Fara í efni

ÞAÐ VERÐUR KOSIÐ UM VATNIÐ

Menn hafa spurt hvort það hafi eitthvað upp á sig fyrir stjórnarandstöðuna á Alþingi að halda þar uppi löngum og ströngum málflutningi eins og raunin hefur verið með vatnalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar að undanförnu. Árangurinn er þessi: Vatnalög ríkisstjórnarinnar komast aldrei til framkvæmda ef þjóðin skiptir um stjórnarmeirihluta í næstu kosningum! Stjórnarandstöðunni á Alþingi hefur tekist að knýja ríkisstjórnina til að fallast á að gildistími stjórnarfrumvarps um vatnalög verði ekki fyrr en haustið 2007, að afloknum næstu alþingiskosningum. Þar með er það komið undir kjósendum í næstu alþingiskosningum hvort lögin koma nokkru sinni til framkvæmda. Ljóst er að kæmist núverandi stjórnarandstaða í meirihluta og myndaði ríkisstjórn yrði það fyrsta verk hennar að  nema lögin úr gildi og koma þannig  í veg fyrir að þau yrðu nokkru sinni að veruleika.

Umræðan um vatnalagafrumvarpið hefur verið fróðleg um margt. Sérstaklega hefur verið athyglisvert að fylgjast með því hvernig verktakar ríkisstjórnarinnar úr stétt lögfræðinga hafa gegnt lykilhlutverki í fjölmiðlum. Höfundar frumvarpsins og ýmsar "hægri hendur" ráðherra hafa verið kynntar til leiks sem lögfræðingar og sérfræðingar til þess að staðhæfa að ríkisstjórnin hafi rétt fyrir sér! Þetta hefur verið tekið gott og gilt.

Þá þykja það vera rök í málinu af hálfu forsætisráðherrans að lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sé til þess fallið að aðlaga lög að hæstaréttardómum á liðnum áratugum. Ekki hefur ráðherra getað tilgreint slíka dóma. En jafnvel þótt svo væri, þá eru þetta haldlítil rök. Löggjafarvaldið er nefnilega hjá Alþingi. Þar á stefnumörkun og lagasmíð að fara fram. Það er hins vegar dómstóla að túlka lögin. Bæði hér á landi og í grannlöndum okkar færist það hins vegar í vöxt að dómstólar taki sér pólitískt vald og sveigi þannig lögin með túlkunarvaldi sínu. Dómstólar gegna þannig sífellt stærra hlutverki í þróun löggjafar. Dómstólarnir verða ágengari og löggjafinn sífellt lítilþægari gagnvart dómsvaldinu hvað þetta snertir.

Hvað vatnalögin áhrærir er fráleitt að horfa um öxl og réttlæta lagabreytingar í ljósi þess sem liðið er. Auðvitað átti ríkisstjórnin að svara kalli tímans, losa um einkaeignarréttarákvæðin í gömlu lögunum og tryggja vatn sem mannréttindi og almannarétt. Þessu var hafnað og þess í stað meira að segja hert á einkaeignarréttarákvæðunum. Rök ríkisstjórnarinnar voru á þá lund að lagafrumvarp hennar væri ekki verra en núverandi löggjöf sem sett var árið 1923!

En er það ekki hlutverk okkar að bæta það sem fyrir er? Okkur mun gefast kostur á því. En til þess þurfum við að fella stjórnarmeirihlutann í næstu alþingiskosningum. Þá verður afleitt vatnalagafrumvarp ríkisstjórnarinnar aldrei að lögum. Það verður kosið um vatnið í næstu alþingiskosningum.