Fara í efni

ÞAGNARSKYLDA EÐA YFIRHYLMING?

Birtist í Morgunlaðinu 05.02.2005
Sólveig Pétursdóttir
formaður utanríkismálanefndar Alþingis segir mikið liggja við að ekki sé upplýst hvað fram fór á fundi nefndarinnar 19. febrúar 2003. Stjórnarandstaðan segir að aflétta beri leynd af þessum fundi til að fá upplýst hvort þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafi upplýst nefndina um þær forsendur sem ríkisstjórnin byggði á ákvörðun sína um stuðning við innrás Bandaríkjamanna í Írak. Halldór Ásgrímsson hefur vísað í þennan fund, mánuði áður en innrásin var gerð, varðandi samráð við þingið svo og Eiríkur Tómasson prófessor, sem segir að enda þótt það sé matsatriði hvort utanríkisráðherra hafi borið lagaleg skylda til þessa samráðs þá verði ekki í móti mælt að ráðherra hafi rætt við utanríkismálanefnd um stöðu málsins á þessum fundi. Stjórnarandstaðan vill að þjóðin fái að sjá hvaða skýringar utanríkisráðherrann bar þá á borð fyrir utanríkismálanefnd Alþingis til að réttlæta að Íslendingar léðu stuðning við innrásina í Írak án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Nú hefur komið fram að á umræddum fundi tóku aðeins þrír aðilar til máls, utanríkisráðherrann Halldór Ásgrímsson, Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs  og Rannveig Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingar. Öll hafa þau lýst því yfir að þau væru reiðubúin að láta upplýsa hvað þau sögðu á fundinum, einnig Halldór Ásgrímsson. Var honum ef til vill ekki alvara þegar hann sagði á Alþingi að fyrir sitt leyti mætti birta ummæli sín? Treysti hann því að stjórnarmeirihlutinn í utanríkismálanefnd, undir forystu Sólveigar Pétursdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, myndi reyna að þröngva þagnarskyldu upp á nefndarmenn?  Til upplýsingar er hér birt 24. gr. þingskaparlaga þar sem fram kemur að lögum samkvæmt er þagnarskyldan undantekning en ekki almenn lagaskylda: "Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á."  Í ljósi framangreinds leyfi ég mér að spyrja hvort tilraunir stjórnarmeirihlutans til að halda upplýsingum um hvað fram fór á samráðsfundi utanríkisráðherra með utanríkismálanefnd Alþingis skömmu fyrir innrásina í Írak, flokkist undir eðlilega og málefnalega kröfu til að virða trúnað eða hvort um er að ræða tilraun til pólitískrar yfirhylmingar?