ÞINGMENN GANGA ÚT Á ÍSINN – HINN BROTHÆTTA ÍS
Eins og fram hefur komið á síðunni á hinn stóri glæpur stjórnarandstöðunnar undir þinglokin og þá sérstaklega VG að hafa verið að koma í veg fyrir að meint mannréttindafrumvarp frjálshyggjufólks í nokkuð mörgum flokkum (sjá hér) um að koma léttvíni og bjór í matvöruverslanir næði fram að ganga.
Málið fékk enga umræðu fyrr en eftir þinglok enda varð mönnum þá ljóst að því var teflt fram sem innleggi í kosningabaráttuna.
En víkjum að þinginu. Af hálfu stjórnarandstöðu hefur sú ósk oft verið látin í ljósi að þingmálum hennar yrði sinnt. Látum vera ef við gætum fengið þó ekki væri nema ofurlitla umræðu um þá tugi frumvarpa sem stjóranarmeirihlutinn hefur kæft til dauða. Frumvarp um að taka Ísland af hinum svívirðilega lista um undirgefnar stríðsþjóðir Bush í Íraksinnrásinni er dæmi um þingmál sem aldrei kom úr nefnd. Ekki heldur frumvarp um að gera táknmál heyrnarlausra að viðurkenndu máli heyrnarlausra. Það er þó mannréttindamál langt umfram Johny Walker og félaga sem tendra hugsjónaeldana hjá Sigurði Kára, Guðlaugi Þórðarsyni, Pétri Blöndal og öðrum sem eiga þá heitasta ósk að fólk geti keypt sér áfengi á bensínstöðinni. Þessir menn ganga samstiga í pólitíkinni. Þeir ganga samstiga út á hinn brothætta ís... Þeir verða nefnilega spurðir um öll þau mál sem þeir hafa svæft og ekki leyft fram að ganga svo sem mannréttindamál heyrnarlausra. Hvers vegna kom það ekki úr nefnd? Hvers vegna ræða fjölmiðlar ekki það mál? Hvers vegna hafa þeir aðeins áhuga á léttvíni og bjór?