Fara í efni

ÞAÐ Á EKKI AÐ ÞEGJA ÓÞÆGILEGAR STAÐREYNDIR Í HEL

Sæll Ögmundur ...
Ég verð að fá að leggja orð í belg vegna ámátlegs væls í  SUS börnunum.  Ég hefði haldið að okkar unga glæsilega fólk hefði betri skilning á hvað réttlæti, sanngirni og heiðarleiki er, ekki síst þar sem margir Sjálfstæðismenn með sómatilfinningu, mæla með sem opnustu, sanngjörnu og réttlátu þjóðfélagi,,, þó þeim fari ört fækkandi.
Þegar Þórlindur, formaður SUS, segir að upplýsingar um skattgreiðslu einstaklinga í sameiginlegan skattgreiðendasjóð ríkisins, sé einkamál skattgreiðendanna, ásamt að það eigi að vera innan friðhelgi einkalífsins hvað fólk greiðir í skatta, þá blöskrar mér! Síðan skil ég ekki annað en að honum finnist að fólk eigi að borga skatta eins og því sjálfu sýnist, með þeim orðum; "finnst mér þú ´Ögmundur´ ættir ekki að ætla fólki annað en að það fylgi sinni samvisku" hvað skattgreiðslur snertir og það komi engum við hver sú samviskusamlega ákvörðun er. Ef við eigum að ætla að SUS fylgi samvisku sinni, hví ekki öllum öðrum? 
Ef þeir sem lesa þennan greinarstubb trúa mér ekki, sem ég myndi ekki lá þeim, þá set ég hér fang greinar Þórlinds, formanns SUS:  https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/formadur-sus-um-skattskrarnar

Þórlindur segir að skattgreiðsluleynd sé vernd og hagsmunir allra, jafnt fátækra sem ríkra. Mér er einfaldlega spurn hvort manninum sé alvara og hverskonar barnaskapur slík ályktun sé?  Veit maðurinn ekki að í fyrirheitna landinu var Al Capone hankaður á skattsvindli. Þar er algengt að glæpamenn sem ekki eru staðnir persónulega að verki þó þeir hafi fjöldamorð og limlestingar á samviskunni, séu hankaðir á skattsvikum og mega fyrir vikið oft dúsa það sem eftir er ævinnar í svartholi. 
Það færi vel að einkavinaþjófarnir á Íslandi fengju einnig gistingu í svartholi það sem eftir er ævinnar fyrir einkavinaglæpina, og þá fyrir skattsvik ef sekir reynast.  Það er engan vegin eðlilegt að fólk sem hefur eignir uppá miljarða ásamt ofurtekjum, margir hverjir sem fela ótrúlegar fúlgur fjár erlendis, sem er blóðtaka úr efnahag Íslendinga sem aldrei munu skila sér aftur, þó þessar fúlgur hafi verið græddar hérlendis,,, greiði vinnukonuskatta.  Nei, ég mæli með opnu þjóðfélagi, þá sérstaklega varðandi allt sem stjórnmálum landsins viðkemur!  Ég legg ennfremur til að fjárglæframennirnir sem hafa brotið siðferði og lög landsins, verði dregnir fyrir dómstóla og látnir borga skaðabætur og dúsa í fangelsi ef sekir finnast! 
Við erum nú að verða vitni að því að fólk er að tapa aleigunni á meðan auðmennnirnir og braskararnir hafa allt sitt á þurru og heimta ríkisábyrðgð!. Og nú vilja málsvarar þeirra að þagað verði um ránsfenginn sem þeir hafa dregið til sín. Heldur SUS að við ætlum að taka þessu þegjandi og láta kalla þá "hallærislega" sem voga sér að tala máli alþýðu manna og heimta allar staðreyndir um tekjuskiptinguna á Íslandi upp á borðið? Það má adlrei þegja um staðreyndir. Allra síst þær sem eru óþægilegar.
Ég vil taka undir spurningu Ólínar á vefsíðu Ögmundar:  "ERU ENGIN VIÐURLÖG VIÐ ÞVÍ AÐ EYÐILEGGJA EFNAHAGSKERFI ÞJÓÐAR?"
Úlfur