"ÞÁ OG ÞVÍ AÐEINS... "
Almennt eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins feimnir þegar álstefnuna ber á góma, ekki síst nú í seinni tíð eftir að atvinnureksturinn í landinu er farinn að kveinka sér undan afleiðingum þessarar stefnu, fyrirtæki draga saman seglin og jafnvel hrökklast úr landi einsog
Auðvitað er stóriðjufárið á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins ekkert síður en Framsóknar því sjálfstæðismenn hafa stutt Framsókn í ríkisstjórn og á Alþingi alltaf þegar álhringirnir hafa fengið framsóknarráðherrana til að ganga erinda sinna. Nú er hins vegar þrengt að Sjálfstæðisflokknum, ekki síst eftir að fulltrúar atvinnulífsins tóku að gerast mjög gagnrýnir á stefnu hans. Augljóslega hefur Halldór beðið Geir um að vera við álumræðuna á Alþingi í morgun og hjálpa sér að svara Jóni Bjarnasyni. Þetta gerði Geir illu heilli fyrir Sjálfstæðisflokkinn og formann hans. Í allan dag hef ég verið að hitta fólk sem lýst hefur hve dapulegt hafi verið að fá fréttir af ræðu Geirs H. Haarde til varnar stóriðjunni. Ég hef minnt viðmælendur mína á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stutt stóriðjustefnuna í verki þannig að formaður flokksins hafi ekki verið að opinbera nein ný sannindi. Auðvitað væri ríkisstjórnin í heild ábyrg fyrir þessari stefnu.
En síðan er hitt, að Geir hafði mikla fyrirvara í máli sínu. Reyndar svo mikla að jaðraði við afneitun á stefnu þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur. Auðvitað á að halda áfram að álvæða, sagði Geir en bætti svo við: Þá og því aðeins...Fyrirvararnir ætluðu aldrei enda að taka...Þá og því aðeins, var margendurtekið, með skírskotun til efnahagslegra þátta, umhverfis og annarra þátta sem Framsóknarflokkurinn blæs á. Ég furðaði mig á því að fjölmiðlar skyldu ekki hafa gert fyrirvara formanns Sjálfstæðisflokksins að þungamiðju fréttarinnar. Fyrirvarar Geirs H. Haarde við stóriðjustefnuna voru að mínu mati hið fréttnæma við utandagskrárumræðuna á Alþingi í dag.