Fara í efni

TEKIÐ UNDIR MEÐ ÓLÍNU UM RÚV: HINGAÐ OG EKKI LENGRA

Ég var að lesa lesendapistil Ólínar með fyrirsögninni “VERÐMÆTI RADDA AÐ HANDAN OG HÉÐAN”!  Stórmerkilegt framlag!  Mikið hlýtur Ólína vera greind og merkileg kona, ég vildi óska að svona góðir Íslendingar létu meir frá sér koma í ræðu og riti.  Ég þakka Ólínu!
Það hefur engin leyfi til að selja eða gefa einkaaðilum, Ríkisútvarpið, sem varðveitir ómetanlegan menningararf íslensku þjóðarinnar.  Almenningur hefur greitt fyrir þessa eign sína og íslenskur almenningur á Ríkisútvarpið, ekki einhverjir pólitíkusar!
Það hefur engin, hvorki lagalegt né siðferðislegt leyfi til að stela þessa ómetanlegu þjóðareign og færa einhverju græðgisfélaginu hana, hvað þá að þjóðinni óaðspurðri!. Það er komin tími til að segja hingað og ekki lengra!
Það er alls óeðlilegt að fulltrúar tveggja púkaflokka sem rétt mörðu meirihluta í síðustu alþingiskosningum, og samkvæmt skoðanakönnunum eru nú sennilega í minnihluta, þar sem annar þeirra er líklegast horfin af sjónarsviðinu sem stjórnmálaflokkur,  skuli voga sér að ræna eignum þjóðarinnar í þágu einkavæðingarinnar. Og ekki nóg með það því nú stendur til að láta greipar sópa um Ríkisútvarpið og þá ómetanlegu menningarsjóði sem þar eru. Slíkt væri meira en furðulegt, það væri svívirðilegt!
Ég er einnig sammála Ólínu um að það sé í meira lagi slappt, svo ekki sé dýpra tekið til orða, að “stjórnarandstaðan”, þar með verkalýðshreyfingin, menningafrömuðir og aðrir góðir Íslendingar, skuli hreinlega láta þetta landráð viðgangast!
Núverandi stjórnvöld hafa fyrir löngu slitið þjóðfélagsfriðnum með vítaverðu framferði sínu og margvíslegum afglöpum, og einhvern tíma hefði það ekki verið látið viðgangast.
Fólk hlýtur að spyrja, ef stjórnarandstaðan er ónýt sem stjórnarandstaða, hvaða burði mun hún þá hafa sem stjórnvöld?
Allir góðir Íslendingar hljóta að telja að nú sé þjóðinni ofboðið!
Úlfljótur