Fara í efni

ÞAKKIR TIL RÍKISÚTVARPSINS FYRIR PÁL, JAKOB OG ÆVAR

Múrinn
Múrinn


Um nýafstaðanar hátíðar var fluttur nokkuð nýstárlegur leikþátur í útvarpinu sem ástæða er til að vekja athygli á.

Heiti leikþáttarins er Postulafundur í Jerúsalem. Fjallað er um ímyndað samtal postulanna Páls og Jakobs í fundarhléi á fundi postulanna í Jerúsalem sem átti að öllum líkindum sér stað þar árið 49.

Í samtalinu kynna þeir hugmyndir sem áttu eftir að birtast í frægu bréfi Páls til Rómverja og bréfi Jakobs sem bæði er að finna í Nýja testamentinu. Þessar hugmyndir hafa sett svip á guðfræði kristinna manna fram á þennan dag. Í því liggur söguleg þýðing þeirra.

Höfundur þessa leikþáttar er Ævar Kjartansson og kynnumst við þarna á honum nýrri mjög svo áhugaverðri hlið, fræðimanns/heimspekings og rithöfundar.

Óþarft er að minna á að Ævar hefur verið einn ástsæalasti útvarpsmaður þjóðarinnar um langt árabil, oftar en ekki að rekja garnirnar úr öðrum en vissulega einnig með eigin þanka og vangaveltur.

Þegar ég hlustaði á leikþáttinn um fund postulanna í Jerúsalem hugsaði ég með mér að nær væri að hafa Ævar í hlutverki þess sem spurður er eða sem höfund efnis á borð við þetta útvarpsleikrit fremur en í hlutverki spyrjandans. Reyndar er ég vel meðvitaður um að stundum er það ekki vandaminna hlutverk að spyrja en svara!

Ævar Kjartansson hefur um dagana borið víða niður í þáttum sínum en ofarlega er honum greinilega í sinni allt sem snýr að sýn okkar á heiminn og samfélagið, fjölmiðlun, trúarbrögð, sögu og heimspeki og þá einnig sögu heimspekinnar.

Ég leyfi mér að mæla með framangreindum leikþætti við öll þau sem áhuga hafa á sögulegum þráðum í heimspeki og trúarbrögðum og þótt viðfangsefnið sé Jesús frá Nasaret og hvern skilning skuli leggja í boðskap hans, þá er efnið áhugavert óháð því hverju áheyrandinn trúir.

Arnar Jónsson og Sigurður Skúlason, sem fara með hlutverk Páls og Jakobs, minna okkur á að góðir leikarar eiga sitt hvað sameiginlegt með góðum vínum og þá ekki síst það hve aldurinn fer vel með þá.

Hér er slóð á leikþáttinn: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/postulafundurinn-i-jerusalem/20171226