ÞAKKIR TIL ÞEIRRA SEM NÆRA JARÐVEGINN
Víkingur Heiðar Ólafsson sagði einhvern tímann frá því í sjónvarpsspjalli um tónlist hve mikla æfingu það gæti kostað að ná fram agnarsmáu blæbrigði við flutning á tónverki, svo smáu og einföldu að það væri jafnvel kunnáttumanni illgreinanlegt. Þegar listamanninum hefði hins vegar tekist að ná þessu blæbrigði á sitt vald merktu það allir. Ekki bara þeir sem væru vel að sér í tónlist og heyrðu og skildu, nei, líka þeir sem lítið þekktu til tónfræða – kynnu sáralitið ef þá nokkuð á þær nótur sem verið væri að glíma við.
Þar fannst mér talað til mín sem er enginn músíkant. Þó veit ég að þegar ég hlusta á Víking Heiðar leika á píanó er ég að hlusta á afburðalistamann. Svona er listin. Við vitum þegar hún umlykur okkur. Við þekkjum öll alvörulist þegar til kastanna kemur. Eða eigum við að segja að á endanum komum við auga á hana því að stundum þarf hún að fá að gerjast, sé hún á undan sinni samtíð sem kallað er, og þá er það samtíðin sem þarf að fá að gerjast.
Á aðventunni var kvaddur einn helsti listamaður þjóðarinnar, Jón Nordal tónskáld. Það var unun að lesa minningargreinarnar um hann, allar á einn veg um list hans og mannkosti. Ég hefði fylgt honum hefði ég átt þess kost en geri það með þessum orðum sem þó eru engin prívat orð. Ég þekkti nefnilega Jón Nordal ekki neitt. Hitti hann fyrir tveimur árum eina örskotsstund í útgáfuhófi bróður hans, Jóhannesar Nordal, þegar hann kynnti ævisögu sína skömmu fyrir andlát sitt, kominn undir tírætt líkt og bróðirinn nú.
Með því að fylgja listamanninum Jóni Nordal vildi ég einfaldlega þakka fyrir mig – og fyrir okkur öll, held ég að mér sé óhætt að segja, fyrir þá gleði sem hann hafi veitt öllu fólki. Stór fullyrðing það. En ég tel víst að hún sé rétt. Á sama hátt og Víkingur Heiðar treystir sér til að fullyrða að allir skynji þegar vel er gert, þá má heita víst að öll höfum við getað notið þess þegar þeir tveir lögðu saman, tónskáldið Jón Nordal og ritsnillingurinn Jónas Hallgrímsson, og við hlýddum á Hulduljóð Jónasar við lag Jóns Nordal. Ljóðlínurnar þekkjum við og lagið syngur í eyrum okkar:
Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley! Við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Bróðurdóttir Jóns Nordal, Guðrún, segir í minningarorðum um frænda sinn hann hafa verið «fundvísan á gersemar». Það hafi hann verið frá unga aldri. Lagið við Hulduljóð Jónasar hafi hann samið aðeins 14 ára. En hitt er svo líka rétt að gersemar leitaði hann uppi frá öllum tímum, líka í sinni samtíð. Hver þekkir ekki lagið við ljóð Halldórs Laxness:
Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,
hvert andartak er tafðir þú hjá mér
...
Við heyrum þetta öll, lagið og ljóðið, hvílík snilld. Við skynjum snilldina í einfaldleika orðanna og tónanna. Og það er einmitt hið hreina og einfalda sem hrífur. En einfalt er það þó ekki að geta skapað slíkt.
Halldór Laxness komst svo að orði í Barni náttúrunnar, sem hann samdi ungur að árum, aðeins sextán ára gamall, að eljusemi og ósérhlífni fátæks bónda hefði ekki orðið honum sjálfum einum til góðs heldur hafi aðrir einnig notið góðs af, bóndinn hafi orðið öllum í kringum sig lyftistöng, hann hafi orðið «hinn gróðurríki frjóangi í jarðvegi þjóðfélagsins».
Þetta er það sem Halldór var sjálfur, svo og Jón Nordal, Víkingur Heiðar og margir aðrir sem lyfta anda okkar, næra jarðveginn og gera okkur vonandi öll um síðir að frjóöngum í jarðvegi þjóðfélagsins.
Fyrir það ber að þakka.
--------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.