Fara í efni

ÞANKAR Á MILLI JÓLA OG NÝÁRS

Fyrst játning til félaga minna í þjóðkirkjunni með smá formála þó.
Formálinn er þessi: Konan mín var svo heppin að fá gefins bókina um Óðinn til lífsins. Ég ber ábyrgð á því. Þessi bók fjallar um speki indíána um almættið. Þar segir á meðal annars:
 
Jörðin er ættmóðir þín og móðir og hún er heilög.
Sérhvert skref sem þú stígur hér á jörð
ættirðu að stíga í lotningu.
(Frá Sioux indíánum.)

Jörðin er móðir alls sem lifir,
um láð, loft og lög.
Við erum öll sömu ættar.
Hvað sem við gerum,
hvað sem hendir eitt okkar,
snertir okkur öll.
(Frá Sioux indíanum.)

Við erum hluti af jörðinni og hún er hluti af okkur.
(Frá Suquamish/Duwamish indíanum.)

Ég hef farið að endimörkum jarðarinnar.
Ég hef farið að endimörkum vatnanna.
Ég hef farið að endimörkum himinsins.
Ég hef farið að endimörkum fjallanna.
Ég hef engan fundið sem ekki er vinur minn.
(Speki Navajo-indíána.)

Vefur lífsins er ekki mannanna verk.
Við erum aðeins þræðir í þeim vef.
Það sem við gerum vefnum
gerum við okkur sjálfum.
Allt er samofið. Allt tengist.
(Frá Suquamish/Duwamish indíánum.)

Segið frá því hve heitt við unnum allri fegurðinni.

Allt sem lífsanda dregur á sér þá þrá
að eiga sér tilgang og gildi.
Til að fullnægjaþessari þrá
verðum við að virða hvert annað.
(Frá Coast Salish indíánum.)

Þeim sem hafa þetta í beinum sínum og merg þarf ekki að kenna neitt um umhverfisvernd.

Og nú kemur játningin: Einhvern veginn finnst mér þetta hljóma betur, alla vega vera einfaldara, en hjá okkur sem er uppálagt að fylga Honum.

Víkur þá sögunni að Bjarna

Bjarni Benediktsson braut reglur sem hann sjálfur setti. Fyrir það hlýtur hann harða gagnrýni og sú gagnrýni hlýtur að teljast réttmæt.

En svo vindur málið upp á sig. Ráðherra í ríkisstjórn neitar að tjá sig því málið sé hjá lögreglunni. En á þetta mál heima hjá lögreglunni, er þetta ekki fyrst og fremst siðferðisbrot sem á heima hjá þjóðinni milliliðalaust; mál sem við tökum afstöðu til án aðkomu lögreglu og dómstóla? Varla viljum við verða lögregluríki. Ekki svo að skilja að heykvíslin bjóði upp a mildari örlög en Hæstiréttur. Og þar hefur Bjarna verið haldið yfir hátíðarnar, sem skotspóni og skemmtiefni. Ekkert er eins vinsælt og opinber niðurlæging.

En málinu er ekki lokið. Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna álykta og foringjar og flokkar heimta afsögn og helst stjórnarslit vegna þessa máls.  

Sjálfur hefði ég haft skilning á kröfu um stjórnarslit og kosningar út af ýmsum málum, t.d. vegna orkupakkans, vegna hlutdeildar okkar í illvirkjum NATÓ, vegna fjármálabrasks og undanskota, vegna hernaðaruppbyggingar í Keflavík, fyrir að þora ekki að standa á rétti okkar til matvælaöryggis, fyrir að bregðast íselnskum landbúnaði og fyrir að búa í haginn fyrir einkavæðingu, fyrir að heimila sölu á landi út fyrir landsteinana, fyrir áframhaldandi kvótavæðingu, fyrir að aðstoða bandarísk yfirvöld í ofsóknum á hendur Wikileaks, fyrir að kæra upplýsingagjöf í Samherjamáli til  lögreglu – en varla fyrir yfirsjón Bjarna í Ásmundarsal.

Auðvitað á að skamma Bjarna. Og auðvitað var það rétt hjá lögreglunni að segja til hans, mannsins sem setti reglurnar sem hann sjálfur síðan braut. En varla á Bjarni Benediktsson heima á heykvíslinni út lífið.

Sennilega þó enn um sinn því þarna eru íslensk stjórnmál stödd: Að stíga inn í partí umfram leyfileg mörk án grímu þýði stjórnarslit. Kvótavæðing auðlindanna og hervæðing Íslands er minna mál.
Eða hvað?