Það margborgar sig að skera niður í menntakerfinu!
Um leið og ég þakka félaga Þjóðólfi athyglisverðan pistil um hægðakenningu Guðna Ágústssonar, en hún gengur út á það að góðar hægðir séu betri en miklar gáfur, vil ég benda mínum kæra vini á mikilvægt atriði sem mér sýnist að honum hafi algerlega sést yfir. Það er sú staðreynd að Íslendingar eru gáfaðasta þjóð í heimi. Og til hvers hefur það leitt? Jú, gífurlegs harðlífis meðal þjóðarinnar og alls kyns meltingartruflana sem hefur kostað heilbrigðiskerfið gríðarlega fjármuni, að ekki sé talað um stórbrotið tap atvinnulífsins sem hefur mátt horfa upp á stórskert vinnuframlag starfsmanna sinna vegna veikindafjarvista. Og þá spyr maður sig: til hvaða fyrirbyggjandi aðgerða er hægt að grípa? Jú, beinast hlýtur að liggja við að skera menntakerfið hraustlega niður. Öll sú makalausa ítroðsla sem þar fer fram er eins og olía á eldinn; þar er markvisst púkkað upp á gáfnafar uppvaxandi kynslóða og greindarvísitalan pínd upp með góðu eða illu. Þar með er aukið á grundvallarvanda þjóðarbúskapsins sem felst fyrst og fremst í íslensku hugviti og þar af leiðandi rándýrum meltingartruflunum sem plaga þorra landsmanna. Guðni Ágústsson hefur galopnað augu mín fyrir þessum sannindum. Hafi hann margfaldar þakkir fyrir. Að mínum dómi hefur Guðni allt það til að bera sem gróandi þjóðlíf þarf á að halda; óbilandi kjark, mikið þor og síðast en ekki síst sérdeilis góðar hægðir.
Jón frá Bisnesi