Fara í efni

ÞAÐ SEM HELST HANN VARAST VANN...

Ég hef stundum dáðst að því hve nýtinn maður Þorsteinn Pálsson er. Sem kunnugt er hefur þessi fyrrverandi ráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, ritsjóri og sendiherra með meiru, tekið að sér að vera fastur dálkahöfundur helgarútgáfu Fréttablaðsins og hefur hann þakið leiðarasíðu blaðsins með skrifum sínum um nokkurt skeið. Þetta er orðið þó nokkuð  efni að magni til.
En þá er það nýtnin. Ekki veit ég hve margir hafa lesið ritsmíðar Þorsteins Pálssonar. En sökum nýtni hans nægir að lesa eina, tvær greinar til að fá góða mynd af skoðunum höfundar því alltaf er sama stefið, nánast sama greinin, aðeins mismunandi orðuð.
Uppistaðan í skrifum Þorsteins er gagnrýni á ríkisstjórnina sem stöðugt er sögð vera að láta undan óbilgjörnum kröfum öfgafullra vinstri manna og er ég iðulega nafngreindur í því samhengi og sagður sérlega varhugaverður maður.
Í þeim örfáu tilvikum sem Þorsteinn Pálsson hefur séð ljósan blett á málflutningi mínum hlýtur það að hans mati að vera vegna þess að ég hafi rambað á rétta niðurstöðu, ekki vegna skynsemisröksemda heldur vegna þess að pólitískir fordómar hafi óvart leitt mig blindandi þangað. Þetta hefur vakið athylgi fleiri aðila en mín sbr., vefritið Eyjuna: http://eyjan.is/2011/07/23/thorsteinn-ogmundur-kemst-ad-rettri-akvordun-med-rangri-politiskri-tilvisun/
Tilefni skrifa Þorsteins að þessu sinni er einkaframkvæmd, nokkuð sem ég hef lagt mig sérstaklega eftir að rannsaka í hálfan annan áratug, eða allt frá því nýfrjálshyggjumenn  fóru að predika þessa lausn fyrir tæpum tveimur áratugum.  Fylgispekt við einkaframkvæmd var ekki bundin við hægri sinnaða stjórnmálaflokka. Þannig var Tony Blair, formaður breska Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Breta um árabil,  enginn eftirbátur þeirra Margrétar Thatchers og Johns Majors leiðtoga Íhaldsflokksins breska í þessu efni.  
Um þetta hef ég skrifað ótal greinar í blöð og tímarit auk umfjöllunar á þessari síðu.  Í skrifum mínum hef ég vísað í rannsóknarskýrslur sem gerðar hafa verið um reynsluna af einkaframkvæmd (PFI, Public Finance Initiative ). Hef ég í þessu sambandi varað við því að nálgast viðfangsefnið á grundvelli pólitískrar hugmyndafræði en þess í stað ætti að styðjast við reynsluvísindin; skoða staðreyndir gaumgæfilega og meta þær með hliðsjón af reynslunni.
Í nýlegum leiðara Ólafs Þ. Stephensen í Fréttablaðinu nýlega kvað við svipaðan tón og hjá Þorsteini Pálssyni nú. Í kjölfar þessara leiðaraskrifa skrifaði ég örgrein í blaðið til að skýra mín sjónarmið. Fyrir þá sem vilja setja sig inn í þessi skoðanaskipti  birti ég hér að neðan slóðir á þessa Fréttablaðsgrein  mína og síðan slóðir á greinar  Þorsteins Pálssonar.  Læt ég einnig fylgja með slóð á eldri grein um einkaframkvæmd héðan af síðunni  en af miklu efni er að taka.
Annars ætti  Þorsteinn Pálsson að  íhuga hvort það gæti verið að það eigi við um hann sem sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson orðaði svo vísdómslega fyrr á tíð: Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann...
Getur verið að þeir sem vara mest við pólitískri þröngsýni séu þeir sem helst eru þjakaðir af henni sjálfir.
https://www.ogmundur.is/is/greinar/i-umbodi-hvers
http://eyjan.is/2011/07/23/thorsteinn-ogmundur-kemst-ad-rettri-akvordun-med-rangri-politiskri-tilvisun/

Ein af mörgum greinum (ef slegið er upp einkaframkvæmd á leitarvef heimasíðunnar koma upp margar tugir færslna): https://www.ogmundur.is/is/greinar/ny-skyrsla-um-einkaframkvaemd-i-bretlandi-vaxandi-efasemdir