Fara í efni

ÞAÐ SEM TEKJUSKATTS-SKRÁRNAR SEGJA OG SEGJA EKKI

Ég fagna því að tekjuskattsskráin skuli vera birt opinberlega. Hún gefur innsýn í tekjuskiptinguna þrátt fyrir alla fyrirvara sem gera þarf. Furðu margir þykir mér vera með vel rúma milljón á mánuði og eiga því helmingi auðveldari lífsbaráttu en þeir sem eru með þriðjunginn af því. Svo eru hinir sem eru með fleiri milljónir á mánuði. Skyldu þeir skilja hlutskipti hinna tekjulágu?
Skondið er að sjá talsmenn samtaka launafólks með hálfa aðra milljón á mánuði, sama fólkið og hefur að undanförnu bísnast yfir þeim sem nálgast þá í tekjum og segja að hækkanir til þeirra hafi sett kjarasamninga úr jafnvægi! Vottar ekki fyrir sjálfsgagnrýni hjá þessu fólki?
Síðan er athyglisvert að sjá fólk eins og þingmenn og jafnvel ráðherra nánast tekjulausa. Þarna er augljóst skattaundanskot. Hvað gerir skattstjóri, þarf ekki að spyrja hann?
Síðan má ekki gleyma því að þetta eru launatekju-skattar ekki fjármagnstekju-skattar Þannig að sumir sem eru í núlli eru fyrst og fremst með tekjur af fjármagni og greiða því fjármagnstekjuskatt sem ekki sést í þessari skrá. Fjármagnstekjuskrána þyrfti því að birta líka.
Allt þetta ættu fjölmiðlarnir sem birta skrárnar að tíunda. Kannski eiga þeir eftir að gera það.
Jóhannes Gr. Jónsson