ÞEGAR RÖKIN ÞRÝTUR...
Mikil var málefnafátæktin í Silfri Egils í gær þegar kom að umræðu um nýsett lög um Sjúkratryggingar. Málefnið sjálft var ekki rætt og kom það svo sem ekki mjög á óvart eftir að hafa hlustað á umræðuna á Alþingi. Þar var þegar orðið ljóst, að Sigurður Kári og fleiri úr hans hópi, réðu ekki við þig og félaga þína úr ræðustól. Þeir voru rökþrota og gripu þá til þess örþrifaráðs að ófrægja þig og BSRB fyrir að hafa aflað þeirra upplýsinga sem þið lögðuð fram máli ykkar til stuðnings. Lágt þykir mér risið á kappanum. Ég frábið mér reglur hans og ráð um það hvað samtök á borð við BSRB mega segja og gera, hvenær þau mega tjá sig og um hvað. (Sigurður Kári talar að vísu um félagsmenn í BSRB sem laun-þega og segir það sína sögu!!). BSRB hefur alla tíð látið sig samfélagið og samfélagsþjónustuna varða og haft uppi öflugan, vandaðan og heiðarlegan málfluting henni til varnar. Ég hvet BSRB til að halda þeirri vörn áfram, hversu mjög sem það fer fyrir brjóstið á Sigurði Kára, eða kannske einmitt vegna þess!!
Sjöfn Ingólfsdóttir