Fara í efni

ÞANKAR AÐ LOKNUM JÓLUM OG ÁRAMÓTUM

Í ÞreA þrettándanum sem er í dag, lýkur jólum og héðan af verður tilfinningin ríkari með hverjum deginum sem líður að sól fari hækkandi á lofti og daginn að lengja.
Birtutíminn hefur að sönnu verið að lengjast frá vetrarsólstöðum, 21. des­em­ber, en þann dag var sólin fjærst frá norður­póli jarðar á árinu, og fyr­ir vikið var þá stysti dag­ur árs­ins.
Það fer vel á því að lýsa heimilin og byggðirnar upp í myrkrinu um jólin og sjálfur játa ég að brennur, blys og flugeldar áramótanna gleðja hjarta mitt sem aldrei hefur hætt að vera unglingshjarta að þessu leyti.
Þessi tími með samspili niðamyrkurs og skæra ljóssins hefur alltaf farið vel í mig. Sumir verða þreyttir og jafnvel daprir í skammdeginu. Ekki er það mín reynsla. Ég neita því þó ekki að Jónsmessan krefst minni svefns en svartasta skammdegið og gerir okkur almennt létt í lund.  
Reyndar höfða allir árstímar til mín, eru heillandi á sinn ólíka hátt.

Ógnvekjandi fréttir frá Bandaríkjunum – dapurlegt hlutskipti Íslands

Frá Washington berast nú fréttir af innrás í Bandaríkjaþing. Ógnvekjandi atburðarás gæti verið hafin sem ekki sér fyrir endann á. Í fjölmiðlum heimsins er réttilega talað um aðför að lýðræðinu en flestir sleppa samanburði við þau örlög sem bandarísk stjórnvöld hafa búið öðrum þjóðum með árásum á þeirra lýðræði. Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna - sem varla getur talist með fullum mjalla, alla vega stórbrenglaða siðferðiskennd, ef hún yfirleitt er til staðar - neitar að viðurkenna ósigur í kosningum. Til varnar fyrir forseta- og þingræðið er maður tausti rúinn hjá alemenningi fyrir að vera beintengdur vopnaiðnaði og auk þess sjálfur þekktur stríðshaukur. Það er almennt mat að nýafstaðnar forsetakosningar í BNA hafi snúist um Trump – með honum eða móti honum.
Dapurleg staða fyrir öflugasta herveldi samtímas.
Dapurleg staða fyrir heiminn að hafa þessi öfl yfir sér.
Dapurlegt fyrir Ísland að lúta forræði þeirra í hernaðarbandalaginu NATÓ.

Kveðjum vopnin

En hingað heim. Í nokkra áratugi, alltaf þegar tilefni hefur orðið, hef ég mótmælt vopnaburði íslensku  lögreglunnar og ætla ekki að láta af þeirri venju. Það var að mínu mati ekki aðeins óskiljanlegt heldur líka óforsvaranlegt að láta vopnaða sérsveit lögreglgunnar taka á móti fyrstu bóluefna sendingunni til landsins ásamt fultrúum ríkisstjórnar og heilbrigðiskerfis. Á mörkunum var öll upphafningin og blóma afhendingar ráðamanna hver til annars á þessum “sögufræga degi.”
Í ljósi þess hve allt er óljóst í þessum efnum væri heppilegra að láta hástemmdar fullyrðingar og siguróp bíða betri tíma. Þarna vorum við komin að einhverjum mörkum – reyndar var stigið vel yfir línuna þennan dag.

Tekið ofan fyrir Kristni Hrafnssyni

Gleðilegustu tíðindin yfir hátíðarnar þótti mér þegar undirréttur í London úrskurðaði að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, skuli ekki framseldur frá Bretlandi til Bandaríkjanna þar sem hans bíða kærur vegna njósna. Yrði hann dæmdur sekur, sem án efa yrði gert fyrir bandarískum dómstól, myndi það leiða til fangelsisvistar ævilangt. Þessi meinti “njósnari” er þó varla sekari en flestir helsu fjölmiðlar heims sem dreifðu “njósnagögnunum” til lesenda sinna og áhorfenda. Gögnin sýndu fram á stríðsglæpi Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í Írak og Afghanistan. Það var þó ekki á grundvelli þessa sem breski undirrétturinn vildi ekki láta framselja Assange heldur vegna heilsu hans. Þótt niðurstaðn væri rétt og gleðileg voru efnisatriði úrskurðarins það ekki.
Sá sem nú stýrir Wikileaks er íslenski baðamaðurinn Kristinn Hrafnsson. Ég hef fylgst með framgöngu hans og tek nú ofan fyrir honum því barátta hans á ekki lítinn þátt í þessari niðurstöðu.
Í dag á þrettándanum neitaði dómarinn hins vegar að láta Julian Asange lausan gegn tryggingu. Þar með minnti breski dómarinn okkur á að Old Bailey rétturinn í London er ekki laus undan hæl heimsvelda sem verja handlangara sína með stríðsglæpi á samviskunni.
En ég hvet alla til að fylgjast vel með framvindu málsins.