Fara í efni

ÞINGMENN ÁKVEÐI EIGIN KJÖR!

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 04/05.03.17.
Úr gagnstæðri átt skrifar Sigríður Andersen um síðustu helgi og varar við því að þingmenn fari að krukka í eigin kjör, eins og oddvitar ASÍ og SA nú krefjast, því þar með væru þeir farnir að semja við sjálfa sig.

Pistill  okkar ágæta dómsmálaráðherra hófst á þessum orðum: „Ekki fer vel á því að menn skammti sjálfum sér laun af annarra manna fé. Einhver gæti kallað slíkt sjálftöku. Þess vegna voru kjaramál þingmanna,sem fara með fjárveitingarvaldið í landinu, færð til kjararáðs. Það er full ástæða til að efast um að þingmenn séu hæfir til að fjalla um eigin kjör. Með lögum er kjararáði skylt að hafa almenna launaþróun til hliðsjónar við ákvörðun launa þingmanna og ráðherra, auk annarra atriða."


Sigríður Andersen rekur síðan hvernig Kjararáð hafi ákvarðað kjör þingmanna og annarra skjólstæðinga sinna með tilliti til kjaraþróunar eins og því beri að gera. Samkvæmt lögum skuli Kjararáð sérstaklega hafa að viðmiði hópa á borð við þá sem oddvitarnir tveir tilheyra sjálfir, þótt Sigríður telji reyndar að betur séu þeir haldnir en háttvirtur þingheimur.

En vel að merkja, deilumálið hefur ekkert með há laun eða lág laun að gera, ekki heldur réttlæti eða ranglæti, jöfnuð eða ójöfnuð. Að mati oddvita ASÍ og SA skal horft á það eitt hvort kjaraþróun einstakra stéttarfélaga sé í samræmi við það sem þeir hafa ákveðið. Þeir vita nefnilega að takist þeim að koma á því fyrirkomulagi að þeir ráði lögum og lofum um kjaraþróun launaþjóðarinnar, þá eru þeir komnir með ómæld völd í hendur gagnvart ráðherrum og þingi: "Ef þið ekki farið að okkar vilja, beitum við herjum okkar!"

Sá hængur er þó á, að til að herirnir verði meðfærilegir þarf fyrst að tappa af þeim blóðinu, slæva baráttuandann.

Hugsunin að baki því sem kallað er SALEK og fæstir skilja hvað þýðir, er sú að kjarabaráttan verði afnumin og allt ákvörðunarvald fært undir miðstýrða reglustiku þessara aðila.

Er þá aftur komið að þingfararkaupinu. Sigríður gleymir einu í sambandi við lögin, en það er að ákvarðanir Kjararáðs mega ekki valda usla á vinnumarkaði. Á þessu hanga stýrimennirnir tveir, frá ASÍ og SA, og sýnist mér örla fyrir glotti.

Vissulega hygg ég að þeir óttist í alvöru að láglaunaþjóðinni kunni að verða svo misboðið að hún rísi upp og hefji sjálfstæða kjarabaráttu sem náttúrlega alls ekki má gerast samkvæmt hinni nýju hugsun. En jafnframt eygja stýrimennirnir sóknarfæri. Það felst einfaldlega í því að koma Alþingi og Stjórnarráði í pólitískan gapastokk.

Þess vegna sagði forseti ASÍ í vikunni að kjarasamningar við kennara á liðnu ári, sem hefðu verið umfram leyfileg mörk, yrðu látnir átölulausir að þessu sinni "en ekki til frambúðar þó." En bætti síðan við, "félagspólitískt vega úrskurðir Kjararáðs mun þyngra en hinir samningarnir"!

Með Kjararáði vildu alþingismenn á sínum tíma finna leið sem forðaði þeim frá þeirri gagnrýni sem jafnan fylgdi launahækkunum þeim til handa. Þess vegna var Kjararáði uppálagt með lögum að elta stétt þeirra Gylfa Arnbjörnssonar og Halldórs Benjamíns, forstjóranna við SALEK borðið. Þar með væri komin pottþétt kjaratrygging en þingmenn sjálfir lausir allra mála.

Veikleiki úrskurðarnefndarfyrirkomulagsins er hins vegar sá að enginn verður beint ábyrgur.

Þingmenn eiga að mínu mati að axla ábyrgðina beint og ákveða kjör sín sjálfir, gætu gert það í sömu viku og ákvarðanir eru teknar um kjör aldraðra og öryrkja. Þessu fylgdi án efa áhugaverð umræða.

Eins og sakir standa eiga þingmenn að losa sig úr siðferðilegri spennitreyju sinni með því að stórbæta kjör þeirra sem að fullu þurfa að reiða sig á Almannatryggingar. Það er í valdi Alþingis að gera.