Fara í efni

Þarf ekki að kynna samninganefnd sveitarfélaganna fyrir Gunnari Birgissyni?

Í Kastljósi í kvöld kvaðst Gunnar Birgisson, alþingismaður og formaður menntamálanefndar Alþingis, vera meðmæltur því að kennarar hefðu mjög góð laun og hann hefði ekki hitt nokkurn mann sem væri annarrar skoðunar en að bæta þyrfti laun kennara. Ég vona að ég sé ekki að leggja Gunnari röng orð í munn en svona skildi ég inntakið í því sem hann sagði. Þá vaknaði sú spurning í mínum huga hvernig á því stæði að ekki væri samið í snarhasti. Er það ekki vegna þess að samninganefndin sem situr andspænis kennurum er annarrar skoðunar? Ég hefði haldið það. Getur verið að Gunnar, sjálfur bæjarstjórnarformaðurinn í Kópavogi hafi aldrei hitt samninganefnd sveitarfélaganna og þekki ekki viðhorf þeirra? Ef svo er þarf hið bráðasta að koma á fundi með nefndinni og þessum ágæta sveitarstjórnarmanni sem jafnframt er formaður menntamálanefndar Alþingis sem áður segir.
Kennari