TAKK REYNIR!
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 20.21.06.20.
Þegar þeir Kristján Thorlacius, Einar Ólafsson, Haraldur Steinþórsson og fleiri úr forystusveit BSRB á árum áður stóðu að uppbyggingu orlofsbyggða samtakanna á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, kölluðu þeir sér til leiðsagnar bestu landslagsarkitekta sem völ var á. Þetta þótti ekki sjálfsagður hlutur á þessum tíma en ber þess vitni hve umhugað þessum mönnum var að fara með gát að umhverfi og náttúru.
Þetta skilaði sér og deilir enginn um að í orlofsbyggðunum í Munaðarnesi í Borgarfirði og á Eiðum á Héraði eru byggð og náttúra í góðri sátt.
Nú líður tíminn. Nýtt fólk kemur til starfa í BSRB og áfram er haldið uppbyggingu, nú með betrumbótum og viðhaldi, heitir pottar og bætt aðstaða koma til sögunnar.
Og enn skyldi byggt. Að þessu sinni ný áhaldaskemma sem jafnframt gæti orðið fjölnota að ýmsu öðru leyti. Menn þóttust vita á hvaða svæði væri hentugast að byggja svo húsið þjónaði tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Og sjálfan byggingarblettinn þóttumst við BSRB-menn koma auga á, slétt svæði þar sem stutt var niður á fast þannig að djúpur grunnur með tilheyrandi kostnaði yrði ekki okkar hlutskipti.
“En er ekki rétt að hafa samband við landslagsarkitektinn, Reyni Vilhjálmsson”, var spurt, “gott ef við höfum ekki skuldbundið okkur sem samtök til að hafa jafnan þann hátt á við framkvæmdir á orlofssvæðunum.” Og til fundar við okkur mætti nú Reynir Vilhjálmsson til að skoða teikningarnar en áður hafði hann farið á vettvang að kanna aðstæður. Niðurstaða hans var skýr og okkur til mikillar skapraunar: Ekki kæmi til greina að byggja á þessum stað, “eða hvernig haldið þið að þetta liti út frá þjóðveginum, fellur á engan hátt inn í fagurt en viðkvæmt umhverfið!”
Til að gera langa sögu stutta þá féllumst við á endanum a umhverfisrök landslagsarkitektsins og hættum við áform okkar.
Þetta hefur orðið mér dæmisaga sem ég hugsa til þegar hagkvæmnisrök rekast á við náttúru og umhverfi. Svörin eru ekki alltaf augljós og sjaldnast einföld. Stundum að vísu augljós og skal ég nefna dæmi.
Ekki langt frá Munaðarnesi er Gljúfurá. Kynslóðirnar á mínu reki minnast þess þegar Norðurleiða-rúturnar þurftu að ná nær ómögulegri beygjunni inn á brúna á leiðinni norður en þegar það tókst, sem alltaf á endanum var raunin, sáu farþegarnir upp eftir gljúfrinu með birkivöxnum klettaveggjum, sýn sem okkur sem þetta reyndum verður alltaf eftirminnileg enda “viðburður” á norðurleiðinni.
Á Suðurlandi var þröng og fyrir vikið erfið brú yfir Þjórsá, en svo tilkomumikil var hún að þögn sló á ferðalangahópinn sem horfði í andakt upp í æðandi straum jökulárinnar frá stórfenglegri brúnni.
Hvorug þessara brúa er lengur notuð fyrir bílaumferð – þeirra tími var einfaldlega liðinn. Glúfurá þeysum við nú yfir án þess að verða vör gljúfursins sem áður hreif okkur og gott ef nýja brúin yfir Þjórsá fékk ekki verðlaun fyrir afburðagóða tæknihönnun. En Þjórsár verðum við hins vegar nú varla vör á hraðferð okkar árbakkanna í milli.
Nú spyr ég: Hefði góður landslagsarkitekt getað fundið leið til að flytja okkur yfir árnar á hagkvæman hátt en án þess að fórna sýn okkar á náttúruperlurnar? Og ef svo er, þá er rétt að spyrja hvort nógu margir slíkir séu hjá Vegagerðinni, hvort ef til vill þurfi að fjölga þeim til að hemja hinn hagkvæma framkvæmdamann sem bara vill komast niður á fast.
Mér býður í grun að það hafi verið einhver Reynirinn sem frelsaði okkur frá því að aka um bakgarð Árbæjarhvefis inn í Reykjavík þegar við keyrðum inn í borgina af Suðurlandinu, og beindi okkur þess í stað inn til Rauðavatnsins og síðan í manngert gljúfrið þar sem Faxaflóinn opnast sjónum á stórfenglegan hátt. Við þessi skipti varð auðvelt að sannfærast um að vegagerð á að lúta umhverfishönnun.
Hagkvæmnisrök segja að gott sé að aka á upphækkuðum sléttum vegum yfir hálendið, að allar ár og sprænur skuli settar í málmrör langt undir malbikinu, að helst allir vegir verði margbreiðir svo aldrei þurfi að hemla eða hægja á sér.
En þá megum við líka vita að allar Gljúfurár og Þjórsár hverfa sjónum og land sem horft er á frá upphækkuðum rennilsléttum hraðbrautarvegum er annað land en það sem sést frá vegi sem bugðast með landinu.
Og þegar skýrt var frá því að vegna veirufaraldurs hefði verið ákveðið að gera sérstakt stórátak með hraði í samgöngumálum svo túristalausir vegirnir verði enn hraðskreiðari, þá var það sem við manninn mælt að verktakar komust í fyrirhruns-stuð og tóku í gríð og erg að panta fleiri gröfur og skóflur og ýtur til að svara neyðarkallinu. Vandinn er hins vegar sá að gröfur eru gráðugar. Þær vilja fá að grafa meira og enn meira þegar hverju stórátaki lýkur.
Hvað er þá til ráða? Það er augljóst, við ráðum Reyni margfaldan til Vegagerðarinnar.
Og svo það gleymist ekki: Takk fyrir Munaðarnes Reynir. Takk fyrir að forða okkur frá náttúruspjöllum og kenna okkur að sú lausn sem virðist hagkvæmust við fyrstu sýn er ekki endilega sú sem við viljum þegar upp er staðið.
Þegar ég sé árnar og lækina komna í rör og allt “óaðfinnanlegt” að hætti verkfræðinnar, þá verður mér hugsað til Reynis.
Hans er þörf.
Kannski sem aldrei fyrr.