþingið svipti í dag þrjá forystumenn Katalóníumanna þinghelgi, þau Carles Puigdemont, fyrrum forseta Katalóníu, Antoni Comin, fyrrverandi menntamálaráðherra, og Clöru Ponsati, fyrrum heilbrigðisráðherra Katalóníu.

Spænsk yfirvöld boluðu Puigdemont úr embætti forseta Katalóníu árið 2017 fyrir að brjóta gegn spænskum lögum og stjórnarskrá þegar Katalóníumenn kusu um stöðu sína innan spænska ríkisins.

catalonian uimmunity.JPGCarles Puigdemont var síðan kosinn á þing Evrópusambandsins árið 2019 og hafa spænsk stjórnvöld ekki getað fengið hann framseldan fyrir vikið vegna þinghelgi sem hann hefur notið.

Nú á hann og þau öll þrjú, sem meirihluti þingmanna á Evópuþinginu ákvað í dag að svipta þinghelgi, það á hættu að þurfa að svara til saka fyrir spænskum rannsóknarrétti sem nær örugglega myndi dæma þau til fangelsisvistar fyrir að vilja virkja lýðræðið í Katalóníu.

Arancha Gonzalez Laya, utanríkisráðherra Spánar, fagnaði í dag niðurstöðunni í Brussel og sagði að hún væri rétt, enda skuli málefni Katalóníu ráðin til lykta á Spáni en ekki í Evrópu.
Spænski utanríkisráðherrann hefur sagst vilja samninga um lausn á deilumálum um Katalóníu en augljóslega þætti betra að við samningaborðið af hálfu aðskilnaðarsinna sætu aðeins dæmdir menn ef þeir þá fengju yfirleitt að setjast að slíku borði. Annars hefði verið boðið upp á sakaruppgjöf og samninga frjálsra manna.  

Þetta minnir svoldið á Spán á dögum fasismans. Svona vildi Frankó líka hafa það; lýðræði á bak við fangelsisrimla.

En á meðan ég man, hvað skyldi NATÓ segja, brjóstvörn lýðræðisins og náttúrlega Guðlaugur okkar Þór, utanríkisráðherra Íslands? Vandinn við að hafa skoðun á mannréttindabrotum á Spáni er náttúrlega nálægðin og góðra-vinar félagsskapurinn í NATÓ.
Ætli þyki ekki farsælast að halda sig bara við Venezuela og þá verja mannhelgi forsetans sem þeir Guðlaugur Þór og Pompeo skipuðu á sínum tíma, að vísu í blóra við stjórnarskrá og lög þess ríkis.