Fara í efni

ÞAÐ ER ENNÞÁ HÆGT!


Í dag slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Áður hafði Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, gert samkomulag við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingar um að reyna stjórnarmyndun.
ISG gefur í skyn að helst hefði hún viljað stjórn með VG og Framsókn. Því hefði VG hins vegar verið afhuga. Það er rétt að VG hefur bent á að erfiðleikar kynnu að skapast við myndun slíkrar stjórnar enda hefði Framsókn verið í forsvari fyrir þá málaflokka sem helst hefði steytt á undanfarin ár. Engu að síður hefur VG aldrei blásið slíkan valkost út af borðinu og hefur sá möguleiki því alltaf verið fyrir hendi.
Fyrirstaðan gegn því að á slíka stjórnarmyndun yrði látið reyna hefur fyrst og fremst verið sú að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn slitu ekki stjórnarsamstarfinu og gáfu til kynna áframhaldandi samstarf sín í milli. Umboðið fór því aldrei úr hendi Geirs H. Haarde.
Fyrir ISG væri nú hægur vandinn að láta reyna á samstarf VG, Framsóknar og Samfylkingar. VG hefur lýst vilja að láta reyna á samstarfsvilja þessara flokka. Þeir gætu allir lýst vilja sínum að svo yrði gert.  Slíkur vilji hefur þegar komið fram af hálfu Framsóknarflokksins auk VG. Það væri dapulegt ef Samfylkingin vildi ekki láta reyna á slíkar könnunarviðræður. Þetta er enn þá hægt.