Á þessa leið mælti Haraldur Steinþórsson, talsmaður Félags hjartasjúklinga á baráttufundi í Austurbæ í gær. Þessi gamli baráttujaxl, fyrrverandi varaformaður BSRB til margra ára, vandaði ríkisstjórninni ekki kveðjurnar í frábærri tölu sinni á fundinum en honum var stefnt gegn niðurskurði ríkisstjórnarinnar á Landspítala – Háskólasjúkrahúsi. Haraldur sagði að þjóðin stæði einhuga að baki heilbrigðisþjónustunni, það hefði margoft sýnt sig. Hin fjölmennu samtök sjúklinga í landinu hefðu einnig sýnt í verki samstöðu um að stuðla að uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar. Ríkisstjórnin gengi nú gegn þjóðarviljanum og mætti segja með sanni að með aðgerðum sínum væri hún að innleiða dauðarefsingu í landinu. Þetta sagði Haraldur Steinþórsson og hafði nokkuð til síns máls. Við skulum hafa hugfast að Haraldur er í forsvari fyrir sjúklinga sem eiga allt sitt undir því komið, hugsanlega líf sitt, að þeir geti leitað til neyðarmóttöku á öllum tímum. Nú er rætt um að loka bráðamóttöku fyrir hjartasjúklinga um helgar!
Fundinum stýrði Einar Oddsson formaður Starfsmannaráðs Landspítala – Háskólasjúkrahúss. Talsmenn Öryrkjabandalagsins, Umhyggju, Geðhjálpar og Landssambands eldri borgara tóku allir djúpt í árinni gagnvart niðurskurði ríkisstjórnarinnar í áhrifamikulm ræðum sínum. Það gerðu og talsmenn samtaka launafólks, Elsa B. Friðfinnssdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga, sem talaði fyrir hönd BHM, Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Eflingu, sem var talsmaður ASÍ, Jón Snædal sem talaði fyrir Læknafélag Íslands og Kristín Á Guðmundsdóttir formaður Sjúkraliðafélags Íslands en hún var í málsvari fyrir BSRB. Hún sagði á þá leið að niðurskurðurinn nú væri frábrugðin því sem áður hefði gerst að því leyti að hér væru ekki á ferðinni nein venjuleg sparnaðaráform heldur „handstýrð kreppa“ til að knýja fram einkavæðingu. Þetta held ég að sé rétt greining hjá Kristínu Á Guðmundsdóttur.
Í lok fundarins bar Halldóra Friðjónsdóttir, formaður BHM upp ályktun sem var samþykkt með dúndrandi lófataki.
Ályktunina og frásögn af fundinum má sjá á heimasíðu BSRB, nánar tiltekið þessari slóð:
http://www.bsrb.is/Default.asp?ID=0&type=one&news_id=586&menuid=