TÁKN FRAMSÓKNAR
Framsóknarflokkurinn er flokkur í leit að ímynd fyrir sjálfan sig. Óvinsældir hans hafa verið slíkar að hann vill ekki lengur kannast við eigið heiti og gegnir því nú hinu mjög svo viðeigandi og lýsandi nafni Ex-Bé eða “fyrrum B”, sbr. ex wife eða fyrrum eiginkona. Flokkur reynir að róa landsmenn með loforðum um að hann sé nú hættur að hugsa málin eða íhuga þau, hvað þá að tala um þau við aðra eða leita samráðs. Nú á að framkvæma án frekari umhugsunar. Það er óþarfi að skipuleggja eða gefa gaum að aðstæðum – nú skulu verkin tala! Og í stíl við einfaldaðan veruleika hefur flokkurinn nú fundið sitt tákn.
Og það tákn fyrir hinn fyrrum B-flokk má sjá þessa dagana á götum Reykjavíkur, ef það er ekki að finna fyrir utan kosningaskrifstofu fyrrum Bé-manna. Þetta tákn er um svo margt lýsandi fyrir stefnu Framsóknarflokksins á síðustu árum að má heita snjall maður sem kom því í umferð. Kolsvartur, gljáandi með dökkar rúður og krómlistasleginn er Hummerinn tákn fyrir valdið sem þarf ekki að eiga sitt undir neinum. Hann er tákn fyrir fjármagnið enda rándýr. En eiga ekki allir nógan pening í dag? Þetta er tákn fyrir afstöðu Framsóknarmann til heimsfriðarins enda má finna uppruna þess í stríðsátökum við Persaflóann sem Framsóknarmönnum hafa alltaf verið miklir áhugamenn um og fundist þess virði að styðja. Þetta er líka tákn fyrir umhverfisstefnu Framsóknar – hvaða máli skiptir þó hann eyði hátt í 30 lítrum á hundraðið svo lengi hann skipar eigandanum sess? Hann er tákn fyrir sérhyggjuna sem flokkurinn telur efnahagslega undirstöðu þjóðfélagsins, þar sem hann tvíbreiður tekur eina og hálfa akrein og tvö bílastæði undir sjálfan sig. Er stefna flokksins að fjölga akreinum og stækka bílastæði hvort sem er? Og eins og myndin sýnir er Hummerinn líka tákn fyrir lítilsvirðingu Framsóknar fyrir öryrkjum. Hann er lýsandi tákn fyrir hrörnun Framsóknaflokksins sem ekki vil kannast við sjálfan sig eða fortíð sína. Um framtíðina á heldur ekki að hugsa – það á bara að framkvæma - og eitt dæmi um þá stefnu í verki er einmitt Hummerinn – ef þú slærð um þig á nógu flottum bíl þá hlýtur pöpulinn að heillast. Ertu ekki með?
Fyrrum framsóknarmaður