Fara í efni

ÞANNIG MUN ATVINNULÍFIÐ RÍSA

Þríliðuhagfræði er léleg hagfræði. Hún er svona: Ef K er konstant og y hækkar þá lækkar x. Þessi lýsing á samfélagi er svo einföld að maður hefði ekki trúað því að óreyndu að alvöru hagfræðingar leyfðu sér slíkt tal. En því miður hefur Íslandi (og reyndar heiminum) verið stjórnað út frá slíkum vísindum. Seðlabankar hafa talið að hægt væri að stjórna efnahagslífi með því að hreyfa til stýrivexti annan hvern mánuð og til þess fengnir færustu sérfræðingar. Hvernig hægt er að vera sérfræðingur í slíkri samfélagssýn er mér hulin ráðgáta. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er hópur slíkra sérfræðinga. Þeir telja að vextir á Íslandi verði að vera háir til að styrkja krónuna. Þeir koma ekki fyrir öðrum breytum í jöfnuna og því má atvinnulífið fara á hausinn og ríkisbúskapurinn einnig. 
Nú berast fréttir af gagnrýni á þessa einföldu þríliðu AGS. Samanber Morgunblaðið í dag 13. mars 2009 þar sem segir um gengislækkun krónunnar undanfarna daga:
"Lækkunin nú er því merki um að markaðurinn búist við því að margir þessara erlendu aðila selji krónur sínar þegar að því kemur, sem hefði haft áhrif til lækkunar krónu. Má gera ráð fyrir því að gengislækkun vegna áðurnefndrar vaxtagreiðslu sé nú yfirstaðin."
Sem sagt háir vextir lækka krónuna, þar sem krónubréfaeigendur mega flytja vextina úr landi. Þessu hafa reyndar margir varað við, en varnaðarorðin eru aðeins flóknari en svo að hægt sé að skilja þau með einnar gráðu jöfnu.
En vandinn er sem sagt þessi: Samkvæmt AGS skuldum við 2400 milljarða króna sem eru vaxtaberandi. Flestir eru sammála um að við eigum eignir á móti þessu en ekki sé ljóst hversu miklar. Á meðan greiðum við vexti af þessum skuldum. Ekki er ljóst hversu mikla þar sem ekki er lokið að semja um IceSave vaxtastigið.
Að hluta til eru skuldir innanlands, samanber krónubréfin uppá ca. 400 milljarða, en að hluta til eru skuldir erlendis, ss. IceSave og AGS lán. Vextir af eignum á móti eru hverfandi, þar sem þær eignir hafa frekar rýrnað en hitt, auk þess sem AGS lán er á 0% vöxtum.
Ef við gerum ráð fyrir að innlendu skuldirnar séu 1/3 og þær séu á 18% vöxtum, og restin sé á 5% vöxtum, þá eru vaxtagreiðslur þjóðarinnar 224 milljarðar á ári, eða rúmir 18 milljarðar á mánuði.
Með því að lækka vexti innanlands niður í 0%, spörum við 144 milljarða á ári eða 12 milljarða á mánuði. Með því að semja strax um erlendu IceSave lánin og afþakka AGS þá getum við komið vaxta greiðslum niður í 20-30 milljarða á ári. Með lækkun vaxta innanlands lækka að sama skapi vaxtatekjur ríkisbankanna, en atvinnulífið mun rísa einsog Fönix úr öskunni og bjarga okkur út úr atvinnuleysi, sem kostar okkur milljarðatugi á ári.

Af hverju er verið að ræða aðra hluti á meðan þetta er óuppgert?

mkv
Hreinn K