Það var kosið um heilbrigðismál
Birtist í Mbl. 19.05.2003
Ríkisstjórnarflokkarnir koma laskaðir út úr nýafstöðnum alþingiskosningum. Reyndar ekki eins illa og margir höfðu spáð, en báðir stjórnarflokkarnir tapa þó fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn tapar meiru en Framsókn og hafa menn velt því fyrir sér hvers vegna það hafi gerst. Flestum óhlutdrægum mönnum ber saman um að gegndarlaus fjáraustur stuðningsaðila Framsóknarflokksins hafi gert honum kleift að skapa þá ímynd með auglýsingum að hann myndaði sérstaka baráttusveit fyrir aldraða og öryrkja, að hann væri líklegur til að ráða bót á aldeilis afleitu húsnæðiskerfi og hann væri einn til þess fallinn að standa vörð um stöðugleika. Með öðrum orðum, Framsóknarflokkurinn - sem hefur verið öllum flokkum ábyrgðarlausari í atvinnu- og efnahagsmálum, gengið gegn Öryrkjadómi og hefur sjálfur farið með stjórn húsnæðismála í tvö kjörtímabil samfleytt – hann dró upp mynd af sjálfum sér sem einörðum stjórnarandstöðuflokki sem menn yrðu að koma til áhrifa svo færa mætti samfélagsþróunina inn á skynsamlegri brautir.
Þjóðin vill ekki einkavæða heilsu
Sjálfstæðisflokkurinn má þó eiga það að hann kannaðist við sjálfan sig. Það varð honum hins vegar að falli. Ég er sannfærður um að stefna Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðismálum stórskemmdi fyrir flokknum. Áherslur á markaðsvæðingu hafa ekki hljómgrunn með þjóðinni, um það bera reyndar margar skoðanakannanir órækt vitni. Þegar þeir síðan í ofanálag birtust á framboðslistunum, harðdrægu ungu hægrisinnarnir sem rutt höfðu hófsamari kandídötum úr vegi, og horfi ég þar til dæmis til sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, þá varð kjósendum ekki um sel.
Þeir hinna hófsamari sjálfstæðismanna, sem á annað borð vildu halda lífi í ríkisstjórninni, fóru nú frá Sjálfstæðisflokki og yfir á Framsókn. Þetta fólk trúir því, réttilega þykir mér, að Framsóknarflokkurinn vilji engan veginn ganga eins langt og Sjálfstæðisflokkur í markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins. Mín kennning er sú að þess vegna hafi fólk sem stendur hægra megin við miðju kosið Framsókn frekar en íhald.
Sigur almannaþjónustu
Þetta var sigur Framsóknar kynni einhver að segja. Ég held að við eigum að túlka þetta á annan veg: Þetta var sigur fyrir almenningsrekna heilbrigðisþjónustu. Fólk hafnar einkarekstri í sjúkrahúsum landsins með tilheyrandi álögum á sjúklinga og skattgreiðendur sem þurfa að greiða arðinn ofan í vasa fjárfesta. Talsmenn einkarekinnar heilbrigðisþjónustu vita að þar er að finna örugga tekjulind, þeir vita að við þurfum á heilbrigðisþjónustu að halda um ókominn tíma, þeir vita að þar er um mikla peninga að tefla og þá vilja þeir fá í sinn vasa. Minna má á ummæli eins aðaleiganda Öldungs hf í þessu sambandi. Hann hefur ekki farið leynt með það að hægt sé að þéna vel á öldruðum – í öldrunarþjónustunni sé "gífurlegan fjárhagsávinning" að hafa. Framsókn við sama heygarðshornið
Það er athyglisvert og lærdómsríkt fyrir félagslega þenkjandi kjósendur Framsóknarflokksins að hugleiða að svo virðist sem forystumenn flokksins hafi ekki áhuga á stjórnarsamstarfi vinstra megin við miðju. Svo virðist sem hugurinn hafi aldrei hvarflað frá Sjálfstæðisflokknum. Eða er hugurinn ef til vill orðinn samgróinn við ráðherrastólana? Að sögn mun framsóknarráðherrum þykja stólar sínir sérlega góðir.