Það er fórnarlambinu að kenna
Birtist í Mbl. 19.03.2003
Það sem við stöndum frammi fyrir í Íraksmálinu er fyrst og fremst tæknilegt mál; þ.e.a.s. hvernig við förum að því að réttlæta innrás. Innrásin sjálf og stríðið er aftur á móti ekkert vandamál. Yfirburðir okkar, innrásaraflanna, eru svo algerir. Það eina sem vantar er að réttlætið sé okkar megin. Síðan 1940 hefur heimurinn eytt 19 trilljónum bandaríkjadala í styrjaldir. Hlutur Bandaríkjanna í öllum hernaðarútgjöldum heimsins er meira en helmingur. Þann 11. september 2001 létust 35 þúsund börn úr hungri í heiminum samkvæmt tölum frá Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (sbr. grein eftir Betty Williams sem hlaut friðarverðlaun Nóbels 1976). Í dag eru 24 milljónir manna í Afríku dauðadæmdar vegna alnæmis og munu enga hjálp fá. Ef við myndum eyða jafnmiklum fjármunum til að leysa þessi vandamál og það kostar að halda úti her við landamæri Íraks í þrjár vikur, þá væru þau í allt öðrum farvegi og að stórum hluta leyst. Og ef til vill veittist þá óvinum okkar erfiðara um vik að sanna að við værum ofbeldismenn.
Stríðsgæfa er skammvinn en stjórnviska langvinn. Hinn vestræni heimur hefur ekki unnið neinn sigur á vígvellinum undanfarin 50 ár en aftur á móti marga sigra á sviði viðskipta, menningar og stjórnmála. Suður-Kórea er til vegna þess að kínverski herinn stöðvaði sókn sína, Víetnam tapaðist bandaríska herveldinu, Sómalía einnig, Nikaragúa og Kúba, Íranstríðið tapaðist líka. Spurningin er hins vegar hvað unnist hefði með friði.
En hvernig förum við að því að réttlæta stríðið (ég segi við, því við erum hluti af innrásaröflunum, eins konar vopnlaus púki sem hvetur stríðsmanninn, eða eins og áhorfandi í Colosseum sem setur þumalinn niður til að kveða upp dauðadóm yfir hinum sigraða gladíator). Við segjum að þetta verði skammvinnt stríð, ef til vill þrjár vikur. Það kemur hins vegar ekki heim og saman við það að Írak ógni öryggi okkar. Hvernig getur sá sem ógnar öryggi okkar verið sigraður í einu vetfangi?
Við getum auðvitað sagt að Saddam Hussein sé vondur við fólkið sitt. En þurfum við þá ekki að ráðast á Mugabe, Sharon og Kim-il-Jong? Þyrftum við ekki að stöðva átökin í Tsjetsjeníu, eyðingu Tíbet, átökin í Kasmír, Eþíópíu, Angóla, Kongó, Fílabeinsströndinni? Við skulum fara varlega í að nota röksemdina um vonskuna. Með hana að vopni gætum við lent í því að þurfa að ráðast inn í Bandaríki Norður-Ameríku – þar sem fólk er dæmt í ævilangt fangelsi fyrir að stela spólum úr vídeóleigu þrisvar í röð, þar sem nú er verið að koma á fót 170 þúsund manna stofnun sem á að hafa “eftirlit með þegnunum” – við gætum lent í því að ráðast á ríki sem ræður yfir efnavopnum og kjarnorkuvopnum og öflugasta her í heimi, ríki sem stöðugt er að ráðast inn í önnur ríki.
En hvað er þá eftir, með hverju er hægt að réttlæta stríðið? Með ályktun SÞ númer 1441. Sagt er að Hussein gangi hægt að uppfylla skilyrði hennar. Ísraelsstjórn hefur hundsað ekki einungis 14 heldur hátt í 40 ályktanir Öryggisráðsins. Þarf þá ekki líka að ráðast inn í Ísrael?
Hvers vegna fær Saddam Hussein stuðning frá fátækustu ríkjum heimsins? Gæti verið að þeim finnist yfirvofandi stríð minna óþægilega á nýlendutímann þegar barist var um auðlindir í ríkjum Afríku og Asíu? Gæti verið að þau hafi grun um að þetta snúist alls ekki um það að steypa harðstjóra af stóli heldur um olíu og hernaðarhagsmuni? Gæti verið að þeim finnist fórnarlambið í þessum hildarleik vera íraska þjóðin? Og gæti verið að þeim finnist það vera undarlegt réttlæti að krefjast þess að óvinurinn afvopnist jafnframt því sem lýst er yfir að eftir sem áður verði á hann ráðist. Hann sé réttlaus af því að hann geti sjálfum sér um kennt. Rétturinn sé hins vegar "okkar", innrásaraflanna, til að setja þóknanlega stjórnarherra til valda.
Við höfum lítið álit á Saddam Hussein en mikið á okkur sjálfum. En er það ekki bernsk hugsun að halda að innrás leysi allan vanda? Kennir ekki sagan að þyki fólki sig órétti beitt þá framkalli yfirgangur ofbeldi. Menn fæðast ekki hryðjuverkamenn. Menn gerast hryðjuverkamenn.
Skyldi staðreyndin vera sú að þolinmæði, þrautseigja og hægfara barátta sé þegar allt kemur til alls vænlegri til árangurs í baráttu gegn harðstjórum? Stjórnvöld í Suður-Afríku gáfust upp fyrir mórölskum og viðskiptalegum þrýstingi. Vissulega kostar það þrautseigju að steypa einræðisherrum heimsins af stóli en allir gefast upp að lokum ef þeir mæta staðfastri baráttu. Við eigum það á hinn bóginn á hættu að framlengja veru og völd einræðisherranna með ofsóknarbrjálæði og hatri okkar sjálfra og kannski endað með því að sitja uppi með okkar eigin einræðisríki sjálf. Mesta öryggið er auðvitað að vera í fangelsi, helst í einangrun.
Það er skelfilegt að vita til þess að Bretland og Bandaríkin og sjálfsagt mörg önnur ríki skuli ráða yfir gereyðingarvopnum og efnavopnum og hafi fengið þau í hendur mönnum eins og Saddam Hussein. Niðurstaðan er auðvitað ein og aðeins ein: Það verður að krefjast algerrar eyðingar slíkra vopna í heiminum, hvar sem þau er að finna og hver svo sem hefur þau undir höndum. Það er enginn maður og ekkert stjórnkerfi nægilega “þroskað” til að geta átt og varðveitt slík vopn, hvort sem eru gereyðingarvopn sem Bandaríkjamenn eiga en Írakar ekki eða efnavopn sem báðar þjóðir hafa undir höndum.
Á áttundu öld hafði veldi múslíma þanist út og var í rauninni eina heimsveldið á þeim tíma. Sagan segir að einn af landstjórum hins sögufræga kalífs Omars Ibn Abdel-Aziz hafi sent honum beiðni um stuðning til að bæta varnir sínar. Það væri órói í landinu og til varnar höllinni þyrfti að efla borgarmúrana. Ómar hafnaði beiðninni og sagði að landstjórinn skyldi efla réttlætið, bæta stjórnarhættina og opna múrana. Réttlætið væri besta vörnin. Hugsjón kalífsins Ómars var að reisa stórveldi sitt á góðu siðferði. Þessi afstaða ætti að vera stórveldum samtímans til eftirbreytni.