ÞAÐ VAR ÞÁ
Fyrir réttum tuttugu árum, 20. mars árið 2003 réðust Bandaríkin, Bretland, Pólland og Ástralía með beimum og óbeinum stuðningi nær fimmtíu “viljugra ríkja” inn í írak. Þeirra á meðal var Ísland.
Írakar voru þá í sárum eftir viðskiptaþvinganir sem hinn “frjálsi heimur” hafði beitt þá í rúman áratug með þeim afleiðingum að mörg hundruð þúsund manns höfðu veslast upp og dáið. Þeir sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna sem létu ekki segja sér fyrir verkum töluðu um fimm hundruð þúsund börn. Já, en við urðum að verja hagsmuni okkar, sagði utanríkisráðherra BNA í sjónvarpsviðtali þegar hún var spurð út í þessi fjöldmorð á íröskum börnum.
Allan tíunda áratuginn - áratug viðskiptaþvingananna - hafði gengið á með loftárásum Bandaríkjahers á Írak. Allt þótti til vinnandi að losna við Saddam Hussein og Baath flokkinn sem ríkt hafði í Írak (með hléum) frá 1963 þegar hann tryggði sér fyrst völdin með ofbeldi – og viti menn með stuðningi Bandaríkjanna. Nú var það spunnið upp að þessi fyrrum bandamaður hefði komið sér upp gereyðingarvopnum og mikið lægi við að fresla heiminn frá þeim. Allt lygi. Og að sjálfsögðu aldrei minnst einu orði á olíuhagsmuni.
Bandarískur her dró sig frá Írak 2011 þótt enn séu þar nokkur þúsund hermenn auk tugþúsunda “ráðgjafa” og “verktaka”. Annað veifið berast fréttir af fjöldamótmælum gegn viðveru Bandaríkjamanna í Írak og írösk stjórnvöld hafa einnig krafist þessa án þess að á þau sé hlustað. Útslagið varðandi kröfur um brottför þeirra gerði þegar Bandaríkjastjórn krafðist þess að íraska þingið samþykkti að ólöglegt yrði að sakfella bandaríska hermenn fyrir stríðsglæpi í Írak. Þetta var ekki tekið í mál eða héldu menn virkiega að ofbeldið af hálfu innrásarliðsins gleymdist á einni nóttu?
Myndin er úr Abu Graib pyntingarbúðum Bandaríkjamanna í Írak.
Nokkrum sinnum hefur komið til tals að ákæra Bandaríkjamenn fyrir stríðsglæpadómstólnum í Haag. Upphaflega var þetta reynt, í júlí 2003. Þá var haft eftir saksóknara við dómstólinn að þetta gæti ekki orðið því hvorki BNA né Írak viðurkenndu þennan dómstól. Málið var síðan tekið upp að nýju og var því þá mætt með hótunum í Washington frá hendi sömu aðila og vilja loka Julian Assange stofnanda Wikileaks inni í 175 ár fyrir að upplýsa um stríðsglæpi innrásarliðsins.
Þetta kemur upp í hugann nú þegar sami dómstóll gefur út handtökuskipun á Pútin Rússlandsforseta vegna barnsrána. Þegar frá þessu var greint sagði Biden Bandaríkjaforseti að þótt BNA viðurkenndi ekki þennan dómstól væri þetta engu að síður “góður leikur”.
Auðvitað á að rannsaka öll meint níðingsverk og láta alla þá sem níðingsverk sannast á svara fyrir dómi en einhverjar kröfur hljótum við að gera um lágmarksheiðarleika og að einhver viðleitni sé til þess að vera sjálfum sér samkvæmur. Við hljótum í það minnsta að reisa þá kröfu á hendur okkar eigin stjórnvalda.
Í janúar 2003 lagði ég ásamt þingflokki VG fram þingsályktunartillöguna sem sjá má á myndinni og talaði síðan fyrir henni í febrúar.
Hér má lesa sjálfa tillöguna og rökstuðninginn með henni: https://www.althingi.is/altext/128/s/0807.html
Þarna er hvatt til að Íslendingar beiti sér gegn hernaðarofbeldi í Írak. Tillögunni var að lokinni umræðu ( https://www.althingi.is/altext/128/02/r13171735.sgml ) í þinginu vísað til utanríkismálanefndar sem á fundi sínum í mars ákvað að afgreiða hana ekki út úr nefndinni þannig að Alþingi fékk aldrei tækifæri til að greiða um hana atkvæði.
Því var ekki vel tekið af hálfu þingmanna VG og tók Steingrímur J. Sigfússon málið upp í þingsal undir liðnum athugasemdir um störf þingsins: https://www.althingi.is/altext/128/03/l12103114.sgml
Nú má spyrja hvort þessir atburðir hafi haft áhrif.
Tvímælalaust. Umræða á þingi og í fjölmiðlum og öflugir fjöldafundir vöktu fólk til vitundar um þann hráskinnaleik sem fram fór frammi fyrir heiminum. Heilsíðuauglýsing í bandarískum stórblöðum sem nokkrir Íslendingar stóðu að þar sem beðist var afsökunar á framferði íslenskra stjórnvalda og skilið á milli þeirra og þjóðarinnar, var áhrifarík. Þessi mál áttu síðan eftir að vinda upp á sig í alþjóðlegri umræðu þegar ósannindi stríðsmangaranna í Washington og London voru afhjúpuð. Í hönd fór tími þar sem erfitt reyndist fyrir öflugastu herveldi heimsins að ljúga að mannkyninu þótt ekki varði það lengi.
Svo má ekki gleyma því hér heima að árið 2003 var á Alþingi Íslendinga heill stjórnmálaflokkur sem gerði allt hvað hann gat til að afhjúpa lygarnar.
En það var þá.
Sjá umfjöllun: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-03-20-lygar-um-astaedur-iraksstrids-hofdu-ahrif-a-truverdugleika-bandarikjanna