Fara í efni

SÝNDARMENNSKA?

Sæll Ögmundur.
Veit eiginlega ekki til hvers ég er eiginlega að reyna að skrifa þér vegna þess að ég er fyrir löngu alveg búin að missa alla trú á flokknum þínum og næstum alveg á þér sjálfum líka, þrátt fyrir allan látbragðsleikinn og sýndarmennskuna sem þú sýnir enn með tilþrifum af og til og maður er reyndar líka löngu farin að sjá í gegnum og því hættur að trúa. Lestu það sem ég hef kommentað á "Vinstri Vaktinni gegn ESB" á Mbl.is - og á bloggi mínu á sama bloggi "gunnlauguri.is" Ef við færum þetta yfir á skákina þá á VG forystan nú leik í skákinni og engir frekari biðleikir eru lengur í stöðunni, klukkan gengur stöðugt á ykkur eftir marga hroðalega afleiki ykkar. Nú hafið þið smá möguleika á að laga stöðu ykkar eftir að staðan á taflborðinu er samt eiginlega gjörtöpuð fyrir ykkur enda hafið þið drepið eigin leikmenn og sent þá í opinn dauðann til þess eins að þóknast fláráðum viðhlæjendum ykkar. Stuðningsmenn ykkar og vilhollir áhorfendur eru nú flestir löngu horfnir af vettvangi. Nú hafið þið kannski allra síðasta séns til þess að rétta kúrsinn af og setja Samfylkingunni stólinn fyrir dyrnar í ESB málinu. Annars berist þið áfram sofandi og dauðir að feigðarósi ESB umsóknarinnar! Eina leiðin er að krefjast þess að ESB umsóknin verði þegar sett í salt og aðildar- og aðlögunarviðræður ekki hafnar á ný fyrr en réttlátir og sættanlegir samningar hafa náðst við ESB í makríl deilunni og í öðru lagi ekki fyrr meðan að framkvæmdastjórn ESB stendur að málaferlum gegn okkur fyrir EFTA dómsstólnum. Og að síðustu viðræður verði ekki teknar upp að nýju fyrr en að lokinni alls herjar þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem meira en helmingur kosningabærra manna vill að áframhaldandi ESB viðræður fari fram !
Gunnlaugur Ingvarsson

Ég hef verið sjálfum mér samkvæmur  varðandi ESB frá því FYRIR síðustu kosningar og eftir þær. Ég kann að hafa gert ýmis mistök og efa það ekki, en ég hafna því að vera vændur um sýndarmennsku. 
Kv.,
Ögmundur