...ÞÁ FYRIRGEFUR ÞJÓÐIN ÞÉR
Vinkona mín í stiganginum, ellilífeyrisþeginn sem vann hjá danska seðlabankanum, segir mér að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og þjóðríkin sem þar hafa húsbóndavaldið misbeiti sjóðnum gegn Íslandi. Hún hefur spurt mig hvað íslenska utanríkisráðuneytið hafi gert til að upplýsa bandarísk stjórnvöld um þess stöðu á hinu pólitíska plani. Ég svarði: Ekkert. Og þá spurði hún: Var þá fylgisspekt ykkar Íslendinga við Bandaríkjamenn á alþjóðlegum vettvangi einskis metin? Er hið góða samband við Kana, sem íslenskir stjórnarherrar, hafa jafnan gumað af gagnavart Norðurlandaþjóðunum hjóm eitt? Og ég svaraði: Sennilega.
Sá hagfræðingur sem harðast hefur gagnrýnt Alþjóðgjaldeyissjóðinn undanfarin tíu ár er bandarískur. Hann er talinn einn af hundrað áhrifamestu mönnum á alþjóðavettvangi og var einn fárra úr þeirri sveit sem sté fram í viðtölum 1997, 1998 og 1999 og gagnrýndi stefnu AGS vegna aðgerða sjóðsins og skilyrða sem hann setti við lausn kreppunnar í S-Austurasíu sem fór um, land úr landi, eins og hvirfilbylur. New York Times leitaði þá eftir áliti hans, Financial Times gerði gagnrýni hans að sinni. Þegar hann talar, þá hlusta hagfræðingar heimsins, og kontóristarnir hjá AGS og þar með sá Jörundur sem Íslandi ræður nú.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ber talsverða ábyrgð á framgangi og upphafningu íslenskra bankamanna. Hann upphóf heimóttarskapinn og tryggði ásamt öðrum, meðal annars í krafti hæfileika sinna, skólamenntunar og embættis síns, að útlendir menn trúðu lengi framan af að íslenskt samfélag hefði fætt af sér einstaka hæfileika og gáfumenn á sviði alþjóðlegra fjármála. Alvarlegra var að Íslendingar trúðu sögu forseta eins og nýju neti. Ég er tilbúin til að fyrirgefa forseta frumhlaupið, ruglið og vitleysuna, en með einu eða tveimur skilyrðum.
Skilyrði er að hann, í kompaníi við þann mann sem hann löngum ól við pólitískt brjóst sitt, utanríkisráðherrann, taki nú hatt sinn og staf haldi út í hinn stóra heim til að berjast fyrir þjóð sína. Hann lá ekki á liði sínu þegar í hlut áttu auðmenn, en nú, Ólafur Ragnar, er komið að þjóðinni sem skóp þig. Fé auðmanna hvorki fyirgefur þér, né skrifar um þig söguna. Það gerir þjóðin.
Forseti gæti byrjað á því að kalla vin sinn til Bessastaða, til skrafs og ráðagerða, og setja saman í félagi við utanríkisráðherra f.h. ríkisstjórnar, herbragð þeirrar gerðar að geri þjóðinni kleift að standa undir skuldbindingum sínum hnarreist, en ekki á hnjánum, þannig að evrurnar verði ekki dregnar undan nöglum fátæks fólks. Þessi vinur forseta er einmitt sá sem virtur er, og harðast gagnrýndi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sá sem ég minnist á hér að ofan, hann er hagfræðingurinn Jefferey Sachs. Hann og menn á hans vegum eru kannske þau alþjóðlegu númer sem við þyrftum á að halda til að meta skuldir okkar og greiðslugetu. Sú sveit getur metið það hvort og hvernig við ættum, eða ættum ekki, að greiða skuld þeirra sem gúmmuðu með ábyrgð þjóðarinnar, án vitneskju hennar. Þetta er ein leið sem forseti ætti að fara að mínum dómi.
Sé burtreiðaspjót forseta brotið og klofinn skjöldurinn og hann sjálfur þrotinn vígamóði gæti hann synjað lögum staðfestingar sem leggja drápsklyfjar á þá sem hann hét að standa með. Ella hliðstillir sagan honum á bás með kóngsins mönnum og landstjórum, norskum, dönskum og þeim sem nú stjórna landinu. Það er önnur leið.
Þriðja leiðin er að segja ekkert, halda sig til hlés og reyna að láta sig hverfa inn í hóp auðmannanna sem helst vildu bregða yfir sig huliðshjálmi, en yrði þá gleði unga mannsins úr Rauða bænum heldur afturmjó. Berstu drengur, leggstu á árarnar með okkur, þá fyrirgefur þjóðin þér.
Ólína