Fara í efni

ÞINGMANNAFRUMVARP LÍTUR DAGSINS LJÓS

Á Alþingi er gerður greinarmunur á stjórnarfrumvarpi og þingmannafrumvarpi. Að stjórnarfrumvarpi stendur stjórnarmeirihlutinn á þingi og eru slík frumvörp jafnan lögð fram af hálfu ráðherra með ríkisstjórnina að bakhjarli. Stjórnarfrumvörp eru kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna áður en ríkisstjórnin leggur blessun sína yfir þau. Slík frumvörp ná oftast fram að ganga á kjörtímabilinu og verða að lögum nema í undantekningatilfellum.

Öðru máli gegnir um þingmannafrumvörp. Þingmennirnir sem að þeim standa geta verið fáir eða margir eftir atvikum og úr stjórn eða stjórnarandstöðu. Þingmannafrumvörp eiga engan vísan framgang í þinginu.
Í dag kynntu tveir alþingsmenn slíkt frumvarp. Það voru þeir Geir H. Haarde, Sjálfstæðisflokki og Jón Sigurðsson, Framsóknarflokki. Tvennt óvenjulegt var við frumvarpið. Í fyrsta lagi varðaði það breytingu á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, sjálfa stjórnskipun landsins, og í öðru lagi gegnir annar þessara þingmanna stöðu forsætisráðherra og hinn stöðu iðnaðarráðherra. Þeir gegna og formennsku í stjórnarflokkunum.

Það sem gerir málið enn sérkennilegra er að á vegum þessara aðila hefur verið starfandi sérstök stjórnarskrárnefnd sem undanfarin ár hefur haft það verkefni með höndum að ná breiðri samstöðu um breytingar á stjórnarskránni. Þykir það skjóta nokkuð skökku við að ráðherrarnir tveir, oddvitar stjórnarmeirihlutans skuli nú, á síðustu dögum þingsins bregða sér í þingmannslíki og flytja prívatmál um breytingar á þessari sömu stjórnarskrá!

Allt þetta væri þó góðra gjalda vert ef þingmennirnir reyndu að leita eftir samkomulagi um þær breytingar sem þeir vilja ná fram. Ef svo væri þætti okkur framganga þeirra eflaust trúverðugri. Þetta gera þeir ekki. Þvert á móti virðist allt gert til að koma í veg fyrir að sátt geti myndast.

Stjórnarandstaðan hefur boðist til að lengja þinghaldið svo ráðrúm gefist til þess að vinna málið frekar. Sú vinna gæti hins vegar orðið nokkuð strembin. Þeim sem kynnt hafa sér frumvarp tvímenninganna, þeirra Geirs og Jóns, dylst ekki að smíð þeirra er harla gölluð. Hætt er því við að örlög þessa þingmannafrumvarps verði hin sömu og margra annarra þingmannafrumvarpa; að þau hafni í glatkistunni. Hitt er svo annað mál að þessi sýndartilraun þeirra félaga til að breyta stjórnarskránni gæti hafa bjargað stjórnarsamstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.