Þegar kostnaðarvitundin brennur á eigin skinni
Verslunarráð Íslands hefur verið að tjá sig að undanförnu um mikilvægi þess að örva kostnaðarvitund í heilbrigðiskerfinu. Með þessu móti sé hægt að hafa áhrif á eftirspurnina og liggur þá í hlutarins eðli að kostnaðarvitundinni þurfi að fylgja notendagjöld. Vitundinn þarf með öðrum orðum að ná niður í pyngju sjúkilngsins. Eða með orðalagi Verslunarráðs : "Notendagjöld hafa þann kost að auka kostnaðarvitund, hafa áhrif á eftirspurn eftir þjónustu…"
Til að fyrirbyggja allan misskilning ætlast Versunlarráðið alls ekki til þess að þetta verði til að " skerða möguleika þeirra sem minna mega sín til að nýta sér heilbrigðisþjónustuna." Það er nú það. Á móti hefur verið spurt hvort allir "megi sín ekki lítils " þegar þeir eru orðnir alvarlega veikir og hvort við viljum yfirleitt vera að leita í vösunum á veiku fólki. Í þessu samhengi langar mig til að vekja athygli á bréfi, frá grj, í lesendadálki síðunnar í dag. Þar segir m.a.: " Ég lenti í hópi þeirra sem slasaðist alvarlega og líklega hefur kostnaðarvitundin verið í lágmarki þann mánuð sem ég lá meðvitundarlaus og svo sem engin önnur vitund. Var svo heppinn að þetta var fyrri hluta árs og kvótinn ekki enn fyltur, enda hefði eflaust ekki verið skeytt um það. Það sem þessir hæfu læknar og yndislega hjúkrunarfólk gerði fyrir mig var nánast kraftaverk. Sama tók við á Grensásdeild, alúð, umhyggja og markviss þjálfun, það lögðu sig allir fram. Þetta fólk lagði sál sína í vinnuna og margar voru þær vaktir að starfsfólkið hafði vart tíma fyrir kaffibolla. En alltaf var sama ljúfa viðmótið og maður sem varð að byrja nánast á núllpunkti fékk aðstoð við að verða aftur að manni og verða fær á að takast aftur á við lífið.
Og nánast daglega varð maður vitni að kraftaverkum, stundum ekki stórum á almennan mælikvarða, en á svona stað er hvert skref hvað smátt sem það er risavaxið. Og einlæg gleði fólksins við hverja smá framför var ómetanleg. Ég man að maður nokkur sagði "Nú veit ég í hvað skattarnir mínir fara, og ég sé ekki eftir þeim." Ætli það sé ekki tilfellið. Það er hægt að gaspra um hlutina af algeru þekkingarleysi en þegar menn svo reyna þá á eigin skinni opnast sjónir þeirra. Vonandi að það verði ekki of seint."
sjá nánar: https://www.ogmundur.is/is/greinar/kostnadarvitund