Syndaaflausn eða sjálfsagt mál?
Birtist í Fréttablaðinu 7.02.2003
Samstöðufundir á Austurvelli í hverju hádegi frá því snemma í haust – í öllum veðrum – fjöldafundir, greinaskrif, umræður í fjölmiðlum og manna á milli; í fáum orðum, málafylgja í þágu umhverfisverndar, innan þings og utan, hefur skipt máli og hefur nú skilað árangri. Nýfallinn úrskurður um Norðlingaöldu ber þess vott að náttúruverndarsinnar eru í sókn. Úrskurður Jóns Kristjánsssonar, setts umhverfisráðherra, hefði ekki orðið á þennan veg ef ekki hefði áður risið í landinu alda til varnar umhverfinu. Árangurinn er mikilvægur varnarsigur varðandi Þjórsárverasvæðið. Sigurinn vísar einnig inn í framtíðina. Í auknum mæli munu stjórnvöld verða knúin til að taka tillit til náttúrunnar þegar nýjar virkjanir koma til álita. Um leið og niðurstaða setts umhverfisráðherra felur í sér varnarsigur veldur hún líka vonbrigðum. Margir höfðu gert sér vonir um að í úrskurði sínum myndi Jón Kristjánsson einfaldlega hafna með öllu virkjunaráformum á Þjórsárverasvæðinu. Með því hefði fengist svigrúm til að svara áleitnum spurningum sem nú brenna mjög á þjóðinni.
Í fyrsta lagi þarf að svara því til hvers við ætlumst af Landsvirkjun. Ljóst er að taka þarf stefnu Landsvirkjunar til gagngerrar endurskoðunar. Hvorki Landsvirkjun né iðnaðarráðuneyti virðast kunna sér nokkurt hóf þegar virkjanir eru annars vegar. Ekki er nóg með að hart sé sótt eftir því að virkja í friðlandi innan Þjórsárvera; nú er einnig búið að taka stefnuna á Torfajökulssvæðið og greinilegt að hvorki örnefni eins og Hrafntinnusker né Landmannalaugar duga til að halda aftur af Landsvirkjun.
Í öðru lagi og í framhaldi af þessu þarf að svara því hvort ekki sé tímabært að við endurmetum afstöðu okkar til raforkuframleiðslu og nýtingar á raforku. Virkjunaráform Landsvirkjunar eru fyrst og síðast til að þjóna stóriðju. Við stefnum nú hraðbyri að því að áliðnaður vegi mjög þungt í efnahagslífinu. Álið er háð miklum sveiflum og þegar þetta tvennt fer saman, mikilvægið og sveiflurnar, verður augljóst að við eiga hin gamalkunnu varnaðarorð, að ekki sé hyggilegt að setja mörg egg í sömu körfuna. Reyndar þarf einnig að setja fyrirvara um mikilvægi álframleiðslunnar varðandi þjóðhagslegan ávinning því þegar eignarhaldið er erlent verður lítið vinnsluvirði eftir í landinu. Arðurinn streymir út úr landinu í ríkari mæli en í atvinnugreinum sem eru í eigu innlendra aðila. Allar nafnstærðir um þjóðhagslegan ávinning orka því mjög tvímælis. Þennan efnahagslega þátt þarf að taka til skoðunar og endurmats, bæði í víðu og þröngu tilliti.
Í þriðja lagi þarf að spyrja hvort eitthvað mikið sé að hjá Landsvirkjun og iðnaðarráðuneyti í ljósi þess hve miklu skeikar á milli tillagna þessara aðila annars vegar og setts umhverfisráðherra hins vegar. Gæti verið ráð að fá utanaðkomandi aðila til að leita leiða við nýtingu orkulinda á umhverfisvænan hátt?
En aftur að úrskurði Jóns Kristjánssonar. Hann á vissulega lof skilið fyrir að sýna tilburði til að hlýða kalli tímans. Það hefur þó ekki alveg verið laust við að vera aumkunarvert að hlusta á hvern framsóknarmanninn á fætur öðrum á Alþingi mæra flokksbróður sinn og flokk eins og þjóðin hefði aldrei kynnst öðru eins framtaki í þágu náttúrverndar.
Ég ætla að leyfa mér að trufla helgihaldið með því að spyrja: Var það nokkuð annað en sjálfsagt og eðlilegt að fara með virkjunarlónið út úr friðlýstu landi? Var það nokkuð annað en sjálfsagt og eðlilegt að virða alþjóðlegar skuldbindingar okkar á sviði náttúruverndar? Ef óskadraumur Landsvirkjunar hefði orðið að veruleika hefðum við ekki staðið við Ramsarsáttmálann um verndun votlendissvæða og sennilega átt yfir höfðum okkar málshöfðun á erlendum vettvangi. Síðast en ekki síst skal spurt hvort það eigi að vera sjálfgefið að við virkjum þegar erlendur álrisi krefst þess? Eru menn staðráðnir í því að hlusta aldrei á þá sem tala fyrir öðrum lausnum í atvinnumálum en þungaiðnaði?
Framhjá öllu þessu horfir Framsóknarflokkurinn enda liggur mikið við að telja fólki trú um að Framsókn sé umhverfisvæn; hún hafi af einurð og staðfestu gengið fram fyrir skjöldu sem merkisberi umhverfisverndar. En er Framsóknarflokkurinn ekki einmitt sá stjórnmálaflokkur sem stendur fyrir mestu náttúruspjöllum Íslandssögunnar í tengslum við Kárahnjúkavirkjun og stóriðjuáformin á Austurlandi? Halda menn ef til vill að þær framkvæmdir gleymist vegna Norðlingaöldu? Halda menn að nú sé lag að tala sig upp í syndaaflausn vegna náttúruspjallanna við Kárahnjúka? Ekki hef ég trú á að það muni takast. Mér sýnist Framsókn hins vegar ætla að reyna.