TEKIÐ UNDIR MEÐ ÁHUGAFÓLKI UM SPILAFÍKN
Birtist í Morgunblaðinu 07.03.20.
Í Morgunblaðinu birtist opið bréf til dómsmálaráðherra með spurningum um rekstur á fjárhættuspilakössum. Bréfið undirrita þrír einstaklingar fyrir hönd stjórnar Samtaka áhugafólks um spilafíkn.
Þetta opna bréf er ekki mikið að vöxtum en þeim mun innihaldsríkara og áhrifaríkt eftir því. Fjallað er um milljarðana sem renna í gegnum spilakassa til Háskóla Íslands og Íslandsspila, sem veita fénu viðtöku fyrir hönd Rauða Kross Íslands, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og SÁÁ, alls tæpa tvo milljarða króna á ári í hreinar tekjur.
Bréfritarar fræða lesendur um milljarða sem fara úr landi til þeirra sem selja Íslendingum eða leigja þeim þessar vítisvélar. Það voru 675 milljónir króna á árinu 2018. Og síðast en ekki síst er okkur sagt hvaðan þessir fjármunir komi: “Á bak við þessar tölur er raunverulegt fólk. Fólk eins og við og þú, fólk sem á fjölskyldur, börn, vini og vinnufélaga sem verða fyrir skaða þegar ástvinur missir stjórn á „frjálsum framlögum“ sínum til góðgerðamála.“
Til að friða eigin samvisku halda rekstraraðilar því stundum fram að fólk spili sér til skemmtunar eða til að styðja gott málefni. Þess vegna er við hæfi að spyrja dómsmálaráðherrann, eins og ritarar hins opna bréfs gera, hversu langt sé síðan ráðherrann hafi síðast farið í spilakassa til þess “að styrkja gott málefni.”
Engin svör munu fást við þessari síðustu spurningu enda svarið ekki til. Hinum spurningunum verður ráðherrann hins vegar að svara.
Í þessu sambandi vil ég láta þess getið að nýlega átti ég, að eigin frumkvæði, fund með dómsmálaráðherra þar sem ég færði ráðherranum í hendur frumvarp sem ég, forveri hennar í ráðuneytinu, hafði lagt fram á Alþingi sem fyrsta markvissa skrefið til að ná utan um þessi mál. Ekki verður sagt að þessu stjórnarfrumvarpi frá árinu 2013 hafi verið vel tekið á Alþingi á sínum tíma. En það eldist vel. Ekki má það þó verða aldri og svo gleymsku að bráð.
Þetta frumvarp kvað á um stofnun Happdrættisstofu. Henni var ætlað að sinna aðhalds- og eftirlitshlutverki og auk þess ráðstafa fé til faglegra meðferðaraðila fórnarlamba þessarar starfsemi. Happdrættisstofa átti einnig að búa í haginn fyrir að ná allri þessari starfsemi undir einn hatt að norskri fyrirmynd, m.a. til að fyrirbyggja að rekstraraðilar keppist sín í milli um að afla sér kassa sem væru sem afkastamestir að ná peningum upp úr vösum spilafíkla.
Það var mitt mat að þannig mætti byrja að ná utan um þessa myrku starfsemi sem gerir viðtakendur spilagróðans að engu minni fíklum en spilarana sjálfa. Það sjáum við á viðbrögðunum þegar þeir óttast að kassarnir verði teknir af þeim eða aðgengi að þeim takmarkað. Brýnt væri að frelsa stofnanir og samtök, sem okkur öllum þykir vænt um, frá þeirri niðurlægingu og skömm sem þessu fygir.
Aðrar leiðir mætti að sjálfsögðu einnig fara en lagt var upp með í þessu frumvarpi. En eftir stendur að á vandanum þarf að taka.
Tíminn vinnur ekki með sofandi stjórnvaldi. Ég sé það á hinu opna bréfi og ég sé það einnig á skrifum fólks sem hefur orðið spilafíkn að bráð, að það þegir ekki lengur, heldur gengur hnarreist fram á völlinn, vitandi að réttlætið er þess megin.
Þetta verður ráðherra og ríkisstjórn að skilja.
Nú er beðið eftir svari.
Síðan aðgerðum.