ÞANNIG VERÐA JÓLIN GLEÐILEG
Á Þorláksmessu fór ég út í búð að versla. Þar hitti ég gamlan samferðarmann og vin. Hann dvelst langdvölum erlendis en stingur niður fæti hér um jólin.
Hann spurði um pólitíkina á Íslandi. Ég sagði að hér væri lítil pólitík. Alltof lítil pólitík, því miður.
Hann sagði: Hér er þó ekki allt illt. Ég fór í bókabúð og sá að verið er að gefa út fimmtíu, sextíu nýjar bækur, gott ef ekki tuttugu eða þrjátíu ljóðabækur.
Ég horfði á viðmælanda minn þögull og hugleiddi orð hans.
Svo þakkaði ég honum fyrir. Ég væri kominn í jólaskap. Hugsaði bara jákvætt, þökk væri honum og öllum ljóðabókunum.
Fór svo heim og setti Víking Ólafsson á fóninn, opnaði jólapakkana og upp komu Þórarinn Eldjárn, Einar Már, Pétur Gunnarsson og …
Síðan hef ég verið í góðu jólaskapi.
Gleðileg jól og og ánægjuleg áramót.