Fara í efni

TELUR ESB TIL GÓÐS

Ekki er allt stuðningsfólk VG á móti ESB, öðru nær. Það eru fyrst og fremst 2 þjóðfélagshópar sem óttast um hagsmuni sína verði gengið í bandalagið, útgerðarmenn og bændur. Hægt er að fullyrða að hagsmunum allra annarra atvinnuvega á Íslandi er betur borgið innan ESB. Landbúnaður á Íslandi er sá dýrasti í heimi en afurðirnar eru alls ekki þær bestu. Skattgreiðendur í þéttbýli greiða milljarðatugi í styrki inn í greinina á hverju ári. Framþróun er lítil í íslenskum landbúnaði og lítil hagræðing á sér stað í greininni. Bændur hafa getað treyst á öfluga hagsmunagæslumenn (lobbýista) í gegnum tíðina, stjórnmálamenn sem hafa hagsmuni bænda í fyrirrúmi en ekki hagsmuni þjóðarinnar. Hvers vegna eru landbúnaðarvörur ekki upprunamerktar? Slíkt myndi hvetja bændur til að gera betur, hagræða og bæta framleiðsluna. Hagsmunasamtök bænda myndu væntanlega telja slíkar breytingar ógna flatneskjunni í íslenskum landbúnaði. Hagsmunir íslenskra bænda mega ekki koma í veg fyrir inngöngu í ESB, þá værum við að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Útgerðarmenn telja íslenskum sjávarútveg ógnað með inngöngu í ESB. Ljóst er að opna verður fyrir aðkomu annarra að íslenskum miðum en að þarf ekki að vera þjóðinni til tjóns, t.d. er hægt að setja í lög að allur fiskur sem veiðist í íslenskri lögsögu verði landað á Íslandi og boðinn upp. Það er þegar búið að hirða auðlindina af þjóðinni og gefa hana útvöldum einstaklingum svo hagsmunir þjóðarinnar í heild eru yfirdrifnir í umræðunni. Innganga Íslands í EFTA á sínum tíma og samningurinn um Evrópska efnahagssvæði hafa verið íslenskri þjóð til mikils framdráttar og það mun innganga í ESB líka verða.
Pétur