Fara í efni

ÞEIR LJÚGA ENGU VESTRA

Sæll Ögmundur.
Það sem átti að verða skýrt reyndist svo loðið og teygjanlegt. Ég á við útskýringar forsætisráðherra á því sem gerðist í aðdraganda innrásarinnar í Írak. Vestur í Bandaríkjunum hugsa menn skýrar og koma vel fyrir sig orði. Á blaðamannafundi um hádegisbil í utanríkisráðuneytinu bandaríska, 18. mars 2003, sagði Robert Boucher, talsmaður ráðuneytisins: “Það eru 30 lönd sem hafa fallist á að vera í hópi þeirra þjóða sem vilja afvopna Íraka tafarlaust. Þetta eru löndin sem við höfum leitað til og spurt: “Viljiði vera með?” og þau hafa sagt: “Já.”

Talsmaður Colin Powells les síðan upp viljugu ríkisstjórnirnar og þar er Ísland á blaði.

Fyrr þennan sama dag hefur Associated Press eftir Colin Powell: “Núna eru 30 þjóðir opinberlega á lista yfir hjörð hinna viljugu.” Á listanum sem Associated Press birtir eru þjóðirnar 30, en ekkert Ísland. Colin Powell bætir við samkvæmt frétt Associated Press: “.......og það eru 15 þjóðir, sem einhverra hluta vegna, vilja ekki láta nefna sig opinberlega en styðja hjörðina samt.”

Líkur benda til að Ísland hafi viljað skipa sér í þennan “leyndarflokk”, ef marka má orð Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, þótt hann skýri flokkunina með allt öðrum hætti en Colin í viðtali við 365 ljósvakamiðla:

 “Fréttamaður: Vissir að við vorum að fara á einhvern lista?
Halldór Ásgrímsson: Ég vissi að við vorum í hópi þjóða og það má náttúrulega alltaf búast við því að hópur sé settur upp á lista, ekki satt? Hvort það er kallaður hópur eða listi það finnst mér ekki skipta máli.
Fréttamaður: Nú segir þú að þetta hafi svo sem legið fyrir: Þú segir að þetta hafi, þið hafið vitað að þið voruð í hópi þjóða og það kannski mátti svo sem segja það að úr því að það væri kominn listi.
Halldór Ásgrímsson: Það var listi já, já.
Fréttamaður: En þú segir sko 20. mars segirðu í viðtali við Stöð 2 að: Ég er ekki alveg sáttur við það hvernig Bandaríkjamenn túlka þennan lista og daginn eftir í viðtali við Fréttablaðið þá segirðu: Mér finnst Bandaríkjamenn hafa oftúlkað þennan lista?
Halldór Ásgrímsson: Já, já, ég meina.
Fréttamaður: Sko, það lítur út fyrir að þú fyrir þitt leyti hafir verið búinn að samþykkja yfirflugsréttindin, aðgang að Keflavíkurflugvelli og stuðning við uppbyggingu en það hafi beinlínis komið þér á óvart að við værum á þessum lista?
Halldór Ásgrímsson: Nei, sko. Mér fannst og finnst enn að þarna hafi, erum við að tala um þjóðir sem að má flokka í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða þjóðir sem fóru þarna inn með mannafla, með vopn og búnað og þar eru þjóðir eins og Bretar og Danir og Spánverjar og margar aðrar þjóðir. En þessi listi sem svo er kallaður að þar voru allar þessar þjóðir listaðar upp eins og um samskonar mál væri að ræða. En ég geri að sjálfsögðu mikinn greinarmun á því hvort við erum að taka ákvörðun um að taka beinlínis þátt í slíku máli.
Fréttamaður: En Bandaríkjastjórn gerði engan greinarmun þar á?
Halldór Ásgrímsson: Nei, þeir gerðu það ekki og við það var ég ósáttur.”

Útskýringar forsætisráðherra eru jafn loðnar og yfirlýsingar Colin Powell eru skýrar 18. mars 2003. Sá síðarnefndi segir: 30 þjóðir styðja okkur og vilja láta nefna sig. 15 þjóðir styðja okkur til viðbótar og vilja ekki láta nefna sig. Listinn sem hann lætur Associated Press í té er ekki með neinu Íslandi á. Við erum sem sé í 15 landa hópnum. Flokkunin hefur ekkert með það að gera hvort löndin senda vopn og verjur eins og forsætisráðherra heldur fram heldur er verið að taka tillit til vilja ríkisstjórna viðkomandi viljugrar þjóðar. Það er sömuleiðis rangt það sem er skástrikað hér að ofan og forsætisráðherra segir, að allar stuðningsþjóðirnar séu listaðar upp. Það er samkvæmt orðum Powell ekki rétt. Það er hins vegar blaðafulltrúi Powell, Robert Boucher, sem missir út úr sér nafnið Ísland á blaðamannafundi um m.a. hina viljugu síðar þennan sama 18. mars.

Það sem kannski er sérstaklega áhugavert við kattarþvott forsætisráðherra er að ráðherra er lítt og ekkert spurður um hinn langa aðdraganda þess að listi hinna viljugu landa verður til og vonandi hafiði í stjórnarandstöðunni meira þrek til að spyrja en kom fram í umræðum um málið í vikunni Ögmundur. Til dæmis um þetta: Í nóvember 2002 upplýsti Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að bandarísk stjórnvöld hefðu sett sig í samband við 50 ríkisstjórnir í því skyni að setja saman lista viljugra þjóða um stuðning við innrás í Írak. “Sumar segjast leggja mikið af mörkum, aðrar minna, sagði Rumsfeld. “Sumar hafa beðið um að framlag þeirra og stuðningur verði trúnaðarmál.”

Þetta er í nóvember 2002 Ögmundur, en afdráttarlaus yfirlýsing Rumsfeld er ekki ólík þeirri þokukenndu hugsun sem fram kemur í viðtalinu við forsætisráðherra. Mætti ekki spyrjast fyrir um hvort Ísland hafi verið í þessum 50 þjóða hópi?
Stefán
p.s. Af nógu er að taka en ég læt  hér fylgja tvær slóðir:
http://www.signonsandiego.com/news/world/iraq/20030318-1144-powell.html
http://www.casi.org.uk/discuss/2003/msg00086.html

Sæll Stefán og þakka þér bréfið. Það var athyglisvert - mjög !
Kv.
Ögmundur