Fara í efni

TALAÐ FYRIR RÉTTLÁTRI KJARASTEFNU


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skrifar að venju frábæran laugardagspistil í Morgunblaðið í gær. Hún vill nýja launastefnu í þjóðfélaginu: „Nú er ráð að íhuga gamla tíma og nýja. Hvað segja rætur okkar um sanngirni...Þær segja okkur m.a. þetta: Það var menningarleg venja að skipstjórahlutur væri tvöfaldur hásetahlutur. Réttlætiskrafa þjóðarsálarinnar og áratuga barátta kynslóðanna bergmálaðist m.a. í frægu þingmáli Stefáns Jónssonar þar sem hann lagði til að engin laun í landinu væru hærri en tvöföld verkamannalaun. Stefán Jónsson skrifaði stórskemmtilegar bækur á sinni tíð og lýsti af innsæi og kímni fjölbreyttu og áhugaverðu íslensku mannlífi...Ein bók Stefáns hét Að breyta fjalli. Hvernig breytum við fjalli? Kannski með því að dusta rykið af réttlætiskenndinni."

2 SINNUM 1

Grein Guðfríðar Lilju ber yfirskriftina Að breyta fjalli:2x1. Undir þetta sjónarmið, sem lifað hefur í réttlætiskennd íslenskrar verkalýðshreyfingar og birst hefur í „réttlætiskröfu þjóðarsálarinnar," hef ég alla tíð tekið í hjarta mínu. Að sjálfsögðu á að taka þessari áskorun Guðfríðar Lilju og berjast sem aldrei fyrr fyrir auknum kjarajöfnuði; að breyta fjallinu, umbylta kjaralandslaginu. Ef okkur tækst að koma á kjarakerfi þar sem enginn hefði hærri föst laun en tvöföld laun hins lægsta: 2X1. Mætti vera minni munur kynni einhver að segja. Sjálfur var ég mjög eindregið á þeirri skoðun í árdaga minnar verkalýðsbaráttu. En þá var öldin líka önnur.

Tekist á um stefnu

Margt hefur breyst á undanförnum áratugum. Kjaramismunun hefur aukist jafnt og þétt þótt alltaf hafi hún verið talsverð. Í kjaraumrótinu í lok níunda áratugar síðustu aldar og byrjun hins tíunda var tekist á um áherslur í kjaramálum hvað jöfnuðinn varðar. Þá skildu  leiðir - um stund - með háskólamenntuðu fólki í BHM og breiðari menntunar- og lífsreynsluflóru, sem var að finna innan BSRB.
BHMR eins og samtök háskólamenntaðra hétu þá, vildu dreifstýringu í launum og jafnvel einstaklingsbundna samninga þar sem tekið yrði meira mið af menntun og því sem kallað var „stjórnunarleg og fjármálaleg ábyrgð".

Breiðari kjaragjá og kynjamisrétti

BSRB taldi að þetta myndi auka kjarabil og þá einnig kynjamisrétti. Á komandi árum urðu þessar áherslur skýrari og fóru sjónarmið ríkisins og háskólamanna meira saman eftir því sem leið á áratuginn.
Það má Friðrik Sophusson, þáverandi fjármálaráðherra, eiga að í ráðherratíð sinni hann var óþreytandi að efna til málþinga um stefnumál sín og sá hann alltaf til þess að gagnstæð sjónarmið fengju að heyrast. Ég var þá oft „hinn póllinn".

Í anda þjóðarsálar

 Á einni slíkri ráðstefnu sem haldin var árið 1994 lagði ég til millileið sem rímar nokkuð við hugmyndirnar ættaðar úr  þjóðarsálinni, sem Guðfríður Lilja vitnar til í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein:
„En er til einhver millileið? Ég tel að við eigum að ræða hana. Og hún gæti til dæmis verið þessi: Við gerum um það sátt hvert launabilið eigi að vera í launakerfi ríkisins. Til dæmis að dagvinnulaun hins hæst launaða væru aldrei meira en helmingi hærri en dagvinnulaun hins lægst launaða. Um þessi hlutföll svo og réttindin semdu heildarsamtök. Og um þessi kjör hefðu þau verkfallsrétt sem þá tæki fyrst og fremst til hinna stóru mála, um launasummuna og hlutfallsins á milli hæstu og lægstu launa. Innan þessa ramma mætti síðan fara með samninga niður í smærri einingar. Þar væri svigrúm til lagfæringa og tilfæringa. Með þessu fyrirkomulagi held ég að við fengjum heilbrigðari launaumræðu og kæmumst út úr því öngstræti sem við erum komin í þar sem láglaunafólki er þröngvað til að beita hnefarétti sínum svo það verði ekki af því sem hálaunahópar fá afhent á silfurfati, iðulega fyrir luktum dyrum."

M.a. má sjá nánar hér um þetta og tengd efni:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvert-stefnir-hja-samtokum-launafolks-innan-almannathjonustunnar

https://www.ogmundur.is/is/greinar/fjolmenn-og-velheppnud-radstefna-um-kjaramal