TÆR SNILLD AÐ SPRENGJA RÍKISSTJÓRN OG VG
Fram kemur í viðtali við fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Sigurjón Þ. Árnason Tærsnilld, í markaðskálfi Fréttablaðsins 14. febrúar 2007 að breska fyrirtækið Newcastle Building Society annaðist alla þjónustu í kringum Icesave - svindl bankans. Í ljósi stjórnmálaástandsins nú vegna glæpastarfsemi bankans vil ég benda ríkisstjórninni og Vinstri hreyfingunni - grænu framboði á að þetta sama breska fyrirtæki, sem þjónustaði Icesave, býður upp á alls kyns þjónustu, þar á meðal útfararþjónustu (funeral planning), sbr. heimasíðu fyrirtækisins, http://www.newcastle.co.uk/savings
Ekki er að efa að arkitektar bankahrunsins og einkavæðingarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, sem vilja breiða yfir allan ósóma bankahrunsins og beina athygli fólks að allt öðru með þjóðernisrembingi, munu hlaupa undir bagga ef fjármagn skortir til sómasamlegra útfara. Spurning er hins vegar hvort Sjálfstæðisflokknum tekst að fá í þessa góðu fjárfestingu vaxtalaus og óverðtryggð lán, og þar á ofan frjálsar afborganir eins reyndin varð þegar hann neyddist til að klóra af sér spillingarsstimpilinn og lofa endurgreiðslum á tugmilljóna króna styrkjum frá stórfyrirtækjum.
Loks finnst mér við hæfi að rifja upp lýsingu Sigurjóns bankastjóra á starfsemi Landsbankans sem skilaði af sér þeim dýrmæta arfi sem nú er slegist um.
Þjóðólfur
Úr markaðskálfi Fréttablaðsins 14. febrúar 2007:
Talið berst að Icesave-innlánaverkefninu í Bretlandi sem Sigurjón kallar tæra snilld. Frá því að verkefninu var ýtt úr vör þann 10. október hafa 54 þúsund reikningar verið stofnaðir og námu innlagnir 1.650 milljónum punda um helgina sem eru 220 milljarðar króna. Eftir áramótin hefur Landsbankinn verið að taka inn þrjá milljarða króna að meðaltali á dag. En hvernig kom þetta verkefni til? Sigurjón segir að áður en neikvæð umræða hófst um bankana í fyrra stóðu menn í þeirri trú að aðgengi að fjármálamörkuðum væri ekki takmarkandi þáttur í vexti bankanna sökum góðrar afkomu og ágætra lánshæfiseinkunna. Svo fór umræðan af stað, krónan veiktist allverulega og efast var um að bankarnir næðu að endurfjármagna sig fyrir árið 2007. „Það sem við töldum vera framtíðarlausn var einfaldlega sú að vera ekki svona háður þessum fjármálamörkuðum. Ein lausn er við því, og hún er sú að afla innlána. Við settumst því niður og horfðum fljótlega á innlánsstarfsemina í Bretlandi, sem hafði byggst á innlánum stórra viðskiptavina, en vildum hins vegar finna framtíðarlausn. Við duttum því niður á þá hugmynd að búa til netreikning sem ber hærri innlánsvexti en gengur og gerist og auglýsir sig þannig sjálfur því það er svo dýrt að auglýsa." Ráðgjafar Landsbankans ráðlögðu honum að tengja verkefnið eins mikið og hægt væri við Ísland, enda eru Bretar almennt jákvæðir gagnvart Ísland og myndu sjá að á bak við Icesave stæði traustur, 120 ára gamall banki sem var metinn af alþjóðlegum fyrirtækjum. Samið var við Newcastle Building Society um að annast alla þjónustu í kringum Icesave. „Það eina sem ég þarf að gera er að kíkja í lok dags hvað er kominn mikill peningur inn," segir Sigurjón hlæjandi, tekur upp símann og segir skömmu síðar: „Það bættust við fimmtíu milljónir punda bara á föstudaginn!"