Fara í efni

ÞAÐ MÁ OG Á AÐ GAGNRÝNA DÓMSKERFIÐ

Birtist í Morgunblaðinu 11.04.25.
Ráðherra í ríkisstjórn gagnrýndi nýlega dómstóla landsins og kvaðst hafa misst trú á réttarfarinu. Ekki var um það að ræða að ráðherrann myndi ekki hlíta dómsúrskurðum, aðeins að sér þættu dómar iðulega ranglátir. Látum inntakið, það er að segja tilefni gagnrýni ráðherrans, liggja á milli hluta, hugleiðum aðeins hitt sem olli hvað mestu uppnámi, ekki síst í stétt dómara sem þótti að sér vegið, en það var meint skilningsleysi ráðherrans á þrískiptingu valdsins. Þar sem ráðherrann væri handhafi eins armsins í hinu þrískipta valdi, framkvæmdavaldsins, væri fráleitt að hafa uppi slíkar efasemdir sem gæti ekki orðið til annars en að grafa undan sjálfri stjórnskipan landsins.

Gagnkvæm þögn?

Þessu ætla ég að leyfa mér að andmæla og færa fyrir því rök. Ég tel nefnilega vera ærin tilefni til aukinnar umræðu – og helst gagnrýnnar - á milli valdþátta ríkisvaldsins. Eitt vil ég þó nefna áður en lengra er haldið: Ef það er svo að stjórnmálamenn, það er að segja löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið, megi ekki gagnrýna dómsvaldið, er þá svo að skilja að það sé gagnkvæmt, að dómarar eigi að þegja um stjórnmálin? Vissulega væri þá ákveðin samkvæmni til staðar sem ber að virða.
Svona er það þó ekki. Sumum dómurum finnst nefnilega í góðu lagi að þeir gagnrýni stjórnmálamenn og stjórnmálin almennt en vísa svo nefinu upp í loft ef stjórnmálamenn gagnrýna þá, að ekki sé minnst á dómskerfið almennt og þar með réttarfarið eins og fyrrgreint ráðherramál er dæmi um.

Það má gagnrýna en hlíta ber dómsniðurstöðu

Sjálfur hef ég reynslu af því að gagnrýna niðurstöður dómstóla á sama tíma og ég gegndi ráðherraembætti og það meira að segja embætti dómsmálaráðherra. Það var þegar Hæstiréttur ógilti kosningu til Stjórnlagaþings með tilvísun í umdeilt tækniatriði, svo smávægilegt að þorra fólks þótti réttlætiskennd sinni misboðið. Sagði ég að líklegt mætti heita að í framtíðinni yrði litið á þennan dómsúrskurð sem svartan blett í réttarfarssögunni. Lét ég þó fylgja með að hlíta bæri dómnum og talaði ég fyrir því í mínum pólitíska ranni og fannst rétt að kjósa aftur.

Lagabókstafurinn og andi laganna

Álengdar hef ég stundum fylgst með umræðu lögmanna sem annars vegar rýna mjög stíft á lagabókstafinn og hins vegar þeirra sem segja að lögin þurfi iðulega túlkunar við og að horfa þurfi til allra hliða á hverju máli svo og á málavöxtu í víðu samhengi svo fanga megi „anda laganna.“
Í þessari umræðu þyrfti þá að spyrja hvar skarist andi laganna og andinn í þjóðfélaginu – tíðarandinn. Ekki er óeðlilegt að spurt sé; hvort það sé ekki einmitt tíðarandinn, breytt viðhorf í samfélaginu, sem hafi fært okkur fram á við, valdið því að réttarkerfið hefur fjarlægst Drekkingarhyl, öxi böðulsins og hrísvöndinn?
Á hinn bóginn þekkjum við dökkar hliðar tíðarandans, galdrafár og margvíslega sefasýki sem aldrei er fjarri okkur mannfólkinu. Þá er vissulega þörf á dómstólum sem þora að standa þétt við lagabókstafinn.

Skynsemi alltaf þörf

Þarna geta báðar fylkingar sameinast, lagabókstafsmenn og talsmenn andans í lögum og samfélagi. Enginn getur véfengt að réttarfarið hafi tekið breytingum í tímans rás, lögum hefur verið breytt og viðhorfin í þjóðfélaginu hafi að sama skapi tekið breytingum; hvort komið hafi á undan hænan eða eggið skiptir ekki öllu máli. Í anda upplýsingar 18. aldarinnar og í kjölfar hennar var lögum breytt víða í norðan- og vestanverðri Evrópu en jafnframt hafði komið til sögunnar nýr skilningur á eðli glæps og refsingar. Breyttar áherslur í upp kveðnum dómum báru þessu vitni og nægir að vísa í Magnús Stephensen sem upp úr aldamótunum átján hundruð kvað dóma eiga að betrumbæta menn svo þeir hyrfu frá villu síns vegar. Áður var það refsingin sem réði.
Þótt hér séu dregnar upp skýrar línur er það fjarri lagi svo að lagabókstafsmenn afneiti því alfarið að horfa til anda laganna eða á hinn bóginn að þeir sem vilji lesa í anda laganna og horfa til framsækinna hugmynda í þjóðfélaginu afneiti lagabókstafnum. Allir viðurkenna að þarna þurfi að vera skynsamleg blanda af öllu þessu.

Réttarkerfið frammi fyrir lagatækni og ágengum tíðaranda

Engu að síður höfum við séð öfgar af báðum vængjum birtast okkur í íslensku réttarkerfi. Annars vegar hafa verið kveðnir upp dómar á grundvelli lagatækni sem öllum finnst vera ranglátir þótt lagabókstafslega kunni þeir að standast og þannig vera „réttir“. Ég leyfi mér að sleppa dæmum um slíkt hvað sem síðar verður. Á hinn bóginn höfum við dæmi um dóma sem greinilega eru kveðnir upp vegna þrýstings i þjóðfélaginu. Dæmi um þetta er hrikalegt misræmi í dómum sem snúa að ásökunum um kynferðisofbeldi. Þar eru dæmi, annars vegar um sinnuleysi réttarkerfisins og hins vegar um hrein réttarmorð.
Það er einmitt þarna sem mér þykir mest knýjandi að hið þrískipta vald taki upp umræðu sín á milli: spurt verði hvort vera kunni að tíðarandinn hafi reynst dómskerfinu um megn á þessu sviði og í framhaldinu finna hvar brotalamirnar séu og síðan leiðir til úrbóta.

Þörf á samræðu

Leiðir til útbóta finnast aðeins með samræðu.
Erum við þá aftur komin að þrískiptingu valdsins. Þar þarf vissulega að virða mörkin í milli valdþáttanna þriggja. En það útilokar ekki samræðu yfir landamærin. Þvert á móti getur samræðan skapað gagnkvæman skilning sem aðeins getur orðið til góðs.
Ég leyfi mér að rifja upp að þegar ég gegndi stöðu ráðherra dómsmála var staðið að slíkri umræðu. Á þeim tíma beindist gangrýnin einkum að því að kynferðisofbeldi og ofbeldi gegn börnum væri ekki gaumur gefinn. Þetta leiddi án efa gott af sér en í kjölfarið hefur svo vaknað sú spurning hvort það sem áður varvan geti orðið of í einhverjum tilvikum.

Viturlega mælt í Strassborg

Í málsskjölum með tilteknum dómum Mannréttindadómstóls Evrópu kemur fram að málsmeðferð í dómsmálum megi og eigi að gagnrýna telji menn ástæðu til. Þannig fái kerfið að þróast til betri vegar. Það á þá væntanlega við um dómstóla almennt svo og Mannréttindadómstólinn sjálfan. Þetta er viturleg afstaða að mínu mati.
Mannréttindadómstól Evrópu er ætlað að kveða á um meginlínur í mannréttindamálum eins og þær teljast vera að þjóðarétti. Þannig ber fyrst og fremst að skilja hlutverk hans og annarra samsvarandi stofnana sem gefa leiðbeinandi álit; vinni þær sér virðingu og traust verður álit þeirra ígildi bindandi úrskurðar – en ekki fyrr.
Þetta hlutverk dómstólsins í Strassborg skildu íslensk stjórnvöld hins vegar því miður ekki þegar hann komst að niðurstöðu um hvernig skipa bæri hinn íslenska Landsrétt. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins í því máli var að mínu mati reyndar fullkomlega fráleit þótt hún vísaði í rétta átt – sömu átt og þegar hafði verið tekin ákvörðun um hér á landi að stefna í og var í reynd komin til framkvæmda þegar mannréttindadómararnir voru beðnir um að leggjast undir feld sinn.

Orð eiga að vera frjáls

Þetta slapp hins vegar fyrir horn hjá þeim í Strassborg eða þar til framkvæmdavaldið hér á landi lagðist á hnén frammi fyrir dómstólnum með yfirgengilegum og algerlega ónauðsynlegum kostnaði fyrir íslenska skattgreiðendur.
Við það mátti öllum verða ljóst hve skaðlegt það er þegar það gleymist að allir hafa rétt á því að standa á sínu, dómsvaldið vissulega en einnig löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið.
Hið þrískipta vald þarf að sjálfsögðu að virða þau landamæri sem því hafa verið afmörkuð. Þar erum við hins vegar ekki að tala um gagnrýnin orð sem alltaf eiga að fljúga frjáls.

--------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/