Tekið undir með Sjómannafélagi Reykjavíkur
Birtist í Mbl. 9.11.2002
Sjómannafélag Reykjavíkur hefur sýnt aðdáunarverða staðfestu í baráttu fyrir kjörum sjómanna. Það hefur vissulega oft verið á brattann að sækja. Íslensk skipafélög hafa þannig reynt að grafa undan kjarasamningum íslenskra sjómanna með því að ráða erlendar áhafnir á kjörum sem liggja langt undir því sem samið er um í íslenskum kjarsamningum. Þegar skipafélögin hafa ekki komist upp með þessa starfshætti hefur verið brugðið á það ráð að taka upp fána erlends ríkis sem lætur sig þessi mál litlu skipta. Þannig verða til hentifánaskip. Meira að segja Eimskip, sem á sínum tíma hlaut sæmdarheitið óskabarn þjóðarinnar, lét sér sæma slík vinnubrögð.
Bananar um borð
Um þessar mundir stendur yfir hatrömm deila við Atlantsskip. Það er sorglegt til þess að vita að ungir og kraftmiklir menn sem þar eru í forsvari skuli reiðubúnir að nýta sér neyð í löndum þar sem atvinnuleysi er mikið til að ráða áhafnir langt undir íslenskum kjarasamningum. Stefán Kjærnested, framkvæmdastjóri félagsins, segir að fyrirtækið fari að íslenskum lögum. “Samkvæmt þeim lögum er starfsemi okkar fyllilega lögleg”, segir Stefán í viðtali við Fréttablaðið 4. nóvember. “Það er ákveðinn rammi sem fyrirtæki og einstaklingar þurfa að fara eftir í þessu samfélagi og svo lengi sem maður er innan þess ramma hljóta það að teljast grundvallarréttindi að fá að lifa og starfa í friði.” Framkvæmdastjórinn segir það vera á ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis að breyta lögunum ef þau eru ekki mönnum að skapi. Það kann vissulega að vera nokkuð til í því. Jónas Garðarson formaður Sjómannafélags Reykjavíkur segir í viðtali við Fréttablaðið þennan sama dag að “varðandi siglingarnar frá Evrópu ... [sé] dálítill bananalýðveldisbragur á íslensku lögunum og Atlantsskip eru að nýta sér það.” Jónas segir hins vegar að í flutningum fyrir ameríska herinn sé “Atlantsskip að brjóta gegn íslenskum lögum ... Í þeim samningum er alveg klárt hvernig þetta á að vera. Það á að vera íslensk útgerð, sem rekur skip í eigin reikning og ræður til sín áhöfn. Þessi skilyrði uppfylla þeir ekki.”
Í skjóli utanríkisráðuneytisins
Í mjög þungorðu bréfi sem birtist í Morgunblaðinu 6. október segir Birgir H. Björgvinsson m.a. eftirfarandi: “Atlantsskip siglir bæði til Bandaríkjanna og Evrópu. Ameríkusiglingarnar eru í skjóli utanríkisráðuneytisins. Vegna þess að íslensk stjórnvöld og bandarísk hafa gert með sér samning á flutningi á varningi fyrir varnarliðið. Þar er meðal annars kveðið á um að af Íslands hálfu skuli íslensk útgerð annast þann hluta flutninga sem eigi að falla í okkar hlut. Það er á allra vitorði að Atlantsskip er ekki skipafélag. Félagið á ekkert skip og gerir ekki út skip. Það leigir skip sem meðal annars eru mönnuð fátækum mönnum sem þiggja hvað sem er til að geta keypt næstu máltíð. Þeir geta seint notið þæginda eða öryggis þrátt fyrir að starfa í okkar heimshluta. Atlantsskip kemur í veg fyrir það.”
Auðvitað er það á ábyrgð löggjafans að tryggja réttláta löggjöf og ef þar er að finna brotalamir þá ber að laga þær. Hins vegar skal einnig tekið undir það með talsmönnum sjómanna að fyrirtækjum á borð við Atlantsskip ber að sýna siðferðilega ábyrgð í stað þess að leita uppi smugur í löggjöfinni sjálfum sér til hagsbóta jafnvel þótt það brjóti í bága við lágmarkssamninga Alþjóðasambands flutningamanna. Atlantsskip stendur frammi fyrir tveimur valkostum: að ráða erlendar áhafnir á íslenskum kjörum eða einfaldlega að leita til íslenskra sjómanna. Hvað hið síðarnefnda áhrærir segir Jónas Garðarsson: „Atlantsskip eru að auglýsa sig sem íslenskt fyrirtæki en af hverju taka þau þá ekki þátt í íslensku samfélagi með því að ráða til sín íslenska áhöfn?“ Þetta er góð spurning.