Þegar litið er hundrað ár til baka...
Ræða Ögmundar Jónassonar á fundi trúnaðarmanna SFR og St.Rv. 29. apríl 2003
Góðir félagar í BSRB.
Það er mér mikið ánægjuefni að ávarpa þennan glæsilega fund trúnaðarmanna SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkur.
Þessi fundur ber vott um þann kraft sem er innra með þessum félögum. Þau hafa bæði unnið kappsamlega að því að efla trúnaðarmannakerfi sín – þessar lífæðar samtakanna. Og fyrir hönd annarra félaga ykkar í BSRB vil ég segja að reynslan sýnir að jafnan þegar þessum stóru félögum – þessum burðarásum í BSRB , SFR og Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar vex ásmegin – þá kemur það allri heildinni til góða; þá má treysta því að BSRB-hjartað slær taktfast og örugglega. Og sú er reyndin nú.
Ég fullyrði að sjaldan hafa okkar samtök verið eins sterk og traust og þau eru núna. Við höfum verið að styrkja samstöðu okkar inn á við og út á við höfum við ítekað teflt fram hugmyndum um að efla og bæta þá þjónustu sem félagsmenn okkar starfa við.
Við erum þekkt fyrir það hjá BSRB að sýna eindrægni og staðfestu þegar kemur að velferðarkerfinu – þegar því hefur verið ógnað þá hefur BSRB verið að mæta. Stöndum vörð um velferðarkerfið var slagorð sem hljómaði og endurómaði framan af síðasta áratug og gerir enn. En við skulum heldur ekki gleyma þeim tillögum um úrbætur og framfarir í réttindamálum almennings sem beinlínis má rekja til okkar.
Enginn mælir því í mót að eitt mesta framfaraskref sem hér hefur verið stigið á undangengnum árum er nýtt fyrirkomulag fæðingarorlofs. Færri vita að hugmyndin er frá BSRB runnin því það voru okkar samtök sem fleyttu hugmyndinni um fæðingarorlofssjóð áfram þar til hún komst í höfn. Löngu áður en til kastanna kom þóttumst við greina að draga myndi úr miðstýringu hjá hinu opinbera og að sjálfstæði einstakra stofnana myndi aukast. Þar með myndu sömu lögmál fara að segja til sín og í einkafyrirtækjum. Stofnanirnar myndu ekki geta lengur reitt sig á ríkissjóð eða sveitarsjóði til að greiða fólki laun í veikindum eða fæðingarorlofi. Við slíkar aðstæður væri hætt við því að þær myndu skirrast við að ráða konur á barneignaaldri til starfa. Okkur fannst ekki fýsilegur kostur að fara undir almannatryggingakerfið eins og í pottinn var þá búið, heldur vildum við að greitt yrði hlutfall launa inn í sérstaka sjóði þannig að tryggja mætti foreldrum sömu eða svipuð laun í fæðingarorlofi og þau hafa að staðaldri í vinnu. Hvers vegna vildum við þetta? Við vildum tryggja réttindi barnsins til samvista við foreldra sína, móður og föður á unga aldri. Til að stuðla að því vildum við sjá til þess að heimavistin myndi ekki leiða til tekjuskerðingar þeirra foreldra sem hyrfu af vinnumarkaði tímabundið vegna barna sinna. Þess vegna töluðum við fyrir nýju tryggingakerfi, sjóði sem karlar jafnt sem konur greiddu í.
Annað dæmi um framfaraspor á undanförnum árum sem rekja má til BSRB er á sviði lífeyrismála. Þar háðum við stranga varnarbaráttu um langt árabil en upp úr miðjum síðasta áratug náðum við að snúa vörn okkar í sókn og tryggja félögum okkar sigur. Það gerðum við með mikilli baráttu og góðri samstöðu. Á Alþingi 1996 kom fram frumvarp sem hefði svipt okkur þeim réttindum sem við búum við – eftirmannsregluna átti að afnema í einu vetfangi, en hún þjónaði sem eins konar launavísitölubinding lífeyrisþegans og keyra átti alla niður í skert réttindi. Við hrundum árásinni og bjuggum til nýtt kerfi sem er betra en nokkurt annað lífeyriskerfi sem íslenskir launamenn búa við.
Það má nefna mörg önnur dæmi um árangur sem við höfum haft í baráttu okkar og starfi, varðandi vinnutíma, veikindarétt, vinnuvernd og nú hyggjumst við einbeita kröftum okkar að réttindum trúnaðarmanna. Í þeirri baráttu skulum við hafa það hugfast að hvergi mun okkur miða áfram án samstöðu og án baráttu.
Í öllum þeim málaflokkum sem ég nefndi hér á undan – í öllum tilvikunum - kostaði það gríðarlegt átak, endalausa fundi, ályktanir, greinaskrif og hvatningu inná við og útávið áður en við höfðum árangur. En árangur höfðum við. Og það ætlum við einnig að gera varðandi þann ásetning okkar að tryggja betur réttindi og stöðu trúnaðarmanna.
Trúnaðarmaðurinn er fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar, okkar samtaka, á sérhverjum vinnustað; hann er gæslumaður réttinda starfsmanna, hann stendur í raun varðstöðu mannréttinda á vinnustaðnum; trúnaðarmanninum er ætlað að vera mótvægi við atvinnurekendavaldið þar – og ef við ætlum í raun að tryggja nokkurt jafnræði með þessum aðilum, atvinnurekandanum og launamanninum, þá verður að tryggja rétt trúnaðarmannsins. Þetta er því krafa um grundavallarrétindi; þetta er krafa um mannréttindi á vinnustað.
Góðir félagar, ég tala hér um samstöðu.
Á hve traustum samstöðugrunni stöndum við? Við erum í mismunandi pólitískum flokkum, við höfum jafnvel mismunandi trúarskoðanir, aðhyllumst mismunandi heimspeki og hugsun. En ég leyfi mér að fullyrða, að þegar kemur til kasta starfsins á vettvangi BSRB, ríkir mikil og góð eindrægni með mönnum. Þetta eins og annað hefur ekki komið af sjálfu sér því einnig samstöðuna þarf að rækta. Því er líkt farið með hana og urtina, ef lögð er við hana rækt dafnar hún og ber fræ og ávöxt.
Innan BSRB gætum við að því að rífa okkur ekki á hol í harðvítugum deilum um málefni sem við vitum að mjög mismundi viðhorf eru uppi um innan samtaka okkar og nefni ég þar sem dæmi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þar höfum við sameinast um að stuðla að opinni og lýðræðislegri umræðu án þess að þröngva fram niðurstöðu á vettvangi samtakanna.
Þegar hins vegar kemur að sjálfum undirstöðum siðaðs samfélags – samneyslunni og grunnþáttum velferðarþjónustunnar, heilbrigðis- og skólakerfi, rafveitum, skólpi, vatni–
já vatninu,
Gvendarbrunnunum viljum við öll halda í almannaeign – þá stöndum við saman.
Og öll viljum við að allir þegnar þjóðfélagsins hafi jafnan aðgang að sjúkrarúmum, skólum, öldrunarstofnunum, aðhlynningu og stuðningi við sjúka eða fatlaða. Við tökum öll undir þann skilning að slíkur stuðningur er engin ölmusa heldur viðleitni samfélagsins til að rísa undir sjálfsögðum skyldum. Um þennan skilning höfum við öll staðið saman –alltaf og hvernig sem við erum á litinn í stjórnmálaskoðunum. Hvort sem við erum rauð, blá, græn eða gul.
Þetta er engin tilviljun. Því hér byggjum við á langri hefð.
Ef við lítum hundrað ár til baka og skyggnumst um, þá sjáum við þjóðfélag án vökulaga, án kosningaréttar, án almennrar skólagöngu. Heilsugæslan var frumstæð, þjónusta við ellilífeyrisþega, fatlaða eða þroskahefta var engin. Lífeyrisréttindi engin. Námslán engin.
En hvað gerist svo?
Voru það fulltrúar fjármagnsins sem börðu í borðið? Kröfðust atvinnurekendur bættrar heilsugæslu? Lífeyrisréttinda, skólagöngu?
Nei, það voru samtök vinnandi fólks, launafólks, sem báru þessar kröfur fram og knúðu þær fram í samningum með samtakamætti. Bætt þjónusta við fatlaða hefur aldrei verið á dagskrá hjá peningamönnum, en við höfum sett slíka hluti á oddinn.
Og nú, þegar þetta eru orðnir sjálfsagðir hlutir. Þá vilja peningamennirnir fá ráðin og reksturinn.
Velferðarkerfið, sem við höfum byggt upp, við launafólkið, af sköttunum okkar í hundrað ár, oft með verkföllum, með tilheyrandi tekjutapi, er sú Lilja sem allir vildu nú kveðið hafa – og helst eiga.
Einkarekstur og eiginhagsmunir njóta sín vel þegar bóndinn keppist við að koma heyi í hlöðu, sjómaðurinn að landa afla eða kaupmaðurinn að bjóða einstakt tækifæri í búðinni sinni. En hugsun einstaklingshyggjunnar má sín einskis þegar hugsa skal um annað en eigin hag. Það veit líka bóndinn og sjómaðurinn og að sjálfsögðu kaupmaðurinn einnig – það veit hann þegar heilsan brestur eða þegar einn dugir ekki til þess átaks sem þörf er á til uppbyggingar og framfarasóknar.
Maðurinn einn er ei nema hálfur,
með öðrum er hann meir en hann sjálfur.
Allt hefur sinn stað og sinn tíma.
Sú hefð sem við byggjum á og erum svo stolt af, hefð félagshyggjunnar, hún hugsar um heildina, hugsar um þann sem þarf á hjálp að halda, hugsar um hinn veikburða, hinn aldraða og hinn ófædda. Samtök almennings, launaþjóðin, verkalýðssamtökin, er hið sterka afl sem alltaf á samúð aflögu, tekur tillit til allra. "Átök hans voru alltaf mjúk", sagði Halldór Laxnes um Sigurð Thorlacius, fyrsta formann BSRB og taldi þann eiginleika "einkenni allra verulega sterkra manna". Þetta er rétt hjá Nóbelsskáldinu, hinn sterki er fullur samúðar, þess vegna er hann sterkur, hinn veiki hugsar bara um sig, hann á ekkert aflögu.
Bóndinn hefur ekki samúð með verkamanni sínum þegar rigningin er yfirvofandi og heyin liggja flöt, né skipstjórinn með áhöfninni fyrr en skipið er sneisafullt, og við því er ekki að búast. Peningamaðurinn hefur ekki samúð með neinu nema bankabókinni sinni og við skulum aldrei reikna með öðru. Aldrei. Hann kann að hafa sínu hlutverki að gegna á sínum vettvangi, en peningamaður getur aldrei annast aldraða, fatlaða eða rekið sjúkrahús. Þar snýst dyggðin uppí löst. Sjúkraliði sem strýkur sjúklingi um kinn eða mælir huggunarorð í eyra, eyðir dýrmætum tíma. Læknir sem staldrar of lengi við á stofugangi snýr gróða í tap. Og þá þarf dyggðin að biðja löstinn afsökunar.
Peningamaður getur aldrei sparað annarra manna fé. Hlutverk peningamanns er að græða fyrir sjálfan sig, sjá tækifæri fyrir sjálfan sig og í því felst gildi hans – eða svo er okkur sagt. En peningamaður hefur bara samúð með eigin aurum. Ef þú felur peningamanni fjármuni þína í hendur, þá notar hann þá í sína eigin þágu en ekki í þína.
Við stöndum nú á tímamótum. Við höfum byggt upp þjóðfélag á hundrað árum með því að leyfa einstaklinghyggju og félagshyggju að þrífast hlið við hlið. Allir hafa fengið það ráðrúm sem þeir hafa þurft, peningamenn hafa fengið að kaupa og selja verðbréf og víxla, bóndinn að heyja, sjómaðurinn að fiska og kaupmaðurinn að selja sína vöru. Félagshyggjuöflin hafa tryggt hagsmuni almennings, þeirra sem vilja rækta heimili og börn, gæta aldraðra og sjúkra, þeirra sem gera okkur kleift að njóta menningar og náttúru og standa undir öllu því sem fylgir því að kallast þjóð meðal þjóða.
En nú er jafnvægið að riðlast. Peningamennirnir hafa náð að hvísla sætum smjaðurorðum að almenningi og stjórnvöldum og þeim hefur tekist að sannfæra marga um að þeir séu best til þess fallnir að eiga allar samfélagsstofnanirnar, reka allar ríkis- og bæjarstofnanir sem við höfum byggt og borgað með sköttum og skyldum. Einsog úlfurinn forðum hafa þeir borðað krít og tala mildum rómi um arð af heilsugæslu, menntun, lífeyrissparnaði, kvótakerfi, eyðingu öræfanna.
Þeir vilja gera vinnandi fólk að vöru, að aðföngum, sem hægt er að kaupa og selja einsog var fyrir hundrað árum, þannig að sá sem ekki á peninga verði réttlaus, verðlaus og eigi enga virðingu skilið. Mannkostir verði mældir í peningum. Gildi vinnunnar í gróða fyrir hverja unna stund.
Við erum að horfa uppá stórkostlegt rán um hábjartan dag. Það er verið að stela öllu steini léttara og ránið er sveipað hulu óskiljanlegrar hugmyndafræði og vísað í óstaðfestanlegar niðurstöður og að við munum uppskera ef ekki strax þá seinna og ef ekki seinna, þá hinum megin.
Það er verið að stela hundrað ára sparnaði og hundrað ára fjárfestingum, hundrað þúsund ára náttúru og hundruðum þúsundum tonna af fiski á hverju ári. Það er verið að gefa ríkisfyrirtæki, það er verið að veikja heilsugæsluna og aðra almannaþjónustu, til að gera hana of þróttlausa til að standast áhlaup sölumanna.
Við megum ekki sofna á verðinum. Við megum ekki halda að við séum búin að koma málum í höfn. Það tekur hundrað ár að byggja upp en minna en tíu að brjóta niður. Við þurfum stöðugt að vera á verði, við þurfum stöðugt að berjast. Við þurfum stöðugt að berjast fyrir sjálfsögðum hlutum. Við þurfum að gera ungu fólki grein fyrir því að án baráttu hefst ekkert.
Þótt ég fullyrði það stoltur að í BSRB höfum við sameiginlega staðið vaktina þá er það engu að síður staðreynd að það er engu líkara en kraftinn úr baráttu aldarinnar hafi þorrið um hríð. Velsældin hafi gert okkur mörg og börnin okkar værukær þannig að við uggðum ekki að okkur. Og þá er lag að hrifsa burt aldargamla ávinninga og áður en varir stöndum við á berangri frjálshyggjuþjóðfélagsins, þar sem hver er sjálfum sér næstur og félagshyggja, samúð og samhjálp aðeins úrelt hugmyndafræði sem löngu er komin framyfir síðasta söludag.
Nú skulum við blása í herlúðra og fylkja liði. Hættum að segja: “Það sem virðist vera að gerast getur ekki verið satt”. Því einmitt það sem sýnist er veruleiki. Látum ekki segja um okkur að, "jafnvel flónið finni fyrir orðnum hlut". Verjum eignir okkar og ávinninga. Verjum atvinnu okkar og sjálfsvirðingu. Látum ekki falsspámenn féfletta okkur og hlustum ekki á fagurgala peningamanna.
Virkjum tilfinningar okkar, réttlætiskenndina, finnum hjartsláttinn, okkar sameiginlega hjarstlátt, okkar sameiginlegu tilfinningar, okkar sameiginlegu sögu og hefð, leggjum rækt við hana um leið og við skundum galvösk til fundar við framtíðina. Ekkert fær stöðvað fólk sem á baráttuanda í brjósti.