ÞINGLOKIN: NÁTTÚRAN, VATNIÐ, AUÐLINDIRNAR, STJÓRNARSKRÁIN, SPILAFÍKN OG BAKKI
Þinglokin voru um margt óvenjuleg. Margir voru greinilega orðnir þreyttir eftir margra vikna rökræðu og stundum þvarg um stór mál og smá. Þetta hefur sennilega átt þátt í að skýra þá tilfinningasemi sem var undir lokin farin að einkenna umræðuna.
Utandyra börðu nokkrir stjórnlagaráðsmeðlimir og aðrir sama sinnis pönnur og höfðu í heitingum við þingmenn fyrir að svíkja þjóðina með því að samþykkja ekki stjórnarskrána sem „fólkið hafði samið" og ætti nú að afgreiðast umyrðalaust. Það undarlega var að fæst af þessu fólki hafði andæft því þótt margir tugir breytinga hefðu verið gerðar á stjórnlagaráðsdrögunum sem Stjórnlagaráð hafði sent frá sér. Innandyra fóru nokkrir þingmenn mikinn með svipuðum svikabrigslum.
Þjóðaratkvæðagreiðslan er vegvísirinn
Ég er sammála þessu fólki að því leyti að augljóslega á að festa í stjórnarskrá þau efnisatriði sem meirihlutinn samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október síðastliðnum: Ákvæði um þjóðareign á auðlindum, beint lýðræði, jöfnun kosningaréttar, aukið vægi persónukjörs og stöðu þjóðkirkunnar. Um sum þessi ákvæði hefur orðið umræða um útfærslu, einfaldlega vegna þess að útfærsla Stjórnlagaráðs þótti ekki nægilega skýr og úthugsuð. Það breytir því ekki að efnisatriðin hafa verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég er því algerlega sammála að þjóðarviljann á að virða. Þetta hef ég margsinnis lagt áherslu á t.d.: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvernig-vaeri-ad-hafa-thad-sem-sannara-reynist og https://www.ogmundur.is/is/greinar/audvitad-gef-eg-upp-afstodu
Nú bíður það nýs þings að koma þjóðarviljanum í framkvæmd. Samkvæmt núverandi stjórnarskrá þurfa tvö þing að samþykkja stjórnarskrárbreytingu. Nú var hins vegar samþykkt tillaga um að auk þessa gamla ákvæðis (sem áfram verður til staðar) eigi að vera hægt að breyta stjórnarskrá á einu þingi og skjóta niðurstöðunni til þjóðarinnar. Samþykki hún tillöguna í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 40% þjóðarinnar stendur að baki, þá þarf ekki að bíða eftir nýju þingi: breytingin verður að veruleika. Þetta auðveldar með öðrum orðum stjórnarskrárbreytingu frá því sem nú er. Þetta sáu ýmsir ástæðu til að túlka sem sérstök svik!
Útblásinn hroki
Merkilegt hvað þau sem leyfa sér að tala með þessum hætti - útblásin af hroka - og niður til þeirra sem þó voru að reyna að þoka málum áfram gegn stjórnarandstöðu sem barðsist um á hæl og hnakka gegn því að nokkru yrði breytt í stjórnarskránni, sérstaklega þjóðarauðlindaákvæðinu.
Lítið heyrði ég þetta fólk tala um breytingu á auðlindalöggjöfinni frá 1998 sem atvinnuráðherrann hafði lagt fram og gekk út á að færa grunnvatnið undan einkaeignarréttarákvæðum auðlindalöggjafarinnar og undir sams konar skilgreiningu og yfirborðsvatnið lýtur í vatnalögnum. Þar er um að ræða afnotarétt en ekki eignarrétt.
Náttúruverndin fagnaðarefni - en afdrif vatnsins hryggileg
Í þeim ranni sem ég heyri til á Alþingi talaði ég fyrir því að við legðum áherslu á Náttúruverndarlögin, auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar og fyrrnefnda breytingu í auðlindalögum sem ég hef talað ákaft fyrir allar götur frá 1998 og mjög ákveðið og með vaxandi þunga í tíð þessarar ríkisstjórnar. Vildi ég reyndar forgangsraða í öfugri röð við það sem hér er talið upp. Við náðum Náttúruverndarlögunum í gegn og er það mikið fagnaðarefni. Hin málin náðu ekki fram að ganga og bíður það næsta þings að berjast fyrir þeim. Þau mál, að ógelymdri breytingu á fiskveiðistjórnunarkerfinu!, munu hins vegar ekki nást í gegn ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur koma til með að fá meirihluta á næsta þingi! Það kom í ljós við þessar nýafstöðnu umræður.
Til umhugsunar
Þótt auðlindaákvæðið í stjórnarskrá hefði verið samþykkt nú, hefði það að öllum líkindum verið fellt á næsta þingi ef Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur kæmust í meirihluta. Núverandi meirihluti myndi hins vegar samþykkja ákvæðið á næsta þingi og eftir fyrrnefnda breytingu á stjórnarskánni er búið að opna fyrir þann möguleika að eitt þing dugi, því með atbeina þjóðarinnar má ætla að auðlindaákvæðið, beina lýðræðið, jöfnun atkvæðisréttar og persónukjör náist fram! En ég ítreka að þetta gerist aðeins að því tilskildu að þeir flokkar sem eru þessu andvígir nái ekki meirihluta á Alþingi í næstu kosningum. Væri ekki vert að hugleiða þetta í stað þess að einbeita öllum sínum lífs- og sálarkröftum í þær formælingar sem við höfum þurft að afplána síðustu daga - af hálfu margs hins ágætasta fólks?
Fáninn á að vera að húni, ekki í hálfri stöng!
Ég greiddi að sjálfsögðu ekki atkvæði með hinum ríflega ríkisstyrk til Bakka og eftirgjöf upp „úr vasa skattgreiðenda" eins og einn lesandi síðunnar orðaði það. Ég afréð hins vegar að láta afstöðu mína koma fram við atkvæðagreiðsluna en ekki í ræðustól, vitandi að þegar svona mál hefur á annað borð verið kynnt, hvað þá komið í þingsal, þá vakna gamlar kenndir með Framsóknarflokknum, Sjálfstæðisflokknum og að hluta til Samfylkingunni - og er algerlega fyrirsjáanlegt að pakki af þessu tagi er samþykktur ef Vinstrihreyfingin grænt framboð veitir honum blessun sína. VG hefur verið sá flokkur sem staðið hefur gegn ívilnunarpólitík fyrir stóriðju og á vonandi eftir að hefja slíkan baráttufána að húni að nýju. Ég mun leggja mitt af mörkum til að draga hann að húni. Sá fáni á ekki heima í hálfri stöng. Í þá veru talaði umhverfisráðherrann einnig á þingi í umræðunni um Bakka og ívilnunarsamningana.
Náttúruverndarsamtök hafa einnig mótmælt; hafa áhyggjyur af Mývatni og því svæði öllu enda fráleitt að ráðast í orkufrekan iðnað án þess að rækilega sé kortlagt hvaðan orkan kemur og að orkuöflunin valdi ekki alvarlegum náttúruspjöllum.
Fyrir þau sem gerast gagnrýnin og jafnvel döpur yfir þessum ákvörðunum er vert að hugleiða að Vinstrihreyfingin grænt framboð er lang-líklegust allra flokka á þingi til að standa vörð um náttúruna. Það þarf undantekningarnar til að sanna þá reglu.
Fasískt að koma spilafíklum til aðstoðar?
Þingmenn Hreyfingarinnar sem virtust fátt sjá annað en stjórnarskrána, ekki innihald hennar heldur fyrst og fremst umbúnaðinn, voru ósparir í baráttunni gegn því máli sem mér þótti einna dapurlegast að næði ekki fram, nefnilega Happdrættisstofufrumvarpinu. Það lagafrumvarp gekk út á að koma skikki á starfsemi happdrætta og fjárhættuspila en því miður búum við hér á landi við lélegustu löggjöf á því sviði allra norrænna ríkja og þótt víðar væri leitað. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir auknu forvarnarstarfi og meðferð fyrir spilafíkla, betra regluverki og að hemja fjárhættuspil á netinu, færa þá starfsemi inn fyrir landamærin og setja um hana reglur sem komi í veg fyrir að spilafíklar spili frá sér aleigunni og geðheilsunni.
Við smíði frumvarpsins var horft til norskrar fyrirmyndar um skiuplag og löggjöf. Frumvarp mitt sagði Þór Saari vera „fasískt" án þess að skýra það frekar. Svipaðar fordæmingar hafa heyrst frá Birgittu Jónsdóttur sem einnig hefur einhent sér í að stöðva „klámfrumvarpið", sem að vísu hefur ekki enn litið dagsins ljós.
Ekki unnið fyrir gýg!
Ég harma að happdrættisfrumvarpið skuli ekki hafa verið samþykkt, sama á við um útlendingafrumvarpið, umferðalagafrumvarp mikið og vandað að vöxtum, frumvarp um persónukjör og mörg önnur mál sem ég tel horfa til framfara og eiga vonandi eftir að ná fram að ganga á næsta þingi. Auðvitað er þessi vinna ekki unnin fyrir gýg! Ekki fremur en vinna við nýja stjórnarskrá. En það verður að sjálfsögðu komið undir því hvernig meirihlutinn verður skipaður á næsta þingi hver framvindan verður.
Gleður hjarta mitt
Á hitt er að líta að fjöldi framfaramála hafa verið samþykkt. Ef ég horfi sérstaklega til Innanríkisráðuneytisins get ég nefnt lög um rafrænar kosningar og margvíslega löggjöf sem lítur að réttindum barna, skipulagsbreytingar í samgöngumálum auk breytinga á reglugerðum, sem allar ganga í þá átt að styrkja réttarstöðu einstaklinganna í samfélaginu og samfélagsleg gildi. Það er hjartastyrkjandi.