ÞAÐ MÁ TALA UM ALLT OG ÞAÐ Á AÐ TALA UM ALLT Í FORSETAKOSNINGUM – HUGLEIÐINGAR 1. MAÍ
Er hugsanlega verið að upphefja embætti forseta Íslands um of; að frambjóðendur séu að verða óþægilega upphafnir, telji sig vera að komast á æðra plan, hið konunglega?
Einn frambjóðandinn segist ætla að vaka yfir Alþingi og eiga í stöðugum trúnaðarviðræðum við ríkisstjórn og þing, annar frambjóðandi segist ætla að verða leiðtogi þjóðarinnar og hafi aflað sér reynslu til þess, enn einn ætlar að sameina Íslendinga undir sínum faldi, sem er virðingarvert nema sameinað verður aldrei þjóðfélag án jöfnuðar, og sá fjórði segist ætla að hafna því að heilsa vafasömum pappírum utan úr heimi (sem þýðir að fáum verður heilsað) og aldrei muni hann samþykkja dauðarefsingu. Allt er þetta að sjálfsögðu gott að vita – eða þurfum við kannski að vita eitthvað allt annað?
Skoðanakannanir dæma frambjóðendur úr leik of snemma
Þetta eru þeir fjórir frambjóðendur sem fjölmiðlarnir hleypa að í umræðunni. Það er gert í krafti skoðanakannana sem vel að merkja voru birtar áður en framboðsfrestur rann út. Hinna frambjóðendanna er síður getið ef þá yfirleitt nokkuð. Þó er þar að finna fólk með áhugaverðan boðskap sem gjarnan mætti kynna miklu betur.
Kannski á það síst við um Ástþór, hann er þegar búinn að kynna sig vel, er gamall kunningi úr þessum bransa ef svo má segja, var við það að heltast úr lestinni vegna ónógra meðmæla en marði það á síðustu stundu. Níu líf þar, að minnsta kosti.
Áherslur þessa frambjóðanda falla um margt að mínum. Hann hefur í alvöru og svikalaust talað fyrir friði og gegn vígvæðingu og telur að Íslendingar gætu lagt sitt af mörkum til að koma á samningaviðræðum í Úkraínustríðinu og fleiri stríðsátökum. Vandinn er sá að þá þyrftum við ríkisstjórn og Alþingi sem talaði ekki þvert á þessa stefnu og framkvæmdi þvert á þessa stefnu eins og raunin hefur verið undanfarin ár.
Vanur að vera hunsaður
Það er ekkert nýtt að Ástþór sé hunsaður af fjölmiðlum. Þegar viðskiptabann var sett á Írak á tíunda áratug síðustu aldar að undirlagi Bandaríkjanna en með samþykki Öryggisráðs SÞ, sem talið er hafa valdið dauða að minnsta kosti hálfrar milljónar barna, þá leigði Ástþór þotu og flaug með hjálpargögn til Bagdad. Auðvitað fannst öllum innst inni þetta hafa verið það eina rétta þegar ljóst var orðið að ofbeldið var farið að hafa þessar afleiðingar. En hann einn hafði framtakið og hugrekkið til að gera þetta.
Ég minnist þess að hann kom til mín í tengslum við þetta mál en þá sat ég á þingi. Sagði hann farir sínar ekki sléttar. Hann þyrfti nauðsynlega að ná fundi með íslenska utanríkisráðuneytinu, ekki til að biðja um samþykki fyrir gjörðum sínum, hvað þá velþóknun, heldur til þess að fá upplýsingar um tæknileg efni. Honum hafi hins vegar ekki verið svarað þrátt fyrir að hann margítrekaði beiðni sína. Mér fannst þetta vera óboðleg framkoma og ákvað við svo búið að óska eftir fundi í ráðuneytinu. Og fund fékk ég. En áður en ég mætti þá lét ég vita að ég kæmi ekki einn, með mér yrði Ástþór Magnússon. Menn áttu ekki annarra kosta völ en að taka þessu vel. Ástþór fékk svo svarað erindi sínu á þessum fundi sem átti ekki að verða en sem engu að síður varð.
Hugmyndir Ástþórs hafa mér oft þótt góðar, stundum fulldjarfar – en oftast hef ég stutt þær. Hvort ég vildi vakna upp við hvasst augnaráð hans í forsetaávarpi á nýársdag veit ég svo ekki. Það er önnur saga en það sem ég veit er að ég tek ofan fyrir Ástþóri Magnússyni fyrir að þora og að vera sjálfum sér samkvæmur í friðarboðun sinni.
En Ástþór er ekki alltaf þægilegur ferðafélagi í kosningabaráttu og líkar sumum illa þegar hann spyr meðfambjóðendur sína um þeirra gjörðir og afstöðu. Þá vilja menn helst að hann þegi, kannski vegna þess að sannleikanum er hver sárreiðastur. Vörnin er þá að segja að gagnrýnin sé illmælgi.
Gagnrýni er ekki sama og illt umtal
Mér finnst að menn verði að gæta sín á því að flokka ekki alla gagnrýni sem illt umtal. Það er ekki ómálefnalegt að vekja athygli á því hverju Katrín Jakobsdóttir hefur staðið fyrir undanfarin ár sem forsætisráðherra og hverjar áherslur hennar hafa verið í málflutningi á erlendri grundu í heimi vaxandi vígvæðingar, hvort boðskapur hennar yrði á sömu lund á Bessastöðum og hann hefur verið í Stjórnarráðinu hljótum við að spyrja; það er ekki ómálefnalegt þegar Halla Hrund, Katrín og Halla Tómasdóttir eru spurðar um afstöðu til Word Economic Forum sem margir telja ógna lýðræðinu í heiminum en allar þrjár hafa þær komið þar við sögu; það er ekki ómálefnalegt að spyrja Arnar Þór Jónsson hvort hann færi með fullveldismál fyrir þjóðina án áskorana frá almenningi, hann á rétt á því að umræða um fullveldismálin, og annað sem hann stendur fyrir, sé tekin; það er ekki ómálefnalegt að spyrja Baldur Þórhallsson um hvort hann sjái heiminum bjargað með fleiri vopnum en færri í framhaldi af tali hans um íslenskan her, því um þetta gætu áherslur forseta snúist í ávörpum til þjóðarinnar og því skipt máli hver trumbuslátturinn er frá Bessstöðum. Það er ekki ómálefnalegt að spyrja Steinunni Ólínu um hverjar áherslur hún hafi hvað varðar boðskap forseta um framtíðina fyrst við höfum kynnst afstöðu hennar til þess sem liðið er, sem hún hefur fullan rétt á að hafa skoðun á, og Helgu Þórisdóttur má spyrja um mótsagnir eftirlits og persónuverndar sem gæti verið áhugavert viðfangsefni forsetaembættisins að velta vöngum yfir á komandi árum en þar er hún á heimavelli. Og Jón Gnarr má gjarnan spyrja útí fyrri ummæli hans um að hann ætli ekki að sýna bófum heimsins vinsemd, hverjir bófarnir séu og hvort hann ætli að neita að taka á móti þeim á Bessastöðum og Eirík Inga Jóhannsson, sem hjá okkur mörgum er óskrifað blað, má hreinlega spyrja hvers vegna við ættum að kjósa hann á Bessastaði. Ekki verður sagt um Ásdísi Rán að hún sé óskrifað blað en hana mætti eflaust spyrja hvað fylgdi henni inn á Bessastaði ef til kæmi. Það gæti meira að segja þótt forvitnilegt efni í dálkum um “fólk í fréttum”.
Reynt að þagga óþægilega umræðu
Við segjum gjarnan að dæma skuli fólk af verkum sínum, orðum og athöfnum. Þegar verkin reynast orka tvímælis gengur ekki að afgreiða umræðu um þau sem rógburð og illmælgi. Bjóði fólk sig á annað borð fram til að gerast málsvarar þjóðarinnar við mikilvæg tilefni, verður það að vera tilbúið að horfast í augu við sig sjálf og eigin verk. Það á líka við um stuðningsfólk sem margt hvert keppist við að þagga óþægilega umræðu um “sinn” frambjóðanda.
En stuðningsfólkið mætti hugleiða að það sem einum þykir óþægilegt hrífur annan og nýtur jafnvel fjöldafylgis. Til dæmis má nefna að Alþingi samþykkti fyrir nokkrum dögum tillögu ríkisstjóranrinnar um að taka þátt í vopnakaupum til Úkraínu. Formaður utanríkisnefndar þingsins sagði að ef við ekki sendum byssur og skotfæri yrðu engir eftir á vígvellinum til að þiggja íslenska lopavettlinga og var þá óbeint vísað í ummæli utanríkisráðherra um að hefðu úkraínskir hermenn ekki hlýja íslenska ullarvettlinga á höndunum gæti verið erfitt fyrir þá að miða á fjandmanninn og skjóta hann. Ekki þótti þörf á því að senda tilmæli ríkisstjórnarinnar til umsagnar því allur þingheimur væri þeim sammála. Þetta las ég á bloggi Björns Bjarnasonar, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem var yfir sig hrifinn af samstöðunni. Ég hefði verið ósammála. Í mínum huga var afstaða Alþingis pínleg, óþægilegt mál fyrir þau. Aldeilis ekki frá þeirra sjónarhóli og hugsanlega meirihluta þjóðarinnar.
Og áfram mætti telja dæmin um þægileg mál og óþægileg. Forstjórum Brims og Samherja þykir kvótakerfið svo frábært að þeir skilja ekki að nokkrum manni skuli þykja það óþægilegt að hafa haldið verndarhendi yfir því kerfi. Öðrum þykir slíkt hins vegar af og frá, kerfið sé óverjandi.
Þetta á við um flest umdeild mál, markaðsvæðingu orkunnar og einkavæðingu innviða. Öll mál eiga sér verjendur og andstæðinga. Og öll þessi mál má og á að ræða. Jafnvel fjárhættu-spilakassarnir eiga sér verjendur. Að öðrum kosti hefði þeim fyrir löngu verið lokað.
Mikið væri gaman að fá forseta á Bessastaði sem talaði gegn spilavítum. Væri ráð að fá forsetaframbjóðendur til að tjá sig um þau? Mér þætti kjörið viðfangsefni fyrir forseta að tala máli þeirra sem verða spilafíkninni að bráð. Ekki gerir Alþingi það, með aðeins örfáum virðingarverðum (að því er mér finnst) undantekningum.
Ofurmannlegt starf?
Og þar erum við aftur komin að embætti forseta Íslands. Ég held að þrátt fyrir allt það sem á undan er sagt sé verið að gera meira úr þessu embætti en ég vildi sjá það verða. Þetta á að vera svo flókið og erfitt er okkur sagt, og kalla á svo mikla reynslu og svo mikið mannvit og svo mikla leiðtogahæfileika (sem enginn veit almennilega hvað er) til að leysa gríðarlega snúin og erfið mál, nánast ofurmannleg. Ekkert af þessu stenst skoðun þótt vissulea hafi komið upp augnablik í starfi forseta sem kölluðu á djörfung og góða dómgreind. Það á við í þessu starfi eins og svo mörgum öðrum og í lífinu almennt.
Á heildina litið sýnist mér þetta vera tiltölulega einfalt starf, krefjist þess að viðkomandi sé áhugasamur um íslenska menningu, sé þægilegur í umgengni, hafi úthald til að ávarpa góðgerðasamtök, rithöfundasambandið og átthagafélögin; bjóði af sér góðan þokka, sé heiðarlegur, sjálfum sér samkvæmur og megi gjarna hafa sýnt það í verki. Og fyrir minn smekk þarf forseti Íslands að vera málsvari friðar – ekki hernaðar. Frá mínum sjónarhóli er það ekki aðeins svo að það megi ræða þann þátt, það á að ræða hann en ekki þagga umræðu um afstöðu frambjóðenda til stríðs og friðar.
Ég trúi því nefnilega í alvöru að heimurinn kunni að vera kominn á heljarþröm og nóg komið af fylgispekt Íslands við hernaðarhyggju. Ef Bessastaðir töluðu öðru máli en NATÓ- ríkisstjórn þá væri það bót í máli í mínum huga jafnvel þótt forsetinn hafi ekki annað vald en mátt orða sinna.
Réttur þjóðarinnar til þjóðaratkvæðagreiðslu
Og fyrst ég er farinn að tala um mínar óskir, þá er mér það ljóst að þar til við höfum opnað á stjórnarskrárvarinn rétt þjóðarinnar til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu milliliðalaust um kvótann, afhendingu fjarðanna til kvíaeldis, markaðsvæðingu raforkunnar og heilbrigðiskerfisins, eignarhald á landi, uppbyggingu hernaðarmannvirkja á Íslandi, þátttöku í stríðsátökum og svo margt annað sem stjórnvöld hafa framkvæmt oftar en ekki þvert á greinilegan þjóðarvilja á undanförnum árum og áratugum – þá hlýtur forsetinn að vísa til þessarar sömu þjóðar málum þar sem fyrir liggur skýr vilji um slíkt af hálfu kjósenda. Þetta á ekki síst við um málefni sem sannanlega grafa undan sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar en einnig grundvallarbreytingar á lagaumgjörð samfélagsins.
Áhættan við að vísa málum til þjóðarinnar er nákvæmlega engin því með þessu móti er einfaldlega verið að afhenda úrskurðarvaldið þeim sem eiga að hafa það á hendi, og það er að sjálfsögðu þjóðin. Standi vilji hennar til þess að kalla það vald til sín hefur enginn rétt til að standa þar í móti.
Þegar allt kemur til alls eru ríkisstjórn, Alþingi og forsetinn milliliðir, handlangarar okkar, almennings - þjóðarinnar.
Vil ekki láta leiða mig
Og fyrir alla muni hlífið okkur við leiðtogum, ég fyrir mitt leyti í það minnsta vil ekki láta leiða mig. Sannast sagna vil ég ekki sjá leiðtoga hverju nafni sem þeir nefnast, kóngar, drottningar, forsetar eða First lady sem er farið að heyrast um eiginkonu núverandi forseta.
Öll svona fordild og upphafning smitar út frá sér, inn í alla kima þjóðfélagsins, ekki síst vinnustaðina, þar er viðtekið, og hefur verið lengi reyndar, að tala um undirmenn og yfirmenn sem er náttúrlega ævintýraleg ósvífni í hugtakasmíð en hefur þýðingu þegar til kastanna kemur.
Við vildum hvorki yfirmenn né undirmenn
Í tilefni dagsins, 1. maí, dagsins sem hafnar hvers kyns mismunun og yfirgangi í atvinnulífinu sem annars staðar, minnist ég þess að í tíð minni hjá Sjónvarpinu þar sem ég starfaði í áratug, hengdum við í starfsmannafélaginu upp plaköt þar sem stóð stórum stöfum, Fleiri eru menn en yfirmenn, en stundum þarf að minna á það. Styrkjum Starfsmannafélag Sjónvarps!
Ég held að við þurfum að minna þetta ágæta fólk, sem býður sig fram til forseta, á það að halda sig við jörðina, nærri okkur hinum. Að hafa litillátan forseta með gott jarðsamband er hið besta mál og vona ég eins og aðrir að vel takist til við valið.
Til hamingju með daginn, 1. maí, baráttudag verkalýðsins.
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.