SÝNUM PALESTÍNUMÖNNUM SAMSTÖÐU
Sunnudaginn 29. nóvember verður efnt til samstöðufundar með Palestínu. Fundurinn er haldinn í Norræna húsinu í Reykjavík og hefst hann klukkan 15. Gert er ráð fyrir að hann standi í klukkustund eða þar um bil.
Þessi dagur er alþjóðlegur samstöðudagur og er haldinn að undirlagi Sameinuðu þjóðanna ár hvert. Það er nefnilega svo einsog margir vita að Sameinuðu þjóðirnar hafa margoft ályktað um mannréttindabrotin í Palestínu auk þess sem Sameinuðu þjóðarinmar, sem eru sumpart ábyrgar fyrir tilveru Ísraelsríkis, hafa kveðið skýrt á um það hvar landamærin á milli Ísraels og Palestínu skuli liggja. Þessi landamæri hafa Ísraelar aldrei virt og samþykktir SÞ hafa þeir virt að vettugi og reyndar gengið miklu lengra; hneppt palestínsku þjóðina í fjötra og svipt hana mannréttindum. (sjá nánar http://www.palestina.is/frettir/archive/fr126.html )
Hvað ætlar heimsbyggðin lengi að láta þetta viðgangast? Við erum í reynd öll ábyrg svo lengi sem við höfumst ekkert að til að breyta þessu ófremdarástandi. Á þetta verður minnt á samstöðufundinum í Norræna húsinu.
Ég mun flytja ávarp dagsins á fundinum en síðan mun Björn Thoroddsen og félagar í Guitar Islandicio flytja nokkur lög og Anna Tómasdóttir hjúkrunarnemi flytur erindi og sýnir myndir: Mannréttindabrot í skjóli meints öryggis. Reynsla sjálfboðaliða í hertekinni Palestínu.